Ævar Þór Benediktsson hefur ekki látið sitt eftir sitja í jólabókaflóðinu síðan önnur bókin hans kom út árið 2011. Nú eru þær orðnar tuttugu og fjórar talsins og ná til flestra aldurshópa. Hann hefur skrifað bækur fyrir börn frá leikskólaaldri upp í efsta stig grunnskóla. Hann er afkastamikill höfundur og bókin sem er í jólabókaflóðinu í ár er sú þriðja á þessu ári. Fyrr á árinu komu út smásagnasafnið Fleiri hryllilega stuttar hrollvekjur og léttlestrarbókin Þín eigin saga: Rauðhetta.

En lengsta bókin í flóðinu hans Ævars er svo rúsínan í pylsuendanum fyrir aðdáendur hans – ný bók úr seríunni sem kom honum kortið sem barnabókahöfundi: Þín eigin ráðgáta. Rétt eins og fyrri bækur fylgir þessari sama viðvörun í formálanum – veldu vel því þú veist ekki hvar þú endar. Bókin byrjar svo með hvelli, bókstaflega.

Dullarfullir atburðir

Í þessari bók er lesandinn í grunnskóla, á miðstigi eða efstastigi. Eitthvað hefur komið fyrir og allir símar eru dauðir. Bókstaflega dauðir! Ekki bara batteríslausir, heldur steindauðir og ónýtir. Allir símar allra nemenda, kennara og foreldra og það sem verra er – allir samfélagsmiðlar hafa líka þurrkast út. Sem sérlegur áhugamaður um ráðgátur hefur lesandinn (þú) rannsókn á því hvað hefur komið fyrir, með H-in sex að vopni: Hvað, hver, hvar, hvenær, hvers vegna og hvernig. Ég vil ekki fara of náið út í söguþráð bókarinnar. Ég get þó sagt að sagan mun leiða lesandann á undarlegustu slóðir og draga furðulegustu hluti fram í dagsljósið.

Ævar kynnir til leiks í fyrstu köflum bókarinnar aðalsöguhetjurnar, krakka í bekk lesandans. Lesandinn fær að kynnast þeim nokkuð vel í gegnum söguna, enda eru þau bandamenn. Það gefur bókinni dýpt, líkt og gerðist í Þín eigin undirdjúp. Það er gott að hafa bandamenn sér við hlið, einhverja sem maður getur sótt styrk hjá og ráð og veit allt um. Saman ætla þau að komast til botns í ráðgátunni. Í fyrri bókum hefur valið oftar en ekki leitt lesandann á villuslóðir eða út í opinn dauðann. Svo er ekki í þessari bók, ekki eiginlega. Velji lesandinn rétt getur hann lesið áfram og nokkrir söguþræðir leiða hann sömu leið. Ævar leiðir því eiginlega lesandann í gegnum bókina, rétta leið, og það var töluvert auðveldara en verið hefur að henda reiður á öllum lausu endunum, að ráfa alla þræðina til enda. Sjálfri fannst mér það mjög þægilegt, vitandi þá að ég hefði án nokkurs vafa lesið hvern stafkrók í bókinni. Ég svindla nefnilega aldrei og er of forvitin til að sleppa nokkrum söguþræði (eða er það kannski svindl?).

Lifi ráðgátan!

Ráðgátan reiðir sig á að lesandinn taki eftir því sem gerist í bókinni, taki eftir smáum vísbendingum sem er stráð í gegnum bókina. Ég var farin að örvænta um lok bókarinnar þegar ég gerði mér grein fyrir að ég hafði aldrei flett yfir blaðsíðu þrjúhundruð og eitthvað. Það fannst mér undarlegt, en það átti sér svo sínar skýringar sem ég mun ekki tíunda hér.

Þín eigin ráðgáta er spennandi rannsóknarferð um virkilega undarlega atburði. Ævar leiðir lesandann að þessu sinni í gegnum bókina, hún er alls ekki eins flókin og margar aðrar bækur úr seríunni og auðvelt er að fylgja öllum þráðum til enda. Bókin ætti að hitta í mark hjá öllum Ævars aðdáendum, fylgismönnum góðrar ráðgátu og börnum á aldrinum 8-15 ára. Lifi ráðgátan!

Lestu þetta næst