Hundakæti: Dagbækur Ólafs Davíðssonar 1881-1884

Nú veit ég ekki hversu vel þeir sem lesa þennan pistil þekkja mig, en líklegast er betra að játa strax. Það er eiginmaður minn sem stóð að baki útgáfunni á bókinni sem ég ætla að fjalla um. Hverskonar nepótismi og eiginhagsmunapot viðgengst eiginlega hér á Lestrarklefanum, kunna einhverjir að hnussa. En það má líka allt eins segja að ég hafi verið furðu áhugalaus um þessa bók. Hún kom út fyrir jólin 2018 og ég las hana ekki í heild sinni fyrr en í síðustu viku. En þegar að útgáfunni kom hafði maðurinn minn varla talað um annað en Ólaf Davíðsson og dagbækur hans í meira en ár, og orðið mjög tíðrætt um hann í kannski tvö ár á undan því. Mér leið því alveg eins og ég hefði lesið bókina, svona eins og þegar maður hefur horft á bíómyndina. En þrátt fyrir alla mína fyrirfram vitneskju um Ólaf, þá hafði það mikil áhrif á mig að lesa loksins bókina almennilega.

Hundakæti er ekki skáldsaga, heldur heimildaútgáfa. Í bókinni eru tvær dagbækur Ólafs Davíðssonar, skólapilts í Lærða skólanum í Reykjavík á seinni hluta 19. aldar. Ólafur er ekki beinlínis fræg persóna í Íslandssögunni, þó eftir hann liggi þónokkuð starf, bæði á sviði náttúrufræði og svo þjóðfræði. Hann ákvað hins vegar að halda dagbók, um veðurfarið í lífi sínu. Fyrst og fremst fyrir sjálfan sig, en það er líka greinilegt að hann hafði það í huga að dagbókin kæmi fyrir augu annarra lesenda seinna meir. Í dag eru dagbókarskrif hans merkileg fyrir svo ótal margar sakir, þær lýsa fjarlægum tíma, lífsháttum og skoðunum. En það sem gerir hana fyrst og fremst svona einstaka er hvað Ólafur var skemmtilegur penni. Hann nær ótrúlega góðu jafnvægi á milli lýsinga á bæjarlífinu og sínum eigin hugsunum og tilfinningalífi (en guð hjálpi mér hvað mín eigin dagbókarskrif í menntaskóla væru ómerkileg í samanburði). Ætlunin með útgáfunni var að gera Ólaf aðgengilegan sem flestum, bæði almennum lesendum og fræðimönnum, því dagbókin á erindi til beggja hópa. (Ég er auðvitað frekar ódómbær á það hversu vel honum Þorsteini mínum tókst til með það verk, svo ég ætla bara að fjalla um hlut Ólafs í bókinni.) 

Ólafur er fæddur meira en hundrað árum á undan mér, en samt er svo ótal margt í hans fari og upplifunum sem ég tengdi við. Hann gerir þrjár atlögur að því að hefja dagbókina, áður en það tekst. Hann byrjar í fyrsta sinn að skrifa í apríl 1881, en meginhluti bókarinnar hefst ekki fyrr en í lok mars 1882. Alltaf hefur hann fögur áform um reglufestu og dugnað, og alltaf gerir hann jafn mikið grín að sjálfum sér fyrir gleymskuna. Megnið af dagbókinni gerist í upplestrarfríinu fyrir stúdentsprófin og þar er það sama uppi á teningnum. Hann gerir sér stranga dagsskipan fyrir lærdóm, svefn og afþreyingu, en það er bara alltof mikið að gera! Hann þarf að fara í gönguferðir með vinum sínum, sitja niðri í fjöru og horfa á hafið á meðan hann hugsar dramatískar hugsanir, leggja drög að endalausum smásögum, byltingarkenndu nýju tímariti og hálfu yfirlitsverki um bókmenntasögu. Það þarf líka að skrifa bréf heim, læra að reykja, fara í partí, drekka bjór og borða vínarbrauð. Svo hittast þeir Geir auðvitað daglega, svo oft að Ólafur skrifar ekki um það nema þeim beri eitthvað sérstakt á góma.

Ólafur á unglingsárunum.

Geir var unnustan hans Ólafs og var líka í Lærða skólanum, en nokkrum árum yngri. Eitt af því allra sérstakasta við dagbók Ólafs er að lesa lýsingarnar á sambandi hans við Geir, því hvorugur þeirra þekkti hugtakið samkynhneigð, hvorki sem eitthvað jákvætt, neikvætt eða hlutlaust. Ólafur skrifar aldrei neitt sem gefur það í skyn að honum hafi fundist hann sjálfur vera öðruvísi en aðrir af því að hann sé að kyssa strák. Hann er bara ósköp skotinn í Geir og getur ómögulega orðið reiður við hann. Nema kannski næstum því, ef Geir er eitthvað að fíflast með augndropana hans. (Ólafur þjáðist af augnverk og sá illa, og þó var það hans mesta yndi að lesa og skrifa. Ég fór ósjálfrátt að velta því fyrir mér hversu eitraðir augndropar gætu hafa verið árið 1882).

