Nú er sumarið runnið í hlað og því fylgir sumarlesturinn. Eins og nefnt var í pistlinum Lestraráskorun Sumarfrísins! þá eigum við það til að telja okkur of upptekin á sumrin til að taka okkur tíma til að glugga í bók. En þá má einmitt ná ró og næði með því að demba sér í eina góða ljóðabók. Sjálf hef ég fundið að þegar er mikið að gera hjá mér getur það að taka upp eina ljóðabók og lesa hana til að mynda yfir góðum kaffibolla veitt mér mikla hugarró sem og veitt hugarleikfimi við að melta stuttan en hnitmiðaðan og djúpan texta.

Ljóðalestur hjá mér er ansi nýtilkominn, líkt og aðrir í menntaskóla þurfti ég að nema sérstaklega ljóð í íslensku tímum en sú menntun var lengi að skila sér í auknum áhuga á ljóðum. Á síðustu árum hafa yndislegir ættingjar þó fært mér ljóðabækur sem þeir höfðu gaman af, eða sem vöktu verðskuldaða athygli á Íslandi, sem hefur hvatt mig áfram að kynna mér þetta sígilda bókmenntaform. Hér er því nokkrar sem mér þóttu afbragðs góðar og get mælt með fyrir þá sem vilja byrja að lesa ljóð:

[hr gap=”30″]

Slitförin eftir Fríðu Ísberg

 

Frumraun Fríðu kom út árið 2017. Ég las hana í einum rykk yfir góðum kaffibolla og fylltist aðdáun yfir henni. Um er að ræða safn ljóða sem fjalla um það að fullorðnast og finna sjálfan sig. Þetta er ótrúlega góð fyrsta ljóðabók, fyrir þá sem hafa áhuga á smásögum get ég einnig hiklaust mælt með bókinni hennar Kláða sem kom út fyrir síðustu jól.

[hr gap=”30″]

Svartar fjaðrir eftir Davíð Stefánsson

 

 

Flestir Íslendingar þekkja nú einhver ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og er ljóðabók hans Svartar fjaðrir góð kynning á skáldinu. Það eru fáir sem skrifa jafn fallega um unglingaást og Davíð. Bókin kom út þegar hann var rétt rúmlega tvítugur jólin 1919 og eldist ótrúlega vel, þrettánda útgáfa hennar kom nýverið út.

[hr gap=”30″]

 

Sálumessa eftir Gerði Kristný

 

Sálumessa kom út fyrir síðustu jól og vakti verðskuldaða athygli en hún er meðal skáldverka sem skrifuð hafa verið í kjölfar #metoo byltingarinnar og vakið athygli á víðtækum áhrifum kynferðisofbeldis. Þetta er ótrúlega átakanlegur ljóðabálkur um sálarmessu sungna yfir konu sem fell fyrir eigin hendi eftir gríðarlegar þjáningar á lífsleiðinni. Þessa bók er maður lengi að melta og er gott að kynna sér baksögu hennar sem fjallað var um við útgáfu hennar, meðal annars á RÚV. Gerður Kristný hefur áður fjallað um ofbeldi gegn konum í ljóðum sínum og er Drápa sem kom út árið 2010 einnig stórkostlegt verk.

[hr gap=”30″]

Smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

 

Sjöunda ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur kom út á síðasta ári var sú fyrsta sem ég las eftir hana og var ég strax hugfangin af henni. Ekki skemmdi fyrir hvað umbrot bókarinnar var falleg. Ljóðin eru beitt og fersk feminísk byltingarljóð, skrifuð af áhugaverðum vinkli konu sem einunigs nýlega fór að kalla sig feminista. Eins og Katrín Lilja nefndi í umfjöllun sinni um bókina fer Linda vítt og breytt í sögu íslenskra kvenna og nær að fylla lesanda af eldmóði og baráttugleði. Ég mæli með að þeir sem lesi bókina kíki einnig á þetta viðtal við Lindu.

 

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...