Eina stundina ertu í leikhúsi með systur þinni og svo skyndilega í hléinu, þegar þú kíkir á klósettið, ertu komin heim til þín og það er einhver ókunnugur mættur sem segist ætla að baða þig. Já, farðu nú úr fötunum það þarf að skrúbba skítinn. Þú veist ekki hvaðan á þig stendur veðrið. Hvernig ertu kominn hingað?

Þetta gæti orðið upplifun þín eftir mörg ár, þegar þú ert farin að gleyma. En þetta er líka áminning um hversu hratt tíminn líður. Þessi viðfangsefni eru í brennidepli í sýningunni Með Guð í vasanum sem er sýnd í Borgarleikhúsinu um þessar mundir. Verkið er samið og leikstýrt af Maríu Reyndal sem á langan feril í leikstjórn og handritsskrifum og hefur hún meðal annars skrifað fyrir þætti á borð við Stelpurnar og Ástríði, leikstýrt og skrifað leikverkið Er ég mamma mín? og Sóley Rós ræstitæknir, þá bara til að nefna nokkur afrek. Leikmynd og búningar eru í höndum Brynju Björnsdóttur. 

Kómískur harmleikur

Með Guð í vasanum fjallar um hina síungu Ástu, sem er í raun ekkert svo ung lengur heldur að eldast og þar að auki að missa minnið. Einkadóttir hennar vill stýra henni og skilur Ásta ekkert í því, enda fullfær um að sjá um sig sjálf. Eða hvað? 

Verkið er sýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins og það er Katla Margrét Þorgeirsdóttir sem fer með hlutverk Ástu. Aðrir leikarar eru þau Kristbjörg Kjeld, Hjörtur Jóhann Jónsson, Sólveig Arnarsdóttir, Rakel Ýr Stefánsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson í hlutverki Guðs. Leikmynd er einföld en falleg. Hvítar slæður hanga úr loftinu eins og sviðið sé byggt úr skýjaborgum og leikmunir eru hvítir í stíl. Rauða peysan hennar Ástu er síðan í sterkum kontrast við hvíta litinn á meðan búningar annarra persóna eru tónaðir niður. Blingið hjá Guði er samt mitt persónulega uppáhald.  Verkið er blanda af kómedíu og harmleik og umfjöllunarefnið ætti ekki að skilja neinn eftir ósnortinn.

Sterkur hópur leikara

Leikarahópurinn er einstaklega vel heppnaður og verður að segjast að Katla Margrét er alveg hreint út sagt æðisleg sem hin lífsglaða og þrjóska Ásta. Katla Margrét nær að ljá persónunni og verkinu mikinn húmor og leikgleði í bland við mikla depurð, og verður Ásta þannig mjög ljúflega marglaga í meðferð Kötlu. Samspil hennar og Sveins Ólafs var virkilega vel útfært og vel með farið en samspilið á milli þeirra var fallegt og gott. Það væri ekki verra að vera með Svein alltaf við hlið sér í átökum lífsins en ég held það hafi ekki bara verið hvítu fötin sem létu hann geisla af öryggi og staðfestu. Það var síðan í atriðunum þar sem Ásta hittir vinkonu sína hana Grétu, sem Kristbjörg Kjeld leikur, sem að kómedían fór virkilega á flug og það var alveg dásamlega skemmtilegt að horfa á þær í hlutverkum sínum spjalla saman, ruglast og skála. 

Þrátt fyrir einfaldleikann er verkið áhrifaríkt og átakanlegt og stundum eiga áhorfendur erfitt með að átta sig á því hvort eigi að hlæja eða gráta. En það má gera bæði. Stundum er hið dapurlega og hið átakanlega svo fáranlegt og kómískt. Þetta er hið mannlega eðli, aldrei svart og hvítt heldur bland af ýmsu. Verkið vekur til umhugsunar, hvort sem það er um eigið lífshlaup, um ástvini eða um leyndardóma heilans. Það eru svo margir þættir, margir eiginleikar Ástu sem flest okkar ættu að þekkja úr okkar nánasta umhverfi eða í starfi.

Eins og áður sagði, saga Ástu ætti ekki að láta neinn eftir ósnortinn, þetta er fallegt verk og persónurnar dásamlegar og má því búast við votum augum og stífum kinnbeinum eftir hlátur og grát. 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...