Íslendingar hafa glaðst yfir veðurblíðu sumarsins 2019 sem virðist á vissan hátt vera að bæta upp skelfingu síðasta sumars. Þessu blíðskapaveðri fylgir sú breyting að mun færri hafa haldið út fyrir landsteinana í sumarfríinu heldur en síðasta sumar þegar útlit var fyrir áframhalandi súld og allir stukku á pakkaferðir á síðustu stundu hvert sem var í heiminum þar sem spáin var betri. Þeir sem eru að njóta veðurblíðunnar hér heima hafa hins vegar þann valkost að taka upp eina bók og upplifa þannig reisu um heimsins höf án þess að hreyfa sig um set.

Kríubækurnar eftir Unni Jökulsdóttur og Þorbjörn Magnússon komu út árið 1989 og 1993 og segja frá ótrúlegri heimsreisu þeirra Unnar og Þorbjörns um borð skútunni Kríu. Þau smíðuðu skútuna í Kaupmannahöfn og lögðu af stað í feykilangt ferðalag yfir Atlantshaf og Kyrrahaf með viðkomu á ævintýralegum eyjum Kyrrahafsins, Galapagos eyjum og í Afríku svo eitthvað sé nefnt. Sjálf las ég bækurnar tvær Kjölfar Kríunnar og Kría siglir um Suðurhöf í júlí 2017 í blíðskaparveðri á Íslandi og gat varla lagt þær frá mér. Ég man ekki hvernig ég uppgötvaði þessar bækur, þær höfðu notið gríðarlegra vinsælda við útgáfu en hafa ekki verið gefnar út aftur á seinni árum. Þær eru þó til allrar hamingju til á bókasöfnum og því auðvelt að nálgast þær.

Sigldu um Höfin í fimm ár.

Kjölfar Kríunnar hefst með bakgrunni um líf þeirra Unnar og Þorbjörns og hvernig ferðaþrá þeirra óx á níunda áratugnum. Eftir að hafa farið í ævintýraferð með viðkomu á nokkrum stöðum í heiminum tók draumurinn um að smíða skútu og halda í siglingu um heiminn yfir líf þeirra og ákváðu þau að selja eigur sínar og smíða skútu í Kaupmannahöfn þar sem þau bjuggu á þeim tíma. Þetta var mikið hark en það tók þau þrjú ár að smíða skútuna og svo tók ansi langan tíma að komast almennilega af stað sökum veðurskilyrða. Þegar þau voru hins vegar komin út úr Evrópu tóku við ótrúlegar dvalir í Afríku, Mið- og Suður-Ameríku og loks í Kyrrahafinu áður en þau luku fimm ára siglingunni í Ástralíu. Bækurnar er auðvelt að lesa í einum rykk þar sem síðari bókin er beint framhald af þeirri fyrri og því lesast þær saman sem eitt ævintýri.

Kríubækurnar fjalla á mjög mjög raunsæan hátt um allt sem átti sér stað í ferðinni, líka erfiða kafla og það sem olli seinkunum hjá þeim. Það er ekki annað hægt en að hrífast af ævintýramennsku Unnar og Þorbjörns og dást að öllu sem þau lögðu á sig til að spara fyrir skútunni og ferðalaginu, vinnunni við að smíða skútuna og loks við að sigla þessar ótrúlegu vegalengdir. Þetta var á tíma þar sem internetið var ekki til, dýrt var að hringja milli landa og skilaboð tóku vikur að berast með pósti. Mér þóttu eiginlega mögnuðustu kaflarnir vera þegar þau þurftu að sigla þvert yfir Atlantshafið og Kyrrahafið en það tók nokkrar vikur í senn, þar sem ekkert land mætti þeim, ekkert var á sjónlínunni og alltaf þurfti einhver að standa vaktina á nóttunni án nokkurs áreitis á meðan.

Ég held það sé ómögulegt að lesa þessar bækur án þess að vilja að minnsta kosti ná sér í pungapróf. Ég hef síðustu árin alltaf haft það á bakvið eyrað hvert ég ætli nú að sigla þegar ég næ mér í mína eigin Kríu og mæli með að allir lesi þessa bók og fari að plana sína eigin siglingu.

 

Hits: 980