Febrúar er mánuður sem hefur margt með sér. Hann kemur með meiri birtu í líf okkar, er styttri en aðrir mánuðir og er uppfullur af ást. Þegar ég segi uppfullur af ást þá er ég jú að vísa í að bæði Valentínusardagur og konudagur eru í febrúar. Sem sagt, nóg af ást og þá er tilvalið að koma sér í gírinn með því að grípa í eina eða tvær ástarsögur (eða fleiri?) til að lesa.

Ég er mikill aðdáandi ástarsagna því hvað er lífið án smá rómans? Ég á mér þó ekki neina sérstaka uppáhalds týpu af ástarsögum. Ég hef lesið bækur eftir Jane Austen, Noru Roberts, Sophie Kinsella, Jill Mansell, Söruh Morgan, Guðrúnu frá Lundi og fleiri svo já ég les allskonar ástarsögur. Allt frá “Englandi í gamla daga” til íslenskrar sveitarástar með reglulegri viðkomu í skvísubókmenntum.

Skemmtilegast finnst mér þó þegar ég dett niður á skemmtilega ástarsögu seríu og þá eru seríur í uppáhaldi þar sem mismunandi persónur koma við sögu. Persónur sem kannski eru í aukahlutverki í einni bók en svo í aðalhlutverki í þeirri næstu. Í fyrra datt ég niður á slíka seríu eftir að ég slysaðist til að horfa á Bridgerton þættina á Netflix. Þeir voru alveg stórfínir og þegar ég komst að því að þeir væru gerðir eftir bókum þá varð ég að vita meira. Ég komst að því að fyrsta serían af Bridgerton er gerð eftir fyrstu bókinni í The Bridgertons bókaseríunni eftir Juliu Quinn. Sú sería telur heilar níu bækur, NÍU bækur! Jackpot! Ég er hinsvegar ferlega óþolinmóð manneskja og þegar ég komst að því að næsta sería af þáttunum yrði ekki sýnd á Netflix fyrr en 2022 greip ég til minna ráða. Bækurnar voru til á Amazon á finu verði, 3-4 saman í pakka á Kindle. Selt og slegið! Ég keypti og ég las.

Hvað er þetta Bridgerton?

Bækurnar segja sögu Bridgerton systkinanna sem eiga að vera uppi snemma á 19. öld á Englandi, nánar tiltekið í London. Þau eru hluti af aðalsfjölskyldu en elsti bróðirinn, Anthony, er greifi og höfuð fjölskyldunnar. Faðir þeirra systkina lést er Anthony var ungur. Fjölskyldan samanstendur því af systkinunum Anthony, Benedict, Colin, Daphne, Eloise, Francescu, Gregory, Hyacinth og móður þeirra, Violet. Þegar þetta er skrifað hef ég lokið við fimm af níu bókum seríunnar því ég hef verið að spara mér síðustu fjórar. Ég verð jú að hafa eitthvað að lesa núna í febrúar. En þær sem ég hef lesið af bókunum eru The Duke and I, The Viscount Who Loved Me, An Offer From A Gentleman, Romancing Mister Bridgerton og To Sir Phillip, With Love. Allar þessar bækur, og þær sem ég á eftir, segja frá því hvernig systkinin kynnast sínum eða sinni heittelskuðu. Upphaflega voru bækurnar bara átta en höfundurinn skrifaði nokkurskonar eftirmála á sögur þeirra allra eftir að aðdáendur bókanna fóru að láta í ljós ósk sína um að vita meira, þau vildu vita hvað gerðist eftir “og þau lifðu sæl til æviloka”. Þeir eftirmálar voru settir í eina bók sem varð sú níunda í röðinni.

Kósý rómans gleði

Eins og áður sagði fáum við að fylgjast með leið þeirra að ástinni í hverri bók og eru þættirnir svipaðir. Það ber að hafa í huga, eins og alltaf þegar kemur að bókum sem gerðar hafa verið myndir eða þættir eftir, að þættirnir eru ekki alveg nákvæmlega eins og bækurnar. Þættirnir eru ögn framúrstefnulegri í persónugerð en bækurnar og söguþræðinum er smávegis breytt en það skemmir þó ekki lesturinn á bókunum. Þetta eru týpískar ástarsögur sem gerast “í Englandi í gamla daga” og eru ó svo kósy, uppörvandi og skemmtilegar. Þær krefjast einskis annars af þér en að þú skemmtir þér við lesturinn líkt og þættirnir gera við áhorf.
Ég mæli með að kíkt sé á næsta bókasafn eða í næstu bókabúð eftir bókunum, svona ef ykkur vantar rómanslestur í febrúar.

Ef þið skellið ykkur í rómanslestur, tala nú ekki um ef Bridgerton bók verður fyrir valinu, þá langar okkur að sjá svo þið megið endilega tagga Instagram pósta með #ÁSTÍBÓK og #LESTRARKLEFINN

Til að auðvelda ykkur leitina að bókunum birtum við hér lista yfir bækurnar í “réttri” röð:

The Duke and I (saga Daphne)
The Viscount Who Loved Me (saga Anthony)
An Offer From A Gentleman (saga Benedicts)
Romancing Mister Bridgerton (saga Colin)
To Sir Phillip, With Love (saga Eloise)
When He Was Wicket (saga Francescu)
It’s In His Kiss (saga Hyacinth)
On The Way To The Wedding (saga Gregory)
Happily Ever After (eftirmálar sögu þeirra allra)

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...