Okkar eigin Ævar Þór Benediktsson slær alltaf í gegn með Þín eigin bókunum sínum. Eftir að hann fór að skrifa styttar útgáfur af löngu Þín eigin bókunum hefur hann náð til yngri lesendahóps. Síðustu ár hafa komið tvær til þrjár léttlestrarbækur á ári byggðar á lengri bókunum og núna í sumar kom sú áttunda í seríunni, Þín eigin saga: Sæskrímsli, en þessi stytta útgáfa byggir á Þín eigin undirdjúp.
Að þessu sinni sökkvir ungur lesandinn sér niður í undirdjúpin með Hafdísi skipstjóra og hittir fyrir hrikaleg sæskrímsli. Eins og í öðrum léttlestrarbókum mætir lesandinn snöggum dauða í nokkrum söguþráðum, en alltaf er hægt að finna leiðina heim og í öryggið. Þannig getur lesandinn verið étinn af hákarli, rifinn í sundur af hafmeyjum eða kraminn af risakolkrabba.
Þitt eigi ímyndunarafl
Texti Ævars Þórs lætur ekki mikið uppi um umhverfi sögupersónanna, þótt hann lýsi kafbátum nokkuð. Það er aftur á móti í hlutverki lesandans að skapa umhverfið og sjá fyrir sér atburðina. Til dæmis er það algjörlega háð ímyndunarafli lesandans hve ofbeldisfullur hver dauðdagi er, þar sem ekkert er látið uppi um hvernig eða hve blóðugur dauðdaginn er. Mitt ímyndunarafl er til dæmis örugglega mun blóðugara en þess fimm ára sem bókin var lesin fyrir.
En það er ekki allt háð ímyndunaraflinu, því Evana Kisa fær frjálsar hendur í myndlýsingu sinni og skapar töfrandi kvikindi neðansjávar. Þar má finna hrikalega hákarla og svolítið ógnvekjandi hafmeyjur, eins og sjá má á kápu bókarinnar. Að þessu sinni hefur myndunum í bókinni verið fjölgað svo um munar. Og þvílíkur munur! Bókin heldur lesanda sínum með spennandi og stundum hrikalegum teikningum og grípandi texta í bland. Það er líka hægt að sitja með bókina og skoða myndirnar tímunum saman. Okkar uppáhaldsmynd var þar sem megalodoninn er alveg að fara að éta kafbátinn. Þá er einnig hægt að sjá hvaða söguþráð maður eltir á því hvernig blaðsíðan er skreytt – hvort það eru hákarlatennur, krabbaarmar eða hafmeyjusporðar sem prýða kant blaðsíðunnar. Þetta bætir óskaplega miklu við bókina og gerir lesturinn enn skemmtilegri.
Lestur fyrir börn á öllum aldri
Léttlestrarbækurnar Þín eigin saga eru ætlaðar börnum á fyrsta stigi grunnskóla, en það er ekkert sem segir að ekki megi lesa þær fyrir yngri börn eða að eldri börn geti ekki lesið einn stuttann söguþráð fyrir svefninn. Sjálf las ég bókina á þremur kvöldum fyrir einn rétt tæplega fimm ára sem kunni mjög að meta hraðann og spennandi söguþráðinn. Þessi bók er raunar sú fyrsta sem er lesin fyrir hann úr þessum bókaflokki og hann var í skýjunum með að til væru fleiri bækur á heimilinu í þessum dúr. Næstu kvöld verða því tileinkuð hryllingi úr smiðju Ævars. Annar sonurinn, 10 ára, las bókina alla á einu kvöldi og hafði mjög gaman af. Bókin hentar því öllum, ungum lesendum sem eldri.
Þín eigin saga: Sæskrímsli er bók sem er tilvalin í léttlesturinn fyrir krakka sem vilja lesa spennandi og hraðar sögur.
Lestu meira
Bumba er best
Bekkurinn minn er sería barnabóka sem gerast í íslenskum veruleika eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur og Iðunni Örnu. Í hverri bók í seríunni fylgir lesandinn eftir einu barni í bekknum. Sögurnar gerast bæði innan skólans sem utan og spegla sérstaklega vel raunveruleika...
Töframáttur bóka
Við hjónin skiptumst á að lesa með tveggja og hálfs árs syni okkar á kvöldin. Sú hefð er alveg heilög á okkar heimili enda hluti af svefnrútínunni. Kvöldlestur er alveg dásamleg samverustund sem ég get ekki annað en mælt með. Í ólgusjó samfélagsins er þetta frábær...