Ljóðin á tímum Instagram

Sala á ljóðabókum hefur farið vaxandi á síðustu árum, þróun sem ef til vill kemur á óvart á snjallsímaöldinni. Breska dagblaðið The Guardian greindi frá því á síðasta ári að ljóðabókasala hefði aldrei verið meiri en árið 2018. Fram kom í greininni  að sala á ljóðabókum hefði aukist staðfast á síðustu árum og seldust 1.3 milljónir ljóðabóka í Bretlandi árið 2018. Svipaða sögu er einnig að segja í Bandaríkjunum.

Á Íslandi hefur ljóðaútgáfa verið gríðarlega öflug undanfarin misseri en við fjölluðum á síðasta ári um sannkallað ljóðabókaflóð í aðdraganda jólanna. Fjöldi bóka í flokknum “ljóð og leikrit” sem kynntar hafa verið í Bókatíðindum jókst um 37% á síðasta ári og hefur fjöldinn aukist úr 38 árið 2012 í 67 árið 2019, eða um 76%. Á sama tímabili hefur heildarfjöldi titla í Bókatíðindum aukist um einungis 2%.* Því er vert að spyrja hvers vegna eru ljóð að sækja í sig veðrið þessa dagana?

Í grein The Guardian segir að rekja megi aukna sölu á ljóðabókum til áhuga á pólitík, sér í lagi meðal yngri kynslóðanna. Einnig kemur fram að stutt form ljóða hafi það í för með sér að auðvelt er að lesa þau á símum og deila þeim á samfélagsmiðlum.

London School of Economics birti á síðu sinni fyrir jólin pistilinn Why is poetry having a moment? (Hvers vegna njóta ljóð svo góðs meðbyrs núna?). Þar er vísað í Dinu Gusejnova, prófessor við háskólann, sem tekur undir með viðmælanda The Guardian og segir að í gegnum söguna hafi lesendur sótt í ljóð á tímum pólitískra óeirða og bendir á að vinsældir ítalska skáldsins Dante hafi verið á tímum átaka á Ítalíu og að ljóð hafi verið mjög vinsæl í báðum heimsstyrjöldum tuttugustu aldar út um allan heim. Hún bendir á að ljóð eigi að vera hreinskilin og tala til fólks á báðum pólum í pólitík. Í pistlinum er einnig vísað í Michal Nachmany sem vinnur í loftslagsrannsóknum við háskólann sem segir að þegar komi að loftslagsbreytingum sé ekki nóg að deila staðreyndum til að knýja fram aðgerðir, fólk þurfi að finna andlega tengingu. Þetta virðast lesendur fá í gegnum ljóð, en ein mest lesna ljóðabók ársins á Íslandi var einmitt bók Steinunnar Sigurðardóttur Dimmumót sem er stórkostlegt verk um náttúruna okkar á tímum hamfarahlýnunar.

Ljóðalestur hefur aukist mikið hjá ungu fólki, stærsti lesendahópurinn árið 2018 var undir 34 ára í Bretlandi og jókst ljóðalestur hjá 18-24 ára fólki í Bandaríkjunum úr 8.2% árið 2012 í 17.5% árið 2017. Talið er að rekja megi aukinn ljóðalestur ungs fólks til samfélagsmiðla, en ljóð birtast reglulega á Instagram, Facebook og Twitter og eru svokölluð InstaPoets skáld að vaxa í vinsældum. Eitt þekktasta þeirra er Rupi Kaur, ungt kanadískt ljóðskáld á þrítugsaldri. Hún skaust á stjörnuhimininn á síðustu árum, en bók hennar Milk and Honey seldist fyrir tæplega milljón breskra punda árið 2018 í Bretlandi, eða sem nemur 8% af árlegri sölu ljóðabóka þar í landi. Hún hefur tileinkað sér notkun samfélagsmiðla til að ná til lesenda og birtir reglulega ljóð upp úr bókum sínum á Instagram þar sem hún er með hvorki meira né minna en 3,9 milljónir fylgjenda.

Það er ekkert eitt sem skýrir vaxandi áhuga á ljóðum í dag, en stjórnmálaástand heimsins og samfélagsmiðlar virðast hafa aukið áhuga ungmenna á ljóðum og því fagnar Lestrarklefinn.

*Í einstaka tilfellum, þar sem sama bókin er kynnt í fleirum en einum kafla er um tvítalningu að ræða.

 

 

 

Lestu þetta næst