Þegar fennir í sporin bók ársins!

Bókaklúbburinn Rútínubólgan

Bókaklúbburinn Rútínubólgan var stofnaður í mars 2018 af Evu Engilráð Thoroddsen. Evu langaði að lesa meira og sendi á nokkrar konur sem hún þekkti sem hafa gaman af því að lesa og vildu gera meira af því. Flestar vildu vera með og nú eru þær orðnar mjög nánar og klúbburinn haldið velli í fimm og hálft ár. Eva Engilræað segir klúbbinn orðinn svolítinn saumaklúbb, sem sé frábært.

Auk Evu eru í hópnum Anna Dögg Hermannsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir, Sigrún Bragadóttir, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir og Sólveig Arnardóttir.

 

Fallegar bókakápur eitt af þemunum

Konurnar í Rútínubólgunni reyna að hafa lesefnið sem fjölbreyttast en hafa líka lesið eftir þemum. Til dæmis lásu þær bók eftir ungan íslenskan kvenkynshöfund sem var að gefa út sína fyrstu skáldsögu – Svínshöfuð e. Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Síðar var þemað ungur karlkynshöfundur og var Kokkáll e. Dóra DNA fyrir valinu. Fagurfræðin hefur fengið að stjórna líka og þær völdu hver sína bók með fallega bókakápu og spjölluðu um nokkrar bækur á þeim fundi. Síðan hafa þær valið klassískar bókmenntir eins og Bell Jar eftir Sylviu Plath og eldri bækur eins og bók sem var gefin út árið sem þær fæddust (þá völdu þær hver sína bókina og fjölluðu um þær). Pappírsbók stjórnar ekki valinu eingöngu, því þær hlusta líka á bækur. Slembilukka við val á bókum hefur svo fengið að ráða einu sinni, en þá settu þær miða með bókatitlum í pott og drógu hvað þær ætluðu að lesa næst. 

Í haust ákváðu þær að hafa árstíðar þema og í september tóku þær fyrir Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur og það var af því að þeim fannst kápan svo haustleg að sögn Evu Engilráðar. Nýlega lásu þær Þegar fennir í sporin eftir Steindór Ívarsson sem fékk 5 stjörnur hjá þeim og næst á dagskrá er Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson.

Bókaklúbburinn hefur líka farið í leikhús og bíó á verk sem eru byggð á bókum sem þær lásu. Til dæmis á Kópavogskróníkuna eftir Kamillu Einarsdóttur og Sumarljós og svo kemur nótt eftir Jón Kalmann Stefánsson. Einnig hafa þær skellt inn myndum á samfélagsmiðla af sér með rithöfundum sem þær hafa hitt og þorað að biðja um sjálfu með!

PowerPoint sýning í jólabókaklúbbnum

Þær halda árlegan jólabókaklúbb þar sem þær skiptast á gjöfum sem þurfa að tengjast bókum eða því að lesa til dæmis súkkulaði, gott kaffi, bókamerki, kerti og þess háttar. Hluti sem skapa innilega stemningu við lestur. Á sama klúbbkvöldi fara þær yfir það sem þær hafa lesið á árinu, eru með formlega PowerPoint sýningu og velja bók ársins. Í ár var það bókin Þegar fennir í sporin. Í fyrsta bókaklúbbi eftir jól og sumar er svo hefð að sagt sé frá hvað þær lásu í fríunum.

Eva Engilráð segir meðlimi bókaklúbbsins vera það sem geri klúbbinn svona frábæran. En svo má einnig nefna hefðirnar sem þær hafa búið til í gegnum árin; jólabókaklúbbinn og að fara saman á leiksýningar og í bíóferðir.

Sigurbjörg er flutt út á land og þær langar að sameina klúbbinn þar einhvern tímann, lesa bók sem gerist á því svæði og fara í heimsókn með tilheyrandi gleði. Svo segir Eva Engilráð það að sjálfsögðu vera planið að fara erlendis og lesa bók sem gerist á þeim stað. Upp hefur komið hugmynd um Stokkhólm og eyjarnar þar fyrir utan, innblásið af bókum Vivecu Sten um Sandhamms morðin.

Stúlka, kona, annað klauf hópinn

Bókaklúbbsmeðlimirnir eru ekki alltaf sammála enda ekki allar með sama smekk. Stúlka, kona, annað eftir Bernardine Everesto klauf meðal annars hópinn. En það verða bara til skemmtilegri umræður í kringum bókina þegar ekki allar eru á sama máli, segir Eva Engilráð.

Þær bækur sem hafa staðið upp úr frá því að bókaklúbburinn var stofnaður eru eftirfarandi:

Brestir eftir Fredrick Backman

Elín ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur

Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur

Gríma eftir Benný Sif Ísleifsdóttir

Þernan eftir Nita Prose

Oft byrja þær á nýjum þemum í upphafi árs. Þær ákveða aldrei yfir langt tímabil heldur velja í hittingnum næstu bók sem þær ætla að lesa. Oft fer það eftir skapi þeirra eða hversu langar bækurnar eru. 

Rútínubólgan hvetur öll til að stofna bókaklúbb og ekki taka því of alvarlega. Þetta er skemmtilegur félagsskapur, segir Eva Engilráð að lokum.

Við þökkum Rútínubólgunni kærlega fyrir að segja okkur frá klúbbnum sínum og óskum meðlimum klúbbsins góðs lesturs í vetur!

Mynd af hópnum: Fremst frá vinstri eru Sólveig, Hrafnhildur, Anna Dögg, Sigrún og Eva. Á myndina vantar Sigurbjörgu.

 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...