Ég heyrði einhvers staðar að annar hver íslendingur gengi með bók í maganum. Nú veit ég ekki hvað er til í því en ég er handviss um að fjöldinn allur af góðum skáldsögum leynast víða í skúffum á Íslandi. Ég skrifa þennan pistil til þeirra sem eru að vandræðast með skúffuhandritin eins og ég gerði í fjöldamörg ár. Markmiðið er að fara yfir helstu hindranir og leysa þær upp eins og freyðitöflu í vatni (afsakið líkinguna, það hafa verið veikindi á heimilinu).

Fyrstu drög

Eflaust kannast einhverjir við að vera ekki ánægðir með fyrstu drög. Þetta er held ég þyngsta skrefið að komast í gegnum. Ég veit um marga sem hafa sett hugsanir sínar á blað en hætt svo þegar textinn er ekki efniviður í Nóbelsverðlaun. Ég viðurkenni eitt hér og nú: Ég er aldrei ánægð með það sem ég skrifa í fyrsta sinn! Það er ekki fyrr en að ég er búin að endurskrifa textann oft að ég fer að samþykkja hann sem eitthvað annað en bólstrun fyrir ruslatunnuna. Ég þekki allavega enga sem geta sest niður, skrifað kafla fyrir kafla og endað með handrit sem þarf lítið að endurvinna þannig að ekki láta það stoppa þig.

Væntingar

Það er mögnuð tilfinning að lesa góða bók sem snertir hjartastrengi og fer með mann í ferðalag, hvort sem það er í aðra heima eða um líf annarrar manneskju. Ég hef stundum geymt að lesa síðustu blaðsíðurnar af því ég upplifði mig sem hluta af einhverju einstöku og vildi halda sem lengst í það. Draumurinn er að skrifa bók sem skilur lesendur eftir með þessa tilfinningu. En það er erfitt að hafa þessa væntingar og þær gerðu það að verkum að ég vildi næstum ekki halda áfram að skrifa þegar ég var að byrja. Síðar fékk ég þau fleygu ráð að markmiðinu væri náð ef aðeins ein manneskja væri ánægð með bókina. Sú manneskja var ég sjálf. Ég fussaði yfir þessu fyrst en þegar væntingarnar voru færðar á þennan stað varð allt svo miklu viðráðanlegra.

Hvenær er handritið tilbúið?

Rétta svarið er aldrei!

Nei, djók. Auðvitað eru handrit einhvern tíman tilbúin en staðreyndin er samt sú að það er alltaf eitthvað sem hefði mátt laga eða betur fara. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hin fullkomna bók er ekki til. Þessi setning hjálpaði mér að taka af skrefið og ýta á „senda“ þegar ég skilaði af mér handriti í fyrsta skipti.

Má ég lesa?

Önnur stór hindrun var hversu erfitt var að hleypa fólki inn í minn hugarheiminn. Skrifin voru leyndarmál sem ég hélt út af fyrir mig í fjölda ára af því ég var hrædd um að ef fólk vissi að ég væri að skrifa myndi það spyrja hvort það mætti fá að lesa. Þá gaus gagnrýniskvíðinn upp og svarið við þeirri spurningu var auðvitað NEI! Það er stórt skref að leyfa vinum, fjölskyldu eða útgefanda að lesa en ég hvet þig eindregið til þess ef það blundar í þér draumur um að gefa út bók. Gagnrýni getur verið erfið en á sama tíma er hún ótrúlega mikilvæg. Annað sem ég lærði er að það er ekki nauðsynlegt að hlusta á alla gagnrýni. Þetta er jú, þitt verk. En að því sögðu hafa báðar bækurnar mínar orðið margfalt betri eftir því sem ég leyfði fleirum að lesa og koma með athugasemdir.

Tilfinningakreppa

Árið 2020 kom fyrsta skáldsaga mín út eftir að ég hafði gengið með hana í maganum hátt í fimmtán ár. Það sem stoppaði mig allan þennan tíma var einmitt tilhugsunin um að leyfa öðrum að lesa en samt þráði ég að hreyfa við fólki með hinu ritaða orði. Þetta var mikil tilfinningakreppa. Ég mun aldrei gleyma tilfinningunni þegar ég sá bókina mína, Dóttir hafsins, í fyrsta sinn í bókabúð. Óstjórnleg þörf til að grípa öll eintökin og hlaupa með þau í burtu heltók mig. Allt í einu gátu allir keypt eintak. Allt í einu gátu allir lesið hugsanir mínar. Litla hugarfóstrið var komið í fast form sem hægt var að handleika og efasemdaflóð sótti á mig. Hvað var ég eiginlega búin að gera? Í raun er ég ekki með nein ráð við þessu nema að raula lagið Let It Go úr Frozen, það er allavega það sem ég gerði.

Óstjórnleg þörf til að grípa öll eintökin og hlaupa með þau í burtu heltók mig. Allt í einu gátu allir keypt eintak. Allt í einu gátu allir lesið hugsanir mínar. Litla hugarfóstrið var komið í fast form sem hægt var að handleika og efasemdaflóð sótti á mig.

Fleiri bækur – færri áhyggjur?

Undanfarið hef ég velt fyrir mér hvort skrif- og útgáfuferlið verði auðveldara eftir því sem maður gefur út fleiri bækur. Þessar vangaveltur kviknuðu í kjölfar útgáfu næstu bókar en önnur skáldsaga mín, Bronsharpan, er nýlega komin í búðir. Ég var handviss um að þetta yrði léttara í þetta sinn en svo er ekki. Ef eitthvað þá finnst mér þetta meira krefjandi. Kannski er það út af væntingum, bæði annarra en aðallega mínum eigin. Ég spurði reyndari höfunda og þeir voru sammála um að þetta yrði ekkert endilega auðveldara. Hvert verk væri nýtt upphaf og því fylgdu nýjar tilfinningar og væntingar.

Ojæja.

Kýldu á það!

Það má segja að þessi pistill sé óður til skúffuskálda og ég skrifa hann í von um að einhver taki af skarið og klári handritið í skúffunni eða, ef það er tilbúið, leyfi einhverjum að lesa. Það er til svo margs að vinna og litlu að tapa.

 

Gangi þér vel!

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...