Lægðarleslisti Lestrarklefans

Það eru tólf veðurviðvaranir fyrir næstu tvo daga, á morgun er fimmti mánudagurinn í janúar sem margir munu líklega upplifa sem þann sextugasta. Lægðunum stjórnum við ekki, aðeins því hvernig við bregðumst við. Það er hægt að missa gleðina og verða svekkt yfir því að komast ekki í ferðir landshluta á milli, á gönguskíðin eða í fjallgönguna. Hinn póllinn er bara að gleðjast yfir því að hafa afsökun til að skríða undir teppi með góða bók og kakóbolla, það er hvort eð er ekkert annað hægt að gera! Hér er lægðarleslisti frá nokkrum pennum Lestrarklefans til að fá hugmyndir að góðum bókum til að lesa í lægðinni.

Leslisti Sæunnar: Ævisögur og annað 

Janúar hefur verið annarsamur hjá mér og þó ég sé að lesa fimmtu bókina í mánuðinum er hún sú fyrsta sem mér finnst ég hafa notið þess virkilega að lesa þar sem hugurinn var einfaldlega á milljón stöðum í einu við lestur hinna bókanna. Ég er tæplega hálfnuð með An Autobiography ævisögu Agöthu Christie. Glöggir lesendur vita að ég er mikill aðdáandi Christie og hafði ég heyrt mjög góða hluti um ævisögu hennar. Mér fannst fyrri hlutinn smá langdreginn, hún átti hamingjusama æsku og voru frásagnir af ferðalögum fjölskyldunnar og æskuvinum hennar ekki að grípa mig. Hins vegar fannst mér bókin komast á betra flug þegar hún fór að lýsa á mjög skondinn hátt stefnumótasenunni við upphaf 20. aldar í Bretlandi. Þangað sem ég er nú komin í bókinni er fyrri heimsstyrjöldin skollin á og Agatha farin að vinna sem hjúkka (þekking hennar af eitrum frá þessum árum myndi síðar koma henni að gagni við ritun fyrstu glæpasögu hennar) og þau Archie Christie nýgift og ljóst að þetta verður stormasamt hjónaband. Fínasti lestur fyrir aðdáendur Christie fram að þessu.

Ég er komin með ævisögu Nelson Mandela af bókasafninu, Long Walk to Freedom og hlakka mikið til að kynna mér sögu hans sem ég þekki skammarlega lítið til. Ég er nýverið dottin í sjósundið og finnst það mjög gaman, vinkona mín sem ég stunda það með mælti með bók um það hvað sjósund getur breytt lífi fólks The Wildwater Women eftir Ellie Wood. Ég hlustaði á hana á dögunum, en þetta er afar létt en kósý bók um það hvernig líf fjögurra kvenna breytist til hins betra við það að kynnast í gegnum sjósund í Lake District í Bretlandi. Ég náði ekki að lesa eina einustu bók í frábæru áskriftaröð Angústúru sem ég fékk í gegnum póstinn á síðasta ári (ég hafði reyndar lesið Kjörbúðarkonuna áður). Ég ætla því að lesa einhverja af þeim fljótlega og er mjög áhugasöm um Á nóttunni er allt blóð svart eftir David Diop.

Raf- og hljóðbækur frá Katrínu Lilju

Ég er veðurperri og fréttatíminn á stormadögum er oftar en ekki hápunktur vikunnar. En að sama skapi finnst mér fátt betra en að vera inni þegar verstu hríðarnar ganga yfir, hlusta á vindinn rífa í húsið, maula eitthvað gott og sötra heitt te. Og að sjálfsögðu kíkja í bók. En það getur verið erfitt að ná sér í bók í bókabúð þegar stormur geysar úti, því verða mín meðmæli eingöngu bækur sem hægt er að fá sem hljóðbók eða rafbók.

Mér finnst gaman að sökkva mér niður í auðlesanlegt og létt efni þegar janúar og febrúarlægðirnar ganga yfir landið. Því mæli ég með lestri á Arch of the Schythe bókum Neal Shusterman. Hafir þú ekki þegar kynnt þér söguna þá mæli ég sterklega með því. Ef þú vilt láta hræða þig á meðan stormurinn geysar þá mæli ég með hlustun á Dauðaleit eftir Emil Hjörvar Petersen. Ef þú sækir í hasar, vísindaskáldskap með dassi af klisju þá mæli ég með Winter World seríu A.G. Riddle. Ef þú vilt enn meira léttmeti með húmor í bland þá er þér óhætt að kíkja á bækur T. Kingfisher. Af nægu er að taka! Gleðilega lægð!

Meðmæli Sjafnar

Good rich people – Kósy og öðruvísi chiller (chick thriller) sem er öðruvísi en maður býst við, kemur á óvart og fylgir ekki klassískri formúlu.
I keep my exoskeletons to myself – hinsegin dystópía þarf ég að segja meira ?
Vernon god little – skrítin, falleg, ljót bók sem kom mér mikið á óvart og talar skemmtilega inn í true crime fanatík, skólaofbeldi, skotvopnavitleysu Bandaríkjanna, stöðu suður-amerískra innflytjenda i Norður-Ameríku og fleira. Ég las hana fyrir mörgum árum svo ef hun eldist illa þá ét ég þessi meðmæli ofan í mig
Joy luck club – Hún er skemmtileg, margbrotin og auðlesin. Hún fjallar um kínverska innflytjendur í San Fransisco, um dætur þeirra, flótta frá Kína í von um betra líf, fjölskyldur, hefðir, þjóðir, sjálfið og mæðgnasambönd í gegn um kynslóðirnar
Bridget Jones diary – þess virði að lesa til þess eins að rifja upp að Bridget vegur 58 kíló og er að skíta í sig því henni finnst hún svo feit.

Meðmæli Rebekku Sifjar

Ég er búin að lesa fjórtán bækur í janúar, einfaldlega af því að þetta hefur verið lengsti janúar lífs míns, OG HANN ER EKKI ENN BÚINN? En ég er hér til að mæla með bókum ekki til að ausa yfir ykkur biturleika mínum yfir þessum langa vetri. Ég og Sæunn höfum verið á sömu bylgjulengd því ég las einmitt Á nóttunni er allt blóð svart eftir David Diop og líka Allt sem við misstum í eldinum eftir Mariönu Enriquez en þær komu báðar út í áskriftarseríu Angústúru í fyrra. Og það eru nú aðeins gæða bókmenntir sem koma þar út, en yfirleitt frekar þungar og þessar tvær eru það svo sannarlega. Ég verð að mæla með Brimhólum, annarri skáldsögu Guðna Elíssonar, en hún var svo falleg og sár. Stutt lesning sem ætti að geta komið ykkur í gegnum storminn. Ég er búin að hlusta rosalega mikið í mánuðinum, létthlustun eins og bækur Lucindu Riley um systurnar sjö, bækur eftir unga höfunda, Skotheld eftir Birgittu Björg Guðmarsdóttur og Undir yfirborðinu eftir Tönju Rasmussen. Ég var að byrja á On Earth We Are Briefly Gorgeous eftir Ocean Vuong og hún er dásamleg. 

Hafi engin þessara bóka vakið forvitni þína þá hvetjum við þig til að finna þína fullkomnu lægðarbók. Og deila henni með okkur á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #Lestrarklefinn eða @lestrarklefinn. Okkur þykir alltaf gaman að heyra frá ykkur. Svo mælum við einnig með að þið skoðið síðuna okkur og finnið næstu bók.

Lestu þetta næst