Hinsegin leslisti 2023

Allir mánuðir eru hinsegin mánuðir hjá mér og mörgum öðrum, en í ágúst verður hinseginleikinn extra sýnilegur þegar við fögnum fjölbreytileikanum, ástinni og sjálfinu eins og það leggur sig, og fyrirtæki bleikþvo sig upp til hópa með regnbogafánum og innantómum orðum. Þá er gott að hafa sér við hlið nokkrar góðar bækur sem ágætt er að glugga í sé maður þyrstur í hinsegin bókmenntir.

Patricia Wants to Cuddle eftir Samantha Allen

Ég kolféll fyrir þessari skrítnu bók með enn skrítnari kápu. Fjórir lokakeppendurnir í The Catch,raunveruleikasjónvarpsþætti sem augljóslega er byggður á The Bachelor ferðast til afvikinnar eyju til að taka upp síðustu þættina í seríunni, ásamt piparsveininum sem þær eiga að keppast um, framleiðanda þáttanna og kvikmyndatökumönnum. Eitthvað skrítið liggur í loftinu á eyjunni og á síðustu tuttugu árum hafa allavega fimm konur horfið sporlaust þar. En það er ekki fyrr en undarleg nærvera fer að láta á sér kræla í skógum og skuggum eyjarinnar sem tvær grímur fara að renna á keppendurna.

Our Wives Under the Sea eftir Julie Armfield

Frábær fantasíuhryllingur sem nýtir hversdagsleika og ókennileika á frábæran hátt til að skapa óhug. Hjónin Leah og Miri lifa ósköp venjulegu lífi. Leah er sjávarlíffræðingur og vinnan kallar hana reglulega í kafbátaferðir. En eftir eina slíka ferð kemur hún ekki til baka. Hún er talin af og Miri syrgir konu sína í sex mánuði. Þar til hún kemur aftur. Eða hvað? Bókin er skrifuð frá sjónarhorni Miri eftir að Leah kemur aftur og frá sjónarhorni Leuh á meðan hún er í kafbátnum undir yfirborðinu, á meira dýpi en ætti að vera mögulegt. Við kynnumst sambandi þeirra þá og nú, og dularfulla fyrirtækinu sem Leah vinnur fyrir. Hvenær hætti Miri að vita hvað konan hennar gerir í vinnunni? Hvenær fór Leah að eyða öllum tíma sínum í baðkarinu? Hvað er eðlilegt og hvað ekki?

Hijab Butch Blues eftir Lamya H

Þegar Lamya er fjórtán ára verður hún í fyrsta sinn skotin í konu. Henni líst ekki á blikuna þar til hún fer að lesa Kóranin með hinsegin gleraugum og fer að sjá alls kyns hinseginleika á síðum trúarritsins. Getur verið að það sé hægt að vera hinsegin og heittrúaður án þess að þetta tvennt rekist á? Lamya sér að það er meira en hægt, það hentar henni vel. Í sjálfsævisögu sinni segir hún frá lífi sínu og ber það saman við sögur úr Kóraninum. Saga Lamyu er mikilvæg og áhrifarík, og sýnir fjölbreytileika innan samfélags sem við utan þess höfum oft fordóma fyrir. 

Belly of the Beast eftir  De‘Shaun Harrison

Kynsegin höfundurinn De‘Shaun Harrison tekur saman í bók sinni Belly of the Beast samfélagsleg áhrif þess að vera svartur og feitur. Hán skoðar kynþátt, hinseginleika og holdafar í gegn um tíðina, áhrif þess á örlög manna sem hafa verið myrtir af lögreglunni í Bandaríkjunum. Hán leggur einnig áherslu á masc líkama í þessu samhengi, en oftar er litið til femme og kvenlíkama þegar holdafar er skoðað. Bókin er vel skrifuð, bæði auðlesanleg og mjög fróðleg, og tengir saman kenningar og lifaða reynslu höfundar.

We See Each Other eftir Tre‘vell Anderson

„Ég man ekki nákvæmlega hvenær mér var kennt að hata sjálft mig,“ skrifar trans blaðakvárið Tre‘vell Anderson í inngangi bókar sinnar, We See Each Other: A Black Trans Journey Through TV and Film. Anderson hefur starfað sem blaðakvár og menningarrýnir um áraraðir og í þessari bók sem kom út í maí á árinu tekur hán saman alls kyns birtingarmyndir svarts trans fólks síðustu áratugina. Okkur vantar endalaust meira af trans og kynsegin menningarrýni og ég fagna þessari bók alveg ótrúlega mikið, en hún er bæði frábær afþreyng og ótrúlega fræðandi.

The Price of Salt eftir Patricia Highsmith

Patricia Highsmith gaf út The Price of Salt árið 1952 út undir dulnefninu Claire Morgan. Highsmith var þegar þekkt sem spennusagnahöfundur og vildi ekki fá á sig orð sem „lesbískur höfundur“ auk þess sem hún byggir á hennar eigin lífi. Therese er einmana afgreiðslustúlka í búð, er óhamingjusöm með kærastanum sínum og svolítið týnd í New York þar til Carol, falleg kona á fertugsaldri, kemur inn í búðina. Therese heillast af Carol og ástarsamband þróast hægt á milli kvennanna tveggja. Það sem er mest sjokkerandi við þessa ástarsögu tveggja kvenna frá miðri síðustu öld er að sagan endar vel, en engar aðrar Highsmith bækur gera það. Kvikmynduð útgáfa kom út árið 2015 með Cate Blanchette í hlutverki Carol.

Julian er hafmeyja og Strákur eða stelpa?

Barnabækurnar Julian er hafmeyja og Strákur eða stelpa? eru frábærar barnabækur um hinsegin- og fjölbreytileika, bæði í samfélaginu og tungumálinu. Báðar eru fallega myndlýstar og litríkar og ég mæli endilega með að lesa þær með börnunum. Það má lesa nánari umfjallanir um þær hér á vefnum.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...