Þessi er þaulæfð fyrirsæta.

Ég verð að viðurkenna að mér brá þegar ég sá kápu bókarinnar Kærastinn er rjóður eftir Kristínu Eiríksdóttur. En svo fór ég að hlæja. Drengurinn á kápunni er svo furðulega vongóður og saklaus með krullurnar sínar. Svo er hann einmitt rjóður í kinnum. En það er ekki kápan sem skiptir höfuðmáli heldur innihaldið.

Kristín Eiríksdóttir er ein af okkar bestu skáldum, hún virðist geta skrifað stórkostlegar skáldsögur, ljóðabækur og leikrit jafnhendis. Kærastinn er rjóður er fyrsta bókin sem hún gefur út eftir að hafa unnið Íslensku bókmenntaverðlaunin og Fjöruverðlaunin fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt (2017).

Kærastinn er rjóður er fimmta ljóðabók Kristínar en meginþemu bókarinnar eru ást og ástarsorg. Ljóðin eru þó engan veginn hefðbundin, upphafin ástarljóð heldur eru í hversdagslegum frásagnarstíl, frekar óformleg í rauninni. Það er undirliggjandi kaldhæðni í ljóðunum sem magnar upp áhrif þeirra. Ljóðin eru sammannleg og á einhvern hátt einlæg. Bókinni er skipt í fimm ljóðabálka sem þó tengjast bæði þemalega og efnislega.

Kristín á góðri stundu.

Í bálknum „7 stefnumót með 7 útgáfum af honum“ er dauðadæmdu sambandi lýst þar sem ljóðmælandi þráir hliðar manns sem birtast henni á þeim sjö stefnumótum sem þau fóru á, ekki þann mann sem hefur ekki áhuga á henni. „á stefnumóti nr. 7 sagðist ég hafa brotnað svo oft / að ég væri eiginlega bara salli“ (bls. 33) Hún opinberar sig og leyfir honum að gægjast inn í hjarta sitt en hann virðist ekki meðtaka dýpt tilfinninga hennar, „og hann sagðist einmitt um daginn / hafa misst skál í viðargólf og hún klofnað / og nú vissi hann ekki hvort ætti að líma eða henda“ (bls. 33). Frásögnin er svo látlaus en undir niðri kraumar mikill sársauki frá ljóðmælanda sem hefur verið hafnað af manninum sem hún elskar.

„Hæ fyrrverandi“ er ljóðabálkur fyrir þá sem hafa gengið í gegnum sambandsslit (hafa annars ekki allir gert það?). Ljóðmælandi spyr fyrrverandi hvort hann muni eftir ákveðnum augnablikum sambandsins, í upphafi er þetta eins og upptalning. Manstu þegar ég „sagðist ekki vilja leiki en þóttist svo ekki sjá að þú hafðir hringt alveg frá þriðjudagskvöldi til miðvikudags klukkan þrjú“ (bls. 40), „eða þegar ég afsakaði að væri drasl / afsakaði svo að hafa afsakað / vegna þess að ég lærði í hugrænni atferlismeðferð / að afsaka ekki nema nauðsyn bæri til / en í staðinn fyrir að afsaka sjaldnar / afsaka ég helmingi oftar / afsaka að afsaka“ (bls. 40) Þessar fáeinu línur segja svo mikið til um tilfinningalíf og hugarheim ljóðmælanda sem er óörugg og veit nánast ekki í hvorn fótinn hún eigi að stíga.

Kristínu tókst að koma mér á óvart með þessari ljóðabók. Hér sýnir Kristín okkur svipmyndir af samböndum ljóðmælanda sem hafa ekki gengið upp og nær inntaki margslunginna tilfinninga með örfáum línum. Þetta gerir hún á óformlegan hátt, á aðgengilegu máli og tekst þannig að skapa virkilega sannfærandi rödd í ljóðunum. Ég var hæstánægð með þessa bók og brosi nánast jafn breitt og drengurinn á kápunni eftir lesturinn.

 

Lestu þetta næst