Hinir innbundnu, kiljan og flóðið mikla

Nú líður senn að hinu árlega jólabókaflóði. Tíminn þegar bókamarkaður lifnar við og fólk fer að kaupa bækur. Frábær tími. Einn sá besti. Ég elska að það hefur myndast hefð hér á Íslandi að fjölskyldur njóta góðrar stundar með sjálfum sér og jafnvel öðrum meðlimum fjölskyldunnar við lestur á bókum á jóladag og svo einnig milli jóla og nýárs. Það er nefnilega málið að ástæðan fyrir því að jólabókaflóðið er þessi risi, eða þetta fyrirbæri, er ekki einungis vegna þess að fólk gefur bækur í jólagjöf – heldur líka út af því að þetta er tími skammdegis og fólk vill og ákveður að lesa bækur í kringum jólin. Það hefur mótað með sér þá rútínu í gegnum árin að vera einstaklingar sem lesa yfir jólin, og þar við situr.

Forði okkur frá þessu lina og mjúka

Þetta er samt svo skrítið og íslendingar eru alveg sér á báti með þetta fyrirbæri okkar. Vorútgáfan er jú til, og þýddar skáldsögur fá pláss yfir sumarið. En það er ekki arðbært fyrir íslenska höfunda að gefa út á öðrum tíma en á haustmánuðum og rétt fyrir jól. Að þessu leiðir að flestar bækur á Íslandi, sérstaklega eftir stóru, þekktu rithöfundana okkar, eru gefnar út innbundnar. Því hver vill gefa kilju í jólagjöf? Nei, forði okkur frá því! Og verða að athlægi fyrir að eiga ekki efni á að kaupa inndbundna? Það vill nú enginn kilju, hún sómir sér ekki nógu vel uppi í skáp. Lin og mjúk og krumpast auðveldlega. Nei, það vilja allir hafa festu í þessum bókaskápum og helst eitthvað nógu þykkt til að geta notað í að pressa laufabrauð næstu jól – nógu þungt til að geta tryggt að bókaskápurinn verði nokkurntímann færður úr stað. Bækurnar skulu vera innbundnar til að halda húsinu þungu og öruggu í versta roki á íslandi. 

Við viljum lesa kiljur

Það fyndna er samt að við flest öll, ef ekki öll, viljum lesa kiljur. Þær eru hentugar til að ferðast með, í bústaðinn, í flugvélina, í veskið – og það er auðvelt að halda á þeim, svona innilega einlægar og yndislega léttar og liprar í hendi. Þær einmitt beyglast nákvæmlega eins og hentar best fyrir lestur. Eru handhægar. Það er líka þekkt dæmi að lánþegar á bókasöfnum vilja helst kiljur. Samt sem áður eru flestir íslensku jólakrimmarnir harðspjalda. Arnaldur ratar ekki í kilju fyrir lesendur nema í mesta lagi í flughöfnina. Jafnvel þó að það myndi henta bókasöfnunum að fá hann og fleiri vinsæla krimma í kilju til sín. Því jú, hann er eiginlega bara gefinn út í hörðu. Beinhörðu. Innbundinni klassík. En það er þetta með krimma, flestir vilja bara lesa krimma. Ekki endilega stilla þeim upp í hillu eða skápa. Flestir jólakrimmarnir daga því uppi eftir lestur. Harðspjalda og einmana og eigendurnir leita að nýjum íverustað fyrir þá. En eins gott að þeir voru fengnir í gjöf svona innbundnir. Það hefði nú verið skandall að fá krimmann í jólagjöf í kilju, sérstaklega þegar hann er til þess ætlaður að vera lesinn í æsispennandi rykk af viðtakanda gjafar og kannski einum eða þremur öðrum fjölskyldumeðlimum. Loks reynir hann að finna sér nýjan dvalarstað sem gjöf til bókasafnanna eða á bókaskiptimarkaði. 

