Hljóðbókahlustun lesenda Lestrarklefans

Að hlusta eða lesa, það er stóra spurningin. Er hlustun á bók það sama og lestur? Og lestur það sama og hlustun? Sjálfri finnst mér hljóðbókahlustun ekki vera það sama og lestur, upplifunin er allt önnur. Ég hef ekki dottið inn í hljóðbækurnar eins og svo margir aðrir í kringum mig. En því er ekki að neita að hljóðbækur njóta gífurlegra vinsælda.

Í vor settum við út spurningakönnun til lesenda Lestrarklefans til að komast að því hvort lestrarhegðun hefði breyst með heimsfaraldrinum og komu Storytel og Audible og annarra hljóðbókaveitna. Um 100 svöruðu könnuninni og hér eru niðurstöðurnar.

Hvar eru karlarnir?

Lesendur Lestrarklefans eru að mestu leyti konur og það endurspeglaðist í könnuninni. Stór meginhluti þeirra sem svöruðu könnuninni voru konur eða tæp 90%. Það er miður að ekki fleiri karlmenn hafi tekið þátt í könnuninni. Út frá því má velta fyrir sér hvort að konur sæki frekar í að endurspegla sjálfsmynd sína sem bókaunnendur frekar en karlar og enn önnur spurning er hvað veldur? Ef þú hefur svarið þá máttu endilega senda okkur línu.

Flestir svarenda okkar hafa hlustað á hljóðbækur í nokkur ár en athygli vakti að um fjórðungur hafði byrjað að hlusta á hljóðbækur rétt fyrir Covid-faraldurinn. Í því samhengi er rétt að nefna að Storytel opnaði skrifstofur hér á landi árið 2018. Aðeins 11% svarenda segjast hafa byrjað að hlusta í faraldrinum sjálfum og því er ekki hægt að færa rök fyrir því að Covid sé drífandi afl í nýskráningum að streymisveitum. Margir hlustuðu þó meira í hljóðbókafaraldrinum.

Meiri hlustun í faraldri?

Eitt af því sem gerðist á meðan faraldurinn geysaði var að líf fólks breyttist töluvert. Margir unnu fjarvinnu og sluppu því við ferðirnar til og frá vinnu. Aðrir unnu meira heima við, sem kannski hefði gefið tækifæri til aukinnar hlustunar. Einangrun gæti líka verið hvetjandi til hlustunar. Það voru því nær jafnmargir sem sem hlustuðu meira annars vegar og hlustuðu jafn mikið og áður. Covid-faraldurinn hafði í öllu falli ekki letjandi áhrif á hlustun.

Hvað er vinsælast?

Glæpasögur og íslenskar og erlendar skáldsögur voru stigahæstar þegar þátttakendur voru inntir eftir því hvaða bókaflokk þeir hlusta mest á. Eins og sjá má á grafinu eru erlendar skáldsögur rétt aðeins vinsælli en þær íslensku. Þar á eftir koma ævisögur og ástarsögur, sem kom okkur í Lestrarklefanum á óvart. Við höfðum búist við að ástarsögur skoruðu hærra, en mögulega spilar þar inn í árstíðin sem könnunin var sett fram. Rómansinn hefði skorað hærra yfir sumartímann, grunar okkur.

Sami flokkur

Það kom okkur líka á óvart að fleiri sögðust lesa og hlusta á sömu tegund bóka. Þegar við settumst niður til að setja saman spurningalistann þá vorum við allar sammála um að miðillinn stjórnaði að nokkru leiti hvernig bækur urðu fyrir valinu að hverju sinni. Til dæmis finnst mér sjálfri best að lesa vísindaskáldsögur á rafbókaformi. Svarendur okkar lögðu miðilinn ekki fyrir sig og lesa á pappír það sama og þau hlusta á.

Góður lesari, gulli betri

Lesarinn skiptir töluvert miklu máli þegar kemur að hljóðbókum. Slæmur lesandi hefur mikinn fælingarmátt en að sama skapi getur góður tælt til sín hlustendur. Tæplega helmingur svarenda sögðu lesarann hafa úrslitavald þegar hljóðbók er valin.

Til afslöppunar og afþreyingar

 

Aðrar niðurstöður úr könnuninni leiddu í ljós að svarendum okkar þótti ekki teljandi fordómar í garð hljóðbókahlustunar og flestir voru sammála um að upplifunin af hljóðbók og lestri væri ekki sú sama. Hljóðbók væri allt annar miðill en pappír.

Hlutfall þeirra sem nota hlóðbók til að sofna aftur á móti og til afþreyingar við önnur verk var nokkuð jafnt. Margir sinna húsverkum með hljóðbók í eyrunum, eða fara í göngutúr. Enn aðrir nota hljóðbók til að ná slökun á annasömum degi.

Eitt er alveg víst: Hljóðbókin er komin til að vera. Og þessum nýja/gamla miðlunarmáta á bókmenntum á að fagna og taka opnum örmum. Neysla á bókum hefur aukist mikið með tilkomu hljóðbókarinnar og fólk les meira á pappír líka. Þetta hvetur til líflegri umræðu um bækur. Í raun má segja að hljóðbókahlustun sé afturhvarf til fortíðar, til þess tíma þegar fólk sat saman og hlustaði á sögu í myrkum baðstofum.

Lestu þetta næst