Nú flæða ljóðabækurnar í búðir og bíða stilltar eftir að lesendur taki þær upp og gefi innihaldi þeirra líf. Gróskan er mikil í ljóðheiminum og það eru ófáar ljóðabækur sem ég er spennt fyrir eða er nú þegar búin að lesa.

Hér er lítill listi yfir eftirtektarverðar ljóðabækur sem vert er að taka upp í næstu bókabúð, greiða fyrir og lesa í ró og næði á fallegu haustkvöldi. 

Plómur
Sunna Dís Másdóttir

Plómur er fyrsta ljóðabók Sunnu Dísar í fullri lengd en hún hefur áður gefið út þrjú ljóðverk með Svikaskáldum ásamt skáldsögunni Olíu sem fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Plómur er heildstæð og vel ofin ljóðsaga um ástir og erfiðleika ungrar stúlku í nýju landi. 

Mars
Sunneva Kristín Sigurðardóttir

MARS er frumraun Sunnevu Kristínar á skáldskaparbrautinni en hún er með MA gráðu í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu ásamt því að stunda meistaranám í ritlist þessa dagana. Mars er frumleg og nýstárleg ljóðabók sem á erindi til allra ljóðabókaunnenda.

Núningur
Elín Edda Þorsteinsdóttir 

Skáldið Elín Edda er einnig þekkt sem grafískur hönnuður og listamaður. Hún hefur gefið út ótal bóka og verka, þar á meðal Gombri og Gombri lifir. Núningur er hennar fyrsta ljóðabók í fullri lengd og inniheldur hún vönduð og fersk ljóð sem vekja lesandann til umhugsunar.

Manndómur
Þorvaldur S. Helgason

Manndómur er þriðja verk skáldsins Þorvaldar S. Helgasonar en hann vakti athygli árið 2019 fyrir ljóðabókina Gangverk. Manndómur er afar persónuleg og myndræn þroskasaga ljóðmælanda frá barnæsku til fullorðinsára. 

Perlumóðir
Sólveig Eir Stewart

Perlumóðir er áhrifamikil ljóðferð stúlku, konu og móður. Þetta er fyrsta ljóðabók Sólveigar Eirar en hún er einnig leikskáld og var verkið hennar Rauða kápan sett upp í hádegisleikhúsi Þjóðleikhússins. Spennandi verður að sjá fleiri verk eftir þennan höfund.

Urta
Gerður Kristný

Urta gerður kristný

Fyrir þessi jól gefur Gerður Kristný, ein af okkar fremstu skáldum, út ljóðabókina Urta. Hún er nýkomin úr prentsmiðjunni og ég því ekki búin að lesa en á vef Forlagsins stendur: „Urta segir í fáum en áhrifamiklum orðum sögu af harðri lífsbaráttu á hjara veraldar.“

úti bíður skáldleg veröld

Jakub Stachowiak

jakub úti bíður skáldleg

úti bíður skáldleg veröld er önnur ljóðabók skáldsins Jakub Stachowiak sem er einstaklega hæfileikaríkur í að leika sér með íslenska tungumálið og varpa upp nýstárlegum myndum og angurværum tilfinningum í ljóðum sínum. 

 

Urðarflétta

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir

urðarflétta ragnheiður harpa

Ragnheiður Harpa er partur af hópi Svikaskálda en gefur nú út sína aðra ljóðabók, Urðarflétta, hjá Unu útgáfuhúsi. Áður hefur hún gefið út ljóðabókina Sítrónur og náttmyrkur sem var heillandi, dulræn og einlæg.

Eiðrofi

Katrín Vinther Reynisdóttir

eiðrofi katrín vinther

Eiðrofi er fyrsta ljóðabók Katrínar Vinther Reynisdóttur en bókin er myndræn, tregafull og myrk, þó leynist háðin og húmorinn einnig inn á milli. Bókin kemur út í samstarfi við Blekfjelagið.

Skurn
Arndís Lóa Magnúsdóttir

Árið 2020 kom út firnasterk frumraun ljóðskáldsins Arndísar Lóu Magnúsdóttur, Taugaboð á háspennulínuen fyrir þessi jól er von á annarri ljóðabók hennar. Arndís Lóa starfar einnig sem þýðandi og hefur þýtt mögnuðu bækurnar Ru og Samþykki úr frönsku.

 

Spádómur fúleggsins
Birta Ósmann Þórhallsdóttir

Spádómur fúleggsins er fyrsta ljóðabók Birtu Ósmann Þórhallsdóttur en hún hefur áður gefið út örsagnasafnið Einsamræður og þýtt úr spænsku forvitnilegu bókina Snyrtistofan. Um bókina segir: „Spádómur fúleggsins fjallar um að það að nema drauma, að nema tíma fugla, fiska og manna, að nema það sem kemur og hverfur.“

Með flugur í höfðinu
Kristín Guðrún Jónsdóttir og Óskar Árni Óskarsson tóku saman

Með flugur í höfðinu er sýnisbók prósaljóða og örsagna frá árunum 1922-2012. Ég er spennt að kafa ofan í þetta safn enda mikill aðdáandi bæði prósaljóða og örsagna, en þetta form finnst mér ekki hafa vakið nógu mikla athygli á Íslandi.

Eru einhverjar ljóðabækur á ykkar leslista sem má ekki finna hér? Endilega deilið þeim með okkur á instagram með því að tagga Lestrarklefann og #ljóðabókaflóð.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....