Innbundnar í skáp, kiljur á náttborði

Ég veit ekki alveg hvenær þetta ákveðna snobb varðandi innbundnar, harðspjalda bækur hófst hér á landi. Jú áður fyrr voru kiljurnar prentaðar í ódýrari pappír. Og það var kannski ekki eins mikið lagt upp úr útlitinu á kápunni og þar af leiðandi sómuðu þær sér ekki eins vel og fallega í bókaskápum heimilanna.  Gæti verið. Ég get auðvitað alveg verið sammála því að það er gaman að hafa fallegar bækur uppi í skáp heima. Og ég hata þá orðræðu um að maður geti ekki haft bækur uppi í skápum nema maður sé að lesa þær allar í tíma og ótíma. Orðræða sem lyktar einnig af ákveðnu snobbi. Ef ég vil hafa fallegt í skápum heima hjá mér er ég ekki nógu gáfuð, eða álíka. Ég fagna allri notkun og öllum sýnileika bóka. Sama hvort þær séu stofuskraut eða lesnar. Best er ef þær þjóna báðum hlutverkum auðvitað. Ég persónulega á bækur sem ég hef í skápum og hillum og svo bækur sem ég les. Stundum fá bækur sem ég les líka pláss í hillum, en ég þyrfti eiginlega fleiri hillur. Það er meira lagt upp með í dag að kiljur séu gerðar fallegar. Flestar erlendar bækur, úr erlendum bókaflóðum til að mynda, eru í kilju og það er vel. Kápurnar fagurlega skreyttar. Mikið lagt í þær. Ég á vinkonur sem hafa kiljur uppi í skápum og ég hef aldrei fussað og sveiað yfir því hvort þær hafi ekki efni á innbundinni, eða hvort þær hafi ekki verið nógu heppnar að hafa fengið innbundnar jólagjafir, né hefur mér fundist bókahillurnar þeirra síður fallegar en þær sem hafa að geyma Laxnessinn með hvítum og svörtum röndum í röðum. En jú vissulega veit ég að innbundnar bækur endast tímans tönn betur.

Hin órökrétta kiljuprósenta

Sem rithöfundur sjálf þá verð ég að gera þá skyldu mína og benda á að það eru auðvitað fleiri þættir sem þarf að huga að við þessa tvískiptingu í bókaútgáfu. Það skrítna er nefnilega að rithöfundar fá töluvert minni prósentu af söluvirði ef þeir gefa út í kilju heldur en í harðspjalda. Sem er svo ótrúlega furðulegt og órökrétt pæling. Höfundur sem er gefinn út í kilju hefur vissulega ekki unnið minna við að skrifa bókina og lesa yfir hana og vinna í henni heldur en höfundur sem er gefinn út í harðspjalda. Því er skrítið að lækka virði kiljuhöfunda svona. Ég vil taka það fram að ég er ekki að kvarta, gaf sjálf út í kilju og er virkilega ánægð að hafa fengið útgefið. En þetta er mögulega eitthvað sem hinn almenni lesandi og bókaunnandi veit ekki af. Núna hef ég miðað þennan pistil að því að reyna hvetja ykkur að láta af þessu drambi með hinar innbundnu og skella ykkur í að kaupa kiljur í gjafir, eða í það minnsta ekki hugsa um það sem einhverja skömm. En auðvitað með nýjustu upplýsingum um prósentuna þá vitið þið núna að innbundin gefur rithöfundinum meira fyrir sinn snúð. 

Sleppum snobbinu

Það er samt þannig að mýmargir höfundar fá einungis útgefið eftir sig í kiljuformi. Og það er leiðinlegt að þessi hefð okkar, þessa fasta hyggja okkar í að þurfa að gefa innbundnar í jólagjafir hafi áhrif á þessa tilteknu höfunda. Geri það að verkum að þeir eru minna keyptir. Þetta eru oftar en ekki nýir höfundar, að stíga sín fyrstu skref. Ég vil því enn halda í þá hvatningu að sleppa snobbinu í kringum hvernig bækur á að gefa í jólagjafir. Við þurfum að leysa upp þá hugmynd að það hvernig þær eru bundnar skipti máli. Kaupið bækur. Gefið kiljur eða innbundnar, jafnvel bæði. Kiljur eru jú oftast ódýrari sem gæti líka skýrt þetta snobb okkar, en það gæti gefið einmitt tækifæri til að gefa tvær bækur í gjöf frekar en eina! En við hljótum nú öll að vera sammála um að tvær eru alltaf betri en ein. Tvöföld bókahamingja.

 

Gleðilegt jólabókaflóð!

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....