Mér hefur alltaf fundist breskir listamenn pínu smart. Bretar hafa nefnilega löngum getað státað sig af allskyns frægum og framúrstefnulegum listamönnum langt aftur í aldir. Það er einhvern veginn eins og þeir séu ávallt skrefinu á undan.

Bítlarnir komu með rokkið og Sex Pistols með pönkið, Jane Austin var farin að skrifa feminískar bókmenntir langt á undan því hugtaki og svo auðvitað J.R. Tolkien sem uppgötvaði hvað norrænar bókmenntir væru töff löngu áður en að þær urðu tískufyrirbæri.

Ég hef alltaf látið mig dreyma um að geta lesið allar þessar bresku bókmenntir á frummálinu, bókaflokkur Terry Pratchett bíður mín hér upp í hillu í öllu sínu veldi en ég er ekki nógu vel að mér í enskunni og læt mér því duga íslenskar þýðingar á enskum verkum og elskan hann Terry verður því að bíða. Og á vafri mínu um barnabókasafnið  datt ég niður á ansi skemmtilegan breskan barnabókahöfund, David Walliams. Hann hefur verið einna frægastur fyrir að vera skemmtilegur grínsti og leikari, sjónvarpsþættir hans hafa notið vinsælda um allan heim og maðurinn er einfaldlega fyndinn fyrir það eitt að vera til.  Ég las fyrst Ömmu glæpon, hún var stórfín og myndin ekki síðri, síðan þá hef ég eiginlega lesið allt sem hann hefur skrifað fyrir krakka og þýtt hefur verið á hið ástkæra ylhýra.

Ein af hans nýjustu bókum, annað bindi af þremur í bókaflokknum um verstu börn í heimi kom út fyrir jól en ég hafði lesið fyrsta bindið bæði ein með sjálfri mér og svo líka upphátt fyrir krakkana í skólanum sem eg vinn í.

Höfundurinn hefur einstakan hæfileika til að skrifa fyrir krakka. Hann ber virðingu fyrir þeim, talar aldrei niður til þeirra, fellur ekki í þá gryfju að vita betur en þau og troða í textann einhverjum siðaboðskap eins og svo oft er reynt að gera þegar barnabækur eru annars vegar. Krakkar sjá í gegnum svoleiðis. Að ætla að vera með einhverjar uppeldispredikanir í sögum fyrir börn er ekki að virka nema í örfáum tilfellum og er virkilega vandmeðfarið.

En það er ekki þar með sagt að bókin sé án innihalds og boðskapar. Það er margt í þessari bók sem hægt er að rökræða eftir lesturinn. En sá boðskapur beinist ekki síður að okkur fullorðna fólkinu en krökkunum. Bókin spannar 10 ýkjusögur sem allar segja okkur hversu hörmulegar afleiðingarnar geta orðið ef við gætum ekki að okkur, sögurnar taka á hlutum eins og græðgi, öfund, tilætlunarsemi og því hvernig það kemur okkur ætíð sjálfum í koll ef við tölum illa um aðra og komum illa fram. Og afleiðingarnar eru alltaf hræðilegar. Meginþemað í gegnum allar sögurnar er, komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig. En þessi boðskapur sem hér er talinn upp beinist ekki bara að krökkunum heldur er hann ekki síður ætlaður okkur fullorðna fólkinu.

Sögurnar eru bráðfyndnar, textinn skemmtilega fram settur, orð eru dreginn út úr textanum og setningar ýmist skakkar eða jafnvel á hvolfi.  Myndskreytingar eru litríkar og gáskafullar, blaðsíðurnar spretta fram og æpa á að vera lesnar.

Persónurnar eru fyndnar og uppátektarsamar, eins og til dæmis Halli sem aldrei lærði heima, Pála Púki og Ógnhildur Ógeðslega. Aukapersónurnar eru ekki síðri eins og t.d. myndlistarkennarinn, hún ungfrú Lína, sem dýfði rassinum í bláa málningu og stimplaði rassafar upp um alla veggi.

Svo má auðvitað ekki gleyma sjoppueigandaum Bótólfi sem kemur við sögu í flest öllum bókum Walliams og rammar oft söguna inn.  Þessi bók er uppfull af húmor sem krakkar skilja og það er greinilegt að Walliams skilur börn. Eini gallinn sem ég sé við bækur þessa frábæra höfundar er að þær eru ívið of langar. Börnum óar oft við að taka bók og ákveða að lesa sem er kannski um 400 blaðsíður að lengd. Þeim finnst það óyfirstíganlegt verkefni að ráðast í slíkan lestur. En ég skil líka að erfitt sé að stytta slíkan skáldskap sem þessar bækur eru. Því þar er engu orði ofaukið.

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...