Ruslbókmenntirnar frá unglingsárunum

Penni: Lilja Magnúsdóttir

Það er með hálfum huga að þessi skrif líta dagsins ljós.

Ég verð víst að viðurkenna að smekkur minn fyrir klassískum bókmenntum blómstraði ekki á unglingsárunum. Ég las að vísu Íslandsklukkuna og Djöflaeyjuna löngu áður en mér bar skylda til í skóla en þær bækur voru mun fleiri, sem hlutu náð fyrir augum mínum, sem ég myndi flokka sem ruslbókmenntir í dag.

Óheilbrigð ást

Þegar eg rifja upp mínar uppáhalds unglingabækur þá koma upp í hugann bækur eftir Liz Berry, bækurnar Er þetta ást? og Frjáls eða fjötruð. Afskaplega ómerkilegar bækur með vafasaman boðskap svo ekki sé meira sagt. Bækurnar fjalla um Cathy, sem er sautján ára listmálari og verður fyrir því að henni er nauðgað af gítarleikara í frægri rokkhljómsveit. Eftir þann atburð, sem er upphaf fyrri bókarinnar, leggur gítarleikarinn hana í einelti, sölsar hana hreinlega undir sig og hættir ekki fyrr en hún samþykkir að giftast honum. Þá er hún orðin ófrísk eftir þennan skelfilega atburð.  Það er með eindæmum að þetta hafi verið metsölubækur á sínum tíma. Dóttir mín las þetta svo þegar hún hafði aldur til og hún elskaði þær líka. Og við höfum oft rætt það okkar í millum hvað þetta hafi verið furðulegt, að þessar bækur skuli hafa verið í þvílíku uppáhaldi.

Hugvíkkandi efni í Köben

Seinna las ég svo aðra bók, allt öðruvísi, en sú varð í minningunni albesta unglingabók sem ég hafði lesið. Hún var eftir danskan höfund, Klaus Lynggaard og hét Martin og Victoria. Sú bók sló ekki meira í gegn en svo að það þótti ekki taka því að þýða framhaldið. Strákur að nafni Martin verður ástfanginn af stelpunni Victoriu. Sagan á að gerast á áttunda áratugnum. Martin er svona dæmigerður unglingur sem reykir hass í Köben, hlustar á Kim Larsen og stundar námið frekar kærileysislega. Victoria er yfirstéttardama, veit ekki hver Kim Larsen er né hvað þá það sem tengist hugvíkkandi efnum. Þetta þótti mér það albesta sem ég hafði lesið og viti menn! Dóttur minni þótti það svo líka! Ég þarf víst ekki að taka það fram að allar þessar bækur fengu hroðalega dóma, þóttu með allra mesta sorpi sem unglingum hafði verið boðið upp á og eru núna flestum gleymdar sem þær hafa lesið, nema auðvitað mér og Helgu dóttur minni.

Misræmið milli fullorðinna og unglinga

Bókmenntasmekkur fullorðinna og unglinga fer nefnilega ekki alltaf saman. Það gerði það ekki í mínu tilviki og það gerir það ekki hjá unglingum og fullorðnum í dag.  Unglingabækur sem flokkast sem afburðabókmenntir og fá verðlaun sem slíkar eiga ekkert endilega uppi á pallborðið hjá þeim aldurshóp sem þær eru skrifaðar fyrir. Ég tek það fram að þetta er eingöngu mín skoðun sem byggir á því sem eg hef upplifað sjálf sem starfsmaður á skólabókasafni þar sem unglingar eru daglegir gestir. Ég ætla ekki að nefna neinar bækur í þessu sambandi en ég furða mig oft á þessum veitingum verðlauna og hvernig staðið er að því vali sem verður ofan á.  Mér vitanlega eru þau yfirleitt í minnihluta dómnefndarmanna, þau sem skipa þann markhóp sem bækurnar eru skrifaðar fyrir.

Það væri því gaman að vita hvaða bækur það eru í dag sem unglingarnir lesa í laumi, sá listi gæti komið okkur, hinum fullorðnu, skemmtilega á óvart, kannski misskemmtilega þó.

Þessi pistill er skrifaður til gamans, ég bið ykkur um að dæma mig ekki sem lesanda né móður. Batnandi manni er jú best að lifa.

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...