Afhjúpun: bækurnar sem ég kláraði aldrei

Það fylgir því dásamleg tilfinning að vera búin að setja upp (með aðstoð) tvo heila veggi af bókahillum til að leyfa bókunum mínum loksins að fá sinn verðuga griðarstað. Eftir ellefu ár á flakki með u.þ.b. árlegum flutningum og oft á tíðum plássleysi sem olli því að mamma varð að geyma stóran part of bókasafni hvers tíma (takk mamma!) eru bækurnar mínar og ég loksins komnar á framtíðarheimili. Ég hef skemmt mér konunglega við að opna hvern bókakassann á fætur öðrum, finna aftur gamla vini og ákveða vel og vandlega hvernig „endanleg“ flokkun verður á bókasafninu mínu (ég er ekki að plata sjálfan mig, ég veit ég verð líklega endurflokkandi bækurnar mínar þar til ég dey). Eitt athyglisvert sem hefur komið upp í þessari bókatiltekt og flokkun er að átta mig á hversu margar bækur ég á eftir ókláraðar.

Ég er ekki að tala um bækur sem ég hef einhvern tímann keypt til að kippa í við tækifæri heldur heilu bækurnar sem ég hef raunverulega ætlað mér að lesa og oft komist langt inn í, en svo hefur eitthvað gerst lífið, leiði eða eitthvað og ég hef hætt lestri. Við erum mörg dugleg að deila þeim bókum sem við höfum lesið til að ræða bækur (lesist monta okkur) á goodreads. En af hverju deilum við ekki ósigrum okkar? Bókunum sem við kláruðum ekki, væri það ekki efni í enn betra umræðuefni, hvað olli? Í von um að opna umræðuna afhjúpa ég því hér hluta þeirra bóka sem ég hef ekki klárað, með von um að hughreysta einhvern sem ætlaði sér líka að lesa 7 venjur til árangurs eina helgi og ná betri árangri í lífinu. Þessi listi gæti einnig nýst sem leslisti fyrir hugmyndir, mér skylst að þetta séu allt frábærar bækur!

 

Við erum mörg dugleg að deila þeim bókum sem við höfum lesið til að ræða bækur (lesist monta okkur) á goodreads. En af hverju deilum við ekki ósigrum okkar?

 

Nóbelsverðlaunahafarnir og aðrir mikilsvirtir höfundar

Gerpla eftir Halldór Laxness

Það var mælt með að lesa þessa í leikhúsáfanga í MH árið 2010. Leikritið var fínt, en mér fannst bókin bara ekki grípandi. Get þó stælt mig af því að hafa lesið Sjálfstætt fólk enda var hún kennd af stjörnukennara í sama skóla.

Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez

Besta vinkona mín elskar þessa bók og gaf mér að mig minnir eintakið. Ég elska suður amerískar bókmenntir og hef miklar væntingar um að klára þessa einn daginn. Einhverra hluta vegna hefur mér tekist að lesa Ástin á tímum kólerunnar en ekki þessa…ég skammast mín mikið yfir þessu öllu saman.

7 venjur til árangurs eftir Stephen R. Covey

Þessi bók ein og sér ber ábyrgð á því að ég hef aldrei eftir þetta sett bók í currently reading á goodreads. Ég byrjaði á þessari bók sem hefur reynst mörgum biblía í stjórnun. Ég er viss um að ég væri árangursríkari ef ég myndi lesa þessa bók, en hef ekki enn gert það. Hún fær þó að hanga inn á goodreads, ef ske kynni að ég myndi einn góðan daginn gera það!

Kaldaljós eftir Vigdísi Grímsdóttur

Þessa bók fann ég í bókaskáp heima og ákvað að lesa eftir að hafa séð bíómyndina. Vigdís er frábær penni og bókin vel skrifuð, en unglingurinn ég missti eitthvað þráðinn. Er með hana á framtíðarheimilinu og hef góða trú á að ég klári hana einn daginn.

Human all too human eftir Friedrich Nietzsche

Ég var tvítug og í París, auðvitað keypti ég heimspekibók. Ég er enn þá á bls. sex. Hugsa það breytist seint.

Miðnæturbörn eftir Salman Rushdie

Þetta er enn ein bókin sem ég fékk að gjöf frá sömu vinkonu og afhjúpa að hafa ekki klárað. Mér finnst Salman Rushdie svo áhugaverður maður, algjör rithöfundarsnilli og lék sjálfan sig í Bridget Jones, geri aðrir betur. Ég verð auðvitað að fara að lesa þessa bók.

 Enn vongóð!

Nafn rósarinnar eftir Umberto Eco

Mér líður eins og ég þurfi að fara að nefna góðar bókmenntir sem ég hef lesið áður en álitið á mér fer gjörsamlega út um gluggann. En ég veit ekki, mér var seld þessi bók sem glæpasaga en hún gerist í klaustri á 15. öld eða eitthvað, alls ekki jafn aðgengilegt og Poirot bók.

 

Orlando eftir Virginiu Woolf

Ég er bara nýbúin að kaupa þessa og því kannski ekki að marka. Hef heyrt frábæra hluti en ég hoppaði úr þessari yfir í tvær fræðibækur nýlega, var greinilega í meira stuði fyrir þeim.

Dís eftir Birtu Önnu Björnsdóttur, Oddný Sturludóttur og Silju Hauksdóttur

Las hálfa bókina uppi í rúmi eitt rólegt kvöld þegar ég var ólétt. Horfði svo á bíómyndina eftir að ég átti, fínasta kvikmynd, örugglega fínasta bók!

Gunnlaðar saga eftir Svövu Jakobsdóttur

Byrjaði á þessari á ferðalagi, kom svo heim, fór að vinna og gleymdi henni. Elska Svövu og ætla að kippa þessu í lag við tækifæri!

 

Homegoing eftir Yaa Gyasi

Þessa bók er ég með í láni frá góðri vinkonu og ætla mér svo sannarlega að lesa. Ég dvaldi um tíma á þessu flakki í Gana og langar mjög að lesa þessa bók eftir ganísk ameríska höfundinn. Þarf bara að komast í rétta gírinn!

Tsjernobyl-bænin

Er ríflega hálfnuð með þessa, mér til varnar var ég með eins mánaðar barn þegar ég byrjaði og bara allt of þreytt í þessa bók. Langar mjög að klára hana, fannst fyrri helmingurinn mjög áhrifaríkur.

Ég held að þetta sé komið gott af afhjúpun í bili. Hvaða bækur eru þið ekki búin að klára? Eru einhverjar á þessum lista?

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...