Hvar er Harry Potter safnaskjan?

Nýja kápan með hinni hroðalegu villu á baki kápunnar þar sem Harry býr í Rósastræti 4.

Vinsælustu barnabækur okkar tíma eru án efa Harry Potter bækurnar eftir J.K.K. Rowling. Bækurnar um töfrastrákinn seljast alltaf vel, sama hvernig árferðið er. Harry Potter mun halda áfram næstu ár að heilla nýja lesendur, hvort sem þeir rata á bækurnar í gegnum foreldra sína eða í gegnum bíómyndirnar, tölvuleikina, varninginn…

Fyrsta bókin um Harry Potter var gefin út á Íslandi árið 1999, tveimur árum eftir að hún kom fyrst út í Bretlandi. Bókaútgáfan Bjartur (núna Bjartur-Veröld) keypti útgáfuréttinn að bókunum og hefur síðan átt réttinn til útgáfu á bókunum á Íslandi. Sem væri gott og blessað ef Bjartur sýndi útgáfu á Harry Potter þá athygli og natni sem hún á skilið.

Innláttarvillan

Á síðasta ári hóf Bjartur endurútgáfu á þessum vinsælu barnabókum í nýjum kápum. Það var eina breytingin sem forlagið lagði í að gera á bókinni að mér vitandi. Sú mikla villa varð þó á útgáfu bókarinnar að það misritaðist heimilisfang herra Potter á kápu bókarinnar. Aftan á bókinni á hann heima í Rósastræti 4, þegar hann hefur síðustu tuttugu árin búið á Runnaflöt í íslenskri þýðingu. Útgáfan átti að vera viðhafnarútgáfa til að fagna 20 ára þýðingarafmæli fyrstu bókarinnar á íslensku, Harry Potter og viskusteinninn. Viðhöfnin var þó ekki meiri en svo að heimilisfangið misritaðist og fyrir vikið er ólíklegt að Potter fái ugluna frá Hogwarts og öll sagan á íslensku verður fyrir bý.

Þegar lagt er í viðhafnarútgáfu á bók finnst mér liggja í augum uppi að farið sé yfir þýðinguna aftur (þótt þýðingar bókanna hafi alltaf verið prýðilegar). Það má alltaf eitthvað betur fara, ekkert er fullkomið. Bjartur nýtti sér þó ekki þetta tilefni til að endurþýða eða gefa út í endurskoðaðri þýðingu. Gömlu þýðingunni var eingöngu smellt í nýja (mjög fallega) kápu með innsláttarvillu (ef hægt er að setja villu sem þessa í flokk innsláttarvilla) sem ég skil ekki hvernig lenti á baksíðunni.

Kilja, sparikápa fyrir safnara eða safnaskja?

Þessi safnaskja er með hurð! Hún myndi sóma sér vel í hvaða bókahillu sem er.

Í erlendum útgáfum hafa bækurnar fljótlega verið bundnar inn í kilju, sem gerir bækurnar aðgengilegri. (Ég keypti oftast ensku kiljuna, því hún var ódýrari og handhægari). Í sumum tilvikum voru bækurnar gefnar út í kilju á sama tíma og harðspjaldaútgáfan. Hörðustu safnararnir fúlsuðu að sjálfsögðu við kiljunni og keyptu viðhafnarútgáfu af bókunum í hörðu spjaldi.

Harðspjaldabækur eru fín jólagjöf, en maður fjárfestir síður í þeim fyrir sjálfan sig eða þegar maður er að leita að ódýrri afmælisgjöf fyrir Sigga frænda. Íslenska þýðingin hefur að mínu viti aldrei verið fáanleg í kilju. Nokkurn tímann. Það er synd, því kiljur eru auðseljanlegri og ódýrari. Þess má þó geta að íslenska harðspjalda útgáfan er nú til dags verðlögð sem kilja í bókabúðum. Kiljur ná samt til fleiri lesenda. Þær eru teknar með í ferðalög. Þær eru skildar eftir í sumarbústöðum þar sem þær hitta nýja lesendur. Kiljur fara víðar en harðspjaldabækur.

Fallega safnaskjan

Fyrir jólin var loksins gefin út íslensk viðhafnarútgáfa af Harry Potter og viskusteininum – gullfalleg myndskreytt og þyngdar sinnar virði í gulli fyrir safnara. Ég komst þó ekki hjá því að hnussa ögn og velta fyrir mér af hverju Bjartur greip ekki tækifærið á þessu 20 ára afmæli og gaf út heildarasafn Harry Potter bóka í fallegri safnöskju. Ég trúi því að fjöldinn allur af fólki myndi stökkva á fallega safnöskju (Nexus myndi selja gommu af þeim), ekki síst ef kápurnar eru fallegar, kassinn sjálfur fallegur og myndi sóma sér vel í hillu. Á sama tíma og viðhafnarútgáfan var gefin út seldust nokkrar af seinni bókunum upp. Sumar Harry Potter bækur eru ekki fáanlegar í íslenskri þýðingu. Sjálf á ég ekki allar Harry Potter bækurnar – ég á reiting af enskum Harry Potter kiljum. Safnarinn í mér öskrar á fallega safnöskju af íslensku þýðingunni.

Eflaust liggja einhverjar ástæður að baki því að vinsælustu barnabækur síðustu tuttugu ára eru ekki fáanlegar í breiðara útgáfuúrvali. Kannski sér Bjartur ekki gróðavon í kiljunum? Yrði safnbox of dýrt? Kannski eru nýjar kápur, nýir samningar, of mikil fyrirhöfn? Ef til vill er of auðvelt að gera ekki neitt og halda áfram að gefa Harry Potter út í hörðu spjaldi – staka. Kannski selst Potter of vel til að það taki því að bæta nokkru við útgáfuna. En þessi ástsæli bókaflokkur hefur verið útgáfufyrirtækinu sannkölluð mjólkurkú í tvo áratugi, og nú er kominn tími til að Bjartur endurgjaldi hinu íslenska aðdáendasamfélagi tryggðina og samfylgdina í öll þessi ár með glæsilegri safnöskju (og handhægri kilju í útileguna).

Lestu þetta næst