Öll eigum við okkur leyndarmál sem við viljum helst ekki að aðrir viti. Kannski er það eitthvað pínulítið og skiptir ekki máli – eins og ömmunærbuxurnar hennar Bridget Jones, sem voru reyndar ekki pínulitlar. Kannski er leyndarmálið eitthvað sem gæti breytt lífi þínu ef það kemst upp. Sé maður aftur á móti að fara að lesa bók sem heitir Leyndarmál eftir Sophie Kinsella þá eru allar líkur á að leyndarmálin í bókinni heyri undir fyrri flokk leyndarmála: smávægileg, vandræðaleg, skopleg.

Út með leyndarmálin!

Leyndarmál er önnur bókin sem ég les eftir Sophie Kinsella. Bókin kom út í sumar hjá bókaútgáfunni Angústúru í stórfínni þýðingu Maríönnu Clöru Lúthersdóttur. Áður hefur komið út bókin Mitt ó-fullkomna líf. Kinsella hefur skapað sér nafn fyrir frábærar og hnyttnar skvísubækur. Það er: Bækur þar sem markhópurinn er konur. Sögupersónurnar í bókum hennar eru oftar en ekki ungar konur á framabraut, ögn lúðalegar, sem þrá ekkert heitar en að slá í gegn í vinnunni sinni og fá fjallmyndarlega manninn sem þær eru ástfangnar af.

Leyndarmál er engin undantekning þar á. Bókin segir frá hinni ungu Emmu Corrigan sem stefnir á frama í markaðsdeild Panther-samsteypunnar. Bókin hefst á söluræðu Emmu í Glasgow, sem að sjálfsögðu fer ekki eins og hún óskar. Í svekkelsi yfir slæmum viðskiptafundi, og til að undarbúa sig undir flug aftur til London, sturtar hún í sig vodka til að róa taugarnar. Emma er nefnilega flughrædd. Þegar flugvélin lendir í ókyrrð missir Emma þó allt kúl og kjaftar öllum sínum leyndarmálum, stórum og smáum, í sætisfélaga sinn, ókunnugan mann… eða það heldur hún.

Eins og bíó

Kinsella skrifar á mjög lýsandi hátt. Það er auðvelt að sjá allt fyrir sér, svipi fólks, útlit og umhverfi. Fyrir vikið verða bækurnar ljóslifandi fyrir augum lesandans. Samstarfskona mín (undir tvítugu) sem var að lesa sína fyrstu Kinsella-bók lýsti því sem svo að hún væri að upplifa það í fyrsta sinn að það að lesa væri eins og að horfa á bíómynd í huganum. Bókin er hnyttin, vandræðaleg og jafnvel smá spennandi. Það fer auðvitað eftir því hve mikið af tilfinningum lesandans eru bundnar aðalpersónunum.

Leyndarmál er bráðskemmtileg bók og hin fullkomna sumarlesning. Eins og aðrar skvísubækur er hún nokkuð fyrirsjáanleg og fylgir uppskriftinni út í ystu æsar. En það kemur ekki niður á lestrarupplifuninni. Þegar maður þarf létta lesningu þá er þessi tilvalin!

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....