Hörkuþriller skrifaður af innanbúðarkonu

Það er greinilega nýjasta tískufyrirbærið hjá stjórnmálamönnum að skrifa glæpa- eða spennusögur. Þannig gaf Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, út bókina Reykjavík fyrir síðustu jól, en þetta er greinilega ekki nýtt af nálinni. Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, hefur á síðustu árum skrifað tvær spennusögur með James Patterson og hann er ekki einn að bera nafnið Clinton og gefa út spennusögu því það hefur betri helmingurinn Hillary Rodham einnig gert með bókinni State of Terror eftir þær Louise Penny. Bókin kom út haustið 2021, en vakti athygli mína nýverið þar sem tilkynnt var að höfundar hennar yrðu gestir á Iceland Noir bókmenntahátíðinni síðar í vetur.

 

 

Samvinna Penny og Clinton minnir um margt á samvinnu Katrínar Jakobsdóttur og Ragnars Jónassonar, Penny er þekktur glæpasagnahöfundur en Clinton líkt og Katrín er aðdáandi glæpasagna en hefur ekki áður gefið út skáldskap. Það sem gerir State of Terror á vissan hátt áhugaverðara verk en Reykjavík er að bókin snýst um utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Ellen Adams, en því hlutverki sinnti Hillary Clinton frá 2009 til 2013 og kemur því með miklar innanbúðarupplýsingar í söguna. Bókin segir frá Adams sem er nýbyrjuð í starfi sínu en hún var skipuð í það af pólitískum andstæðingi sínum Williams forseta en áður rak hún valdamikið fjölmiðlafyrirtæki. Á þeim tímapunkti sem hún tekur við embætti er fyrrum Bandaríkjaforsetinn Dunne (mjög lítið verið að skafa ofan af því að hann byggir á Trump) búinn að nánast eyðileggja utanríkissambönd Bandaríkjanna og það reynir verulega á diplómatíska hæfni Adams í starfi. Við upphaf sögunnar er Adams á heimleið eftir misheppnaða sendiferð til Suður-Kóreu og er orðin sein á „state of the union“ ræðu hjá nýja forsetanum, Williams. Áhyggjur af því hvað hún er illa til fara og þreytt eftir ferðalagið vara þó stutt því skyndilega er sprenging í strætó í London og svo enn önnur í París sem setja öll heimsmálin í uppnám.

 

Í kappi við tímann

Á meðan verið er að leysa úr ráðgátunni um hver ber ábyrgð á sprengingunum uppgötvar Anahita Dahir, ungur starfsmaður í utanríkisráðuneytinu, að hún hefur fengið dulkóða sendann sem tengist árásunum. Hún reynir að koma í veg fyrir næstu sprengingu en því miður er það of seint. Dahir nær þó athygli Adams og þær ásamt öðru starfsfólki bandaríska ríkisins þurfa að keppa við tímann til að stoppa enn verri hryðjuverk sem eru í bígerð. Ferðalag þeirra nær til Frankfúrt, Íran, Afganistan, Pakistan og Rússlands og oft er óvíst hver er með þeim í liði og hver er andstæðingur þeirra.

 

Trúverðug saga

State of Terror er á margan hátt sígild spennusaga. Hún er atburðadrifin og heilmikið og spennandi ferðalag á sér stað út um víðan heim. Mér fannst plottið alveg trúverðugt, enda gríðarlega margir andstæðingar bandaríska ríkisins til í dag og öfgahægrisinnuð öfl alltaf að aukast út um allan heim. Það er magnað að lesa bókadóma á Goodreads um þessa bók því þar skín í gegn pólaríseringin í Bandaríkjunum og margir andstæðingar Clinton hafa nýtt þennan vettvang til að ráðast á hana sem persónu og gagnrýna fyrir að nýta þessa bók til að tjá sínar pólitísku skoðanir. Ég persónulega hafði bara mjög gaman af því hvernig Clinton byggði „skáldaðar persónur“ á alvöru fólki og náði kannski smá sætri hefnd í staðinn. Dunne (einnig þekktur sem Trump) er bæði algjör vitleysingur og ákvarðanir hans hafa gríðarlega neikvæð áhrif fyrir Bandaríkin í heild sinni og breski forsætisráðherrann er í lágu áliti hjá utanríkisráðherranum Adams sem telur hann fela heimsku sína með latneskum frösum. Putin er einnig á sínum stað en ber nafnið Maxim en ekki Vladimir, í þessu tilfelli.

 

Misgóð persónusköpun

Heilt yfir er þetta ágætis spennusaga. Mín helsta gagnrýni er að hún er frekar löng eða rétt tæplega 500 blaðsíður og mér fannst hún byrja á sterkan hátt en höfundum ekki takast að viðhalda spennunni í gegnum miðjuna, ég var þó orðin mjög spennt á ný undir sögulok. Það er einnig ansi mikill fjöldi persóna og skipt um sjónarhorn milli málsgreina án þess að um kaflaskil sé að ræða sem var ansi ruglingslegt í upphafi. Þessi fjöldi persóna leiddi einnig til þess að maður tengdi ekki nógu sterkt við sumar þeirra, til dæmis fær Katherine dóttir Ellen Adams litla athygli þrátt fyrir að vera meðal helstu leikenda í verkinu. Það ber þó klárlega að hampa mörgu varðandi persónusköpun og fannst mér samband Ellen Adams og aðstoðarkonu hennar Betsy Johnson, sem er fyrrum kennari og besta vinkona hennar frá barnæsku, algjört gull. Þær styðja hvor aðra í þessu taugatrekkjandi ferðalagi og nýta öll trikkin úr vinkonubókinni, meðal annars dulmál sín á milli, til að leysa málin. Ég komst að því í eftirmálanum að Betsy byggir á vinkonu Clinton sem lést stuttu áður en bókin var skrifuð sem gerði þessa vináttu ennþá fallegri.

Ég er uppfull af spurningum eftir að hafa lesið tvær svona bækur þar sem um samvinnu rithöfunda og stjórnmálamanna er að ræða, hvernig ætli ferlið sé? Hverjum datt hvað í hug? Það verður eflaust mjög gaman að heyra hvað Clinton og Penny hafa um þetta samvinnuverkefni að segja á Iceland Noir. 

 

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...