The Storm Sister eða Systirin í storminum eins og titillinn hefur verið þýddur á íslensku er önnur bókin í sjö bóka seríu höfundarins Lucindu Riley um D’Aplièse. Bókin kom út ári á eftir fyrstu bókinni í seríunni, eða árið 2015 og kom nýlega út í íslenskri þýðingu Valgerðar Bjarnadóttur.

Bækurnar um systurnar sjö hafa slegið í gegn bæði erlendis og hérlendis eins og ég hef áður fjallað um. Hver bók er byggð upp á svipaðan hátt. Þær byrja allar á sama tímapunkti þegar D’Aplièse systurnar eru allar á eða í kringum þrítugsaldurinn og faðir þeirra sem ættleiddi þær ungar að aldri frá öllum heimshornum fellur skyndilega frá á dularfullan hátt. Þær sameinast á æskuheimilinu, hinu stórfenglega Atlantis nálægt Genf og fá vísbendingar um uppruna sinn.

Hver bók fjallar um eina systur og eru þær í röð eftir aldri, inn í sögu þeirra fléttast saga formóður oftast langömmu sem þær kynnast í leit sinni að upprunanum. Fyrsta bókin fjallaði um Maiu sem hélt til Brasilíu en Systirin í storminum er saga siglingakappans Ally. Hún er að fara að taka þátt í hætturlegri skútusiglingakeppni þegar hún fréttir af andláti föður síns. Þegar heim er komið fær hún eins og hinar systurnar vísbendingar um hvaðan hún kom og ákveður síðar að halda til Noregs á slóð formæðra sinna. Það kemur í ljós að tónlist er henni í blóði borin og fjölskylda hennar tengdist frægasta tónskáldi Noregs, Grieg sjálfum!

Ævintýragjörn en óviss um framtíðina

Eins og margir aðrir hreyfst ég strax af bókaflokknum um systurnar sjö og var spennt að halda beint í aðra bók eftir að ég lauk þeirri fyrstu í seríunni. Ég hafði notið fyrstu bókarinnar sem setti upp sögusviðið sem og því að elta Maiu til Brasilíu. Ég hafði, ef eitthvað er, enn meira gaman af sögunni hennar Ally. Ég hreifst af karakter hennar, hún er óhrædd við lífið og ævintýragjörn en engu að síður óviss um hvert hún stefnir. Saga Önnu Landvik sem fléttast inn í sögu Ally var einnig áhugaverð en ég var þó smá tíma að komast inn í hana. Bókin, eins og allar bækur í seríunni er um 700 síður og því ljóst að stundum geta frásagnir úr fortíðinni orðið pínu langdregnar. Rétt eins og með sögu Maiu fræðist lesandinn um heimssöguna við lesturinn og hafði ég gaman af því að kynnast aðeins lífi og störfum Grieg og áhrifum hans á norskt tónlistarlíf.

Formæður í forgrunni

Sjö systur serían er ekki gallalaus, sem lesandi þarf að leiða það hjá sér að konur á þrítugsaldri skyldu að mestu leyti ekkert hafa pælt í uppruna sínum fyrr en kjörfaðir þeirra lést. Það er ansi ólíklegt miðað við hvað flestir unglingar fara í mikla sjálfsskoðun til dæmis. Einnig getur lesandanum þótt það skrítið hversu mikið er einblínt á formæður frekar en blóðmæður systranna, mér finnst þetta þó batna þegar líður á seríuna, og án þess að gefa of mikið upp finnst mér skemmtilegt hverjum Ally kynnist af sínum ættingjum. Nú er ég komin á fimmtu bók seríunnar og þykir sagan hennar Ally með þeim betri þó að allar bækurnar séu áhugaverðar. Þar stendur upp úr að persónusköpunin hennar og margra aukapersóna er góð og Anna Landvik mikill kvenskörungur og því gaman að lesa til enda hvernig hennar mál fara.

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...