Arfur og umhverfi eða Arv og Miljö eftir norska samtímahöfundinn Vigdis Hjorth vekur svo sannarlega upp ýmsar tilfinningar og hugsanir. Þegar bókin kom út í Noregi árið 2016 varð uppi fótur og fit vegna þeirra tenginga sem fólk gerði við eigið líf höfundar og svo þeirra atburða sem Hjorth lýsir í lífi Bergljótar, aðalpersónu verksins. Arfur og umhverfi er þekktasta verk Vigdísar Hjorth, en fyrir það hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga og varð það fljótt metsöluverk í heimalandinu. Það er eina af tveimur verkum Hjorth sem hefur verið þýtt á íslensku og vonandi verða fleiri verk hennar þýdd í framtíðinni.

Verkið er skrifað vel inn í þá nýju innsýn samfélagsins eftir “Me-too” byltinguna og fjallar í grunninn um togstreituna sem getur fylgt ásökunum og þá erfiðu vegferð sem þolandi getur þurft að feta til að honum sé trúað.

Hér er sögð saga Bergljótar, sem er elst systkina sinna, en hún hefur ekki haft samband við fjölskyldu sína í um 23 ár. Með nýrri umræðu um arf foreldranna, og þá allra helst deilur um tvö sumarhús fjölskyldunnar, fer Bergljót aftur inn í hringiðu flókinna fjölskyldusamskipta og í holu fortíðar sem er myrk fyrir Bergljótu og bróður hennar en þó öllu bjartari fyrir yngstu systurnar tvær.

Mannlegar tilfinningar og missamræmi

Umfjöllunarefnið er viðkvæmt en Vigdis Hjorth fer vel með efnið með því að leyfa söguhetju sinni að hugsa upphátt á mjög persónulegan og næman hátt. Verkið er þá allra helst áhugavert fyrir það hvernig Hjorth gefur aðalpersónu sinni mannlegt missamræmi í frásögn og einhvers konar óvissu í bland við sterka vissu. Missamræmið felst þá aðallega í því að stundum talar Bergljót um að það séu 15 ár síðan hún talaði síðast við fjölskyldu sína, og stundum eru það 25 eða 23 ár. Lesandinn trúir samt ennþá á sinn helsta sögumann þrátt fyrir ófullkomna frásögnina. Sagan verður í raun mennskari fyrir vikið, breysk og raunsæ vegna þess að Bergljót segir frá með tilfinningum sem verða oft og tíðum kaotískar.

Þegar líður á lesturinn kemur enn betur í ljós að  Bergljót er þrátt fyrir allt í nokkuð stöðugum samskiptum við fjölskyldu sína, þó samskiptin séu brotakennd og óbein. Hún virðist í raun eiga erfitt með að slíta sig alveg frá fjölskyldunni. Þrá hennar eftir viðurkenningu og ást fjölskyldunnar  er of sterk innra með henni til að henni sé fært að losa sig frá þeim að fullu og það er þessi togstreita, þessi gluggi inn í flókið tilfinningalífið sem ljær verkinu sína töfra. Lesanda verður fljótt ljóst að leit Bergljótar eftir fullkomnu jafnvægi við að virða eigin mörk, fá fólk til að trúa sér, en á sama tíma að vera í samskiptum við fjölskyldu sína er lífsins ómögulegt verkefni. En svo er það líka það að frásögn Bergljótar um fortíðina er brotakennd, ekki fullmótuð því hún sjálf veit ekki, eða man ekki öll smáatriðin. Lesandi upplifir þó aldrei að sögumaður sé ótrúverðugur fyrir vikið heldur finnur hann frekar fyrir djúpu raunsæi.

Skáldskapurinn og raunveruleikinn

Það er síðan merkilegt að verkið breytist að mörgu leyti við það að frétta að margir hafa gert tengingu við líf Hjorth og segja verkið sjálfsævisögulegt, að það séu of margir þræðir sem að passi við hennar eigið líf. Kannski ætti ég ekki að minnast á það því viðtökurnar verða aðrar, lesturinn önnur upplifun. Sjálf hefur Hjorth sagt í viðtölum að verkið sé hrein og bein skáldsaga. En samt sem áður hefur hennar eigin systir gefið út skáldsögu sem mótsvar við Arfi og umhverfi og hlýtur þar af leiðandi að vera sannfærð um tenginguna. 

Þetta ýtir okkur í þá átt að hugsa um mörkin milli skáldsögu og veruleika. Eru allir höfundar að byggja eitthvað á eigin reynslu? Eru raunverulegar tilfinningar ekki það sem glæðir skáldskap hvað mest lífi? Hjorth virðist hafa ætlað þessu tiltekna verki að vera lesið sem skáldskap og því má líka velta því fyrir sér hvort að höfundur sé orðinn of stór og plássfrek breyta í dag. Þarf nafnleynd til þess að við hættum að draga höfundinn inn í verkin? Að sjálfsögðu vegna svars systurinnar getur núna almenningur farið að skoða fleiri hliðar málsins og þá jafnvel efast líkt og fjölskylda Bergljótar gerir, og eitthvað sem átti að verða úrlausn eða jafnvel huggun og innblástur fyrir aðra verður þá að enn meira fjölskyldudrama, meiri togstreitu. Fókusinn farinn frá umfjöllunarefninu og yfir á höfundinn.

Endurtekningar til sannfæringar

Tónninn í verkinu er einlægur og einstakur að mörgu leyti. Það er þá helst endurtekningarnar sem vekja athygli. Endurtekningarnar eru að mörgu leyti leið fyrir Bergljótu til að sannfæra en hún er vön því að þurfa að endurtaka sig. Allt verkið virðist  skrifað í hugsanaflæði. Inn á milli tölvuskeyta og atburða koma upp hugsanir frá Bergljótu um lífið, pólitík og stríð og í því finnur hún tengingar við eigið stríð. 

Þýðingin í höndum Ísak Harðarsonar er hnökralaus, en hann virðist ná þessum einstaka tón höfundar nokkuð vel. 

Hvaler Noregi
Arfur og umhverfi er merkileg og áhugaverð lesning og það er skemmtilegt hvernig Hjorth bakar upp þessa marglaga tertusneið af leynd, meðvirkni og þöggun með því að smám saman gefa okkur bita eftir bita i hverjum kafla. Verkið er frábær innsýn inn í flókið tilfinninga – og fjölskyldulíf og það hversu mikil áhrif aðrir einstaklingar, og þá sérstaklega ástvinir, hafa á líf okkar og tilfinningar. Það sýnir einstaklega vel hvernig við viljum skilja aðra – en þó allra helst hvernig við þráum að aðrir skilji og trúi okkar eigin sögum. 

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...