Ólafur og Geir þurfa aldrei að fara leynt með neitt. Þeir ganga um bæinn sem par, gista hvor hjá öðrum, kúra og kyssast. „Sjórinn var eins og rjómatrog. 24 skip lágu á höfninni. Himininn var hulinn gráleitum netjaskýjum, sem voru svo þunn og laus í sjer, að himinbláminn sást í gegnum þau. Það var ágætt fjallsýni. Við sáum bæði Reykjanesfjöllin og Snæfellsnesfjöllin. Elskan mín var hjá mjer, og við vorum með ágæta vindla. Þannig hjálpaðist náttúran og hagleikur mannanna að, að inndæla þessa stund.“ skrifaði Ólafur þann 9. maí, 1882 (bls. 182).

Það er svo margt fallegt við samband Ólafs og Geirs, ekki síst hversu áhyggjulaust það er. En það er samt hægt að lesa það á milli línanna að Ólafur var líka hugsi yfir því hvernig hann gæti orðið hamingjusamur. Hvernig hann gæti notið lífsins, veitt sér alltaf það sem hann vildi, en viljað bara það sem væri rétt og gott. Í orðum hans í dagbókinni er heldur aldrei að sjá að hann hafi velt því fyrir sér hvort samband hans við Geir ætti sér framtíð utan skólans. Hann hugsar sér að giftast í framtíðinni og virðir oft fyrir sér stelpur og konur, jafnvel þó honum finnst þær aldrei neitt spes.

Það er áhugaverð spurning að hve miklu leyti Ólafur hefði tekið undir þá skilgreiningu okkar í dag að hann hafi verið samkynhneigður. Hefði sú skilgreining gert hann eitthvað hamingjusamari? Það er ljóst af dagbókinni að Ólafur setti sjálfum sér mjög háleit siðferðisleg markmið, jafnvel þó hann sé stundum kæruleysislegur, grófur eða klæminn. (Ég státa hér reyndar af ákveðnum forréttindum, maðurinn minn hefur fært mér nokkrar tilvitnanir í bréf Ólafs líka. Extra áhugasamir geta kynnt sér grein hans í Sögu 2018.) Þó Ólafur hafi átt þessa fallegu æskuást, þá veit ég ekki  hversu auðvelt honum hefur reynst að vera í alvarlegra sambandi síðar meir. Í dagbókunum sér hann það tvívegis fyrir sér sem æðstu sælu að kúra saman nakinn og kyssast, en gera ekkert fleira. Í bæði skiptin setur hann þennan þankagang þar að auki fram í tengslum við kvenfólk. Gat Ólafur sofið hjá, án þess að verða um leið fyrir vonbrigðum með sjálfan sig? Hefði hann þá fundið fyrir þeirri skömm, sem hann var svo algerlega laus við þegar hann var með Geir? Þetta gerði mig frekar sorgmædda yfir lestrinum, því það er erfitt annað en að láta sér þykja vænt um þann Ólaf sem maður kynnist í upplestrarfríinu 1882.

Síðasta blaðsíðan í fyrri dagbókinni. Skítur á hlemm og hehem. Ólafur var grallaraspói.

Meginhluti bókarinnar gerist í apríl og maí 1882, í miðjum próflestri og óvenjulegri kuldatíð. Ekki beint hin hefðbundna sumarást, og það er eitt af því sem mér finnst merkilegast við bókina. Öfugt við skáldsögur, þá stjórnast hún ekki af því sem manni þætti eðlilegar áherslur og söguppbygging. Því hvað með stúdentsprófin, síðasta sumarið í sveitinni heima og ferðina til Kaupmannahafnar, með viðdvöl í Skotlandi? Ekkert af þessu er í dagbókinni, því rétt fyrir próf leggst Ólafur í mislinga og hættir að skrifa. Hann byrjar ekki aftur fyrr en löngu síðar, þegar hann er búinn að vera tvær vikur í Kaupmannahöfn. Þá kveður við allt annan tón. Skemmst er frá því að segja að Ólafi leið ekki vel í Kaupmannahöfn, og menningarsjokkið skín í gegn í þessum fyrstu dagbókarfærslum hans þar úti. Vitneskja lesandans um að hann hafi endað á að dvelja þar í 15 ár og snúið aftur próflaus gerir lesturinn ennþá átakanlegri. Ólafur er ekki margorður um líðan sína, en það er bara eins og svo margt fari úrskeiðis. Maður fylgist með á síðunum og langar til að hjálpa. En nei, við erum víst ekki vinir í alvöru því þetta gerðist fyrir næstum 140 árum.

Undirtitill bókarinnar er Dagbækur Ólafs Davíðassonar og þær eru tvær, þó sú seinni sé ekki löng. Hún tekur ekki meira en 8 blaðsíður í útgáfunni, og er frá árinu 1884. Ólafur byrjar sumsé aftur á dagbók í apríl það ár, en tekst engan veginn að vinna upp sömu frásagnargleðina og áður. Hann gefst upp í sama mánuði. En í ágúst sama ár skrifar hann aftur, færslur fyrir heila viku á einu bretti. Þessar síðustu færslur eru með því allra sérstæðasta í bókinni og eftir þær hélt Ólafur ekki aftur dagbók, svo vitað sé til. Ég vil að sjálfsögðu ekki spilla fyrir ykkur endinum. En eftir að hafa hugsað um hann í heila viku, rætt hann við ótal manns og skrifað langa bloggfærslu um bókina, þá held ég að ég geti með góðri samvisku fullyrt það, að enginn skáldsaga gæti endað á áhrifaríkari hátt.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...