Dina Nayeri var barn á flótta frá trúarofstæki í Íran á níunda áratug síðustu aldar. Hún flúði til Bandaríkjanna með viðkomu á Ítalíu og í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum, og lýsir upplifun sinni í bókinni The Ungrateful Refugee, sem er komin út í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar í áskriftarseríu Angústúru.

Á flóttanum bjó Dina meðal annars á hóteli sem hafði verið breytt í flóttamannabúðir með móður sinni og yngri bróður, hún kynntist öðru flóttafólki. Þegar hún var 15 ára hlaut hún bandarískan ríkisborgararétt. Bókin er þriðja útgefna bók höfundar sem hefur skrifað fjórar bækur. Dina Nayeri er gestur á bókmenntahátíð Reykjavíkur 2023.

Flótti

Bókin fer um víðan völl og stekkur höfundur á milli eigin ævisögu, sögu foreldra sinna og fólks sem hún hittir í flóttamannabúðum. Dina segir frá öllu því sem fólk sem aldrei hefur flúið hefur ekki reynt á eigin skinni og getur ekki tengt við. Hún lýsir því hvernig þeir sem vilja gefa af sér og hjálpa fólki á flótta gera það á sínum forsendum og búast við ákveðnum viðbrögð frá fólkinu sem það er að hjálpa. Það vill að flóttafólkið sýni þakklæti, að það sé auðmjúkt og ánægt með það litla sem því er boðið. Fólk sem hefur ekki lent á flótta gleymir að flóttamenn eru ekki bara flóttamenn heldur einstaklingar sem skildu allt eftir af illri nauðsyn, meira að segja heimaland sitt. Þau eru kennarar, nemendur, læknar, líffræðingar, viðskiptafólk, smiðir, píparar, tölvunarfræðingar og allt þar á milli. Þau áttu heimili, fjölskyldu, sitt eigið tungumál og menningu og þurftu ekki að biðja um neitt.

Vanþakklæti minninga

Dina segir frá því hvernig Bandaríkin tóku henni opnum örmum – á þeim forsendum að hún sé ævarandi þakklát, tali aldrei vel um Íran, heldur fagni eingöngu stanslaust frelsinu í nýja heimalandinu sínu. Bandaríkjamenn vildu ekki heyra skemmtisögur af pabba hennar, af matnum sem hún elskaði heima í Íran, af skemmtunum, hófum, menningu og tónlist. Það var vanþakklæti að sakna einhvers úr gamla lífinu. Hún segir lesendum frá rótleysinu sem hún upplifði sem barn og gerir enn sem fullorðin kona og frá þeirri trú að hún verði að skara fram úr og vera best í öllu svo hún geti sannað að Bandaríkin hafi gert rétt með að taka hana til sín. Hún segir okkur að hún fari í lýtaaðgerð til að virðast vestrænni í útliti. Hún segir okkur að bróðir hennar, sem er dekkri á hörund, mæti meiri fordómum en hún. Hún segir okkur hvernig það er að tapa góðu valdi á móðurmálinu sínu, að berjast við að reyna að fanga það á meðan það leysist upp í munninum á henni.

Enginn flýr ekkert

Á fullorðinsárum fer Dina að taka viðtöl við flóttamenn. Ástand heimsins hefur breyst, Vesturlönd eru fjandsamlegri fólki frá Íran og ótal löndum þar í kring. Flóttamenn búa í gámum í búðum, eiga ekkert, fá ekkert, allra síst nýtt ríkisfang. 

Dina segir sögur einstaka flóttafólks, sem hefur dáið eða lifað, verið sent til baka aftur og aftur og sem hefur fengið nýtt ríkisfang. Hún segir frá tálmum, erfiðleikum, fátækt, húsnæðisleysi, seiglu og þrautseigju. Hún segir frá öllu. Hún segir frá hatri, fordómum, hræsni, skömm og rangfærslum. Hún segir okkur að það sé ekki straumur flóttafólks að flæða inn í Evrópu, heldur örmjór lækur sem er stoppaður hvar sem hann reynir að renna til að vökva nýja grundu. Hún bendir okkur á tækifærin sem við erum öll að missa af, á unga fólkið sem eyðir bestu árunum sínum lokað inni í búri fyrir það eitt að fæðast í landi sem er þeim hættulegt og reyna að flýja á vit betra lífs.

Skáldaður sannleikur

Bókin er falleg og átakanleg, sönn og skálduð – Dina notar bakgrunn sinn sem skáldsagnahöfund til að geta sér í eiður í lífi einstaka fólks, og tekur vel fram hvað er skáldað og hvað ekki. Tungumálið er létt og leikandi, og þrátt fyrir að fjalla um þung málefni rennur bókin vel. Dina býr að miklum fróðleik um málefni flóttamanna bæði í dag og þegar hún var sjálf á flótta. Hún hefur kafað vel í tölfræði um fólk á flótta, rætt við aðila sem vinna við að aðstoða ríkisfangslaust fólk og veitir bókin mikla og góða innsýn í heim sem er okkur mörgum hverjum að mestu hulinn.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...