Víðáttan er uppfull af tómi

Flagsól er nýjasta ljóðabók skáldsins og tónlistarkonunnar Melkorku Ólafsdóttur, sem áður hefur gefið út ljóðaheftin Unglingsljóð og Ástarljóð (2000 og 2004) og ljóðabókina Hérna eru fjöllin blá (2019). Einnig er hún meðlimur Svikaskálda og hefur, ásamt þeim, gefið út þrjár ljóðabækur og skáldsöguna Olíu (2021). Myndhöfundur bókarinnar er Hlíf Una Bárudóttir sem hefur áður myndlýst fjölda bóka.

Flagsól grípur strax augað, meira að segja áður en hún er opnuð. Bókin er í fallegu broti og greinilega mikið lagt í prentun og hönnun bókarinnar. Hún er einnig stærri en margar nýlegar ljóðabækur og veglegri. Kápumyndin er af sveppum í fallegum pastellitum, með svolitlum haust- og nostalgíublæ, og lofar þeim sem tekur hana upp ævintýralegum lestri. 

Marglaga fegurð

Þegar bókin er opnuð kemur í ljós að hún er tileinkuð foreldrum höfundar, náttúrufræðingum sem er þakkað fyrir að hafa vakið áhuga og undrun á náttúrunni. Á hverri opnu er ljóð öðru megin og mynd af sveppum og stutt lýsing á hegðun hvers svepps um sig hinu megin. Ljóðin bera titil mismunandi sveppategunda og er bókin því um leið fræðandi og skemmtileg (þó tekið sé fram að þetta séu ekki tæmandi upplýsingar um sveppi). Þegar ljóðin sjálf eru lesin sést að höfundur hefur fléttað saman tegundaeinkennum sveppanna sem ljóðin heita eftir og tilfinningum ljóðmælanda. Lesandi getur spurt sig hvort ljóðmælandi sé sveppurinn sjálfur, höfundur, eða manneskja, þó sennilega sé hann á sinn hátt allt í senn. Ljóðin fanga samsuðu hversdagsleika, ástar, æskuminninga og nokkurs konar heilræða ættmæðra, vitrari útgáfu af okkur sjálfum sem hafa lifað í gegn um erfiðleika án þess að bugast.

Áleitin og falleg

Ljóðin eru áleitin og falleg, og mér þykir höfundur sýna einstaka lagni við að nota akkúrat rétt orð. Orð sem koma á óvart en passa þó fullkomlega. Orð sem væri erfitt að skipta út án þess að missa töfrana. Við sjáum dæmi um það í þessu broti úr titilverki bókarinnar:

„sjálfsmyndin á niðurbroti byggð 
og oftsinnis upprisin“
(bls 45)

Ljóðið Reyðihnefla finnst mér sérstaklega sterkt, en í því vefar höfundur saman einkennum þessarar rauðu sveppategundar og viðkvæmra tilfinninga ungrar stúlku sem þorir ekki í skólasund (eða það er allavega minn lestur á ljóðinu). Ljóðið er stutt og laggott en inniheldur heilan heim, og söguboga ljóðmælanda sem byrjar á einum stað en endar á öðrum, hokinn af lífsreynslu. Við förum í ferðalag um heilt líf í örfáum orðum. Ekki er öllum ljóðskáldum veitt slíkt vald á tungumálinu.

Uppvöxtur úr sakleysi

Uppáhalds ljóðið mitt er Marhadda, sem mér finnst fullkomið. Þar skrifar höfundur meðal annars:

„vaxin upp úr
sakleysi þess sem
fyllir vasana af fölnandi
fjörudjásnum
veðruðum af ágangi“

Hversu fullkomið? Hversu falleg lýsing á hverfandi barnæsku, með sterku tilfinninga- og líkamsminni einhvers sem man eftir að hafa farið greipum sópandi um svarta fjöru sem barn, sem man það hvernig er að eldast og hætta að leita að fjársjóðum? Er ljóðmælandi að fara í sjósund eða er hann að leyfa sér að hverfa í flæðarmálið, er barnið dáið og ljóðmælandi vill drepa líkama sinn með undrum barnæskunnar, deyfa sig með kulda og hverfa í öldurnar sem gleypa orð upp úr ófrjóum jarðvegi?

Frumleg og draumkennd

Ég dáist að hugmyndaauðgi Melkorku Ólafsdóttur að finna allar þessar sveppategundir, tengja útlit og hegðun þeirra við eitthvað djúpstætt í manneskjunni, í lífshlaupi okkar sem við tengjum öll við, og búa til listaverk. Þá eru teikningar Hlífar Unu Bárudóttur fullkomin viðbót við ljóðin, en það tekst ekki öllum að láta myndlist og orð ríma jafn vel og vinna saman og þessum tveimur listamönnum. Teikningar Hlífar eru draumkenndar en þó realískar, og einkenni sveppana sem ljóðmælandi dregur fram eru áberandi en ekki yfirgnæfandi. Íslensk náttúra og íslenskt eðli lúrir undir yfirborðinu og brýst fram í gegn um glufur sem höfundur skapar og leyfir lesanda að gægjast í.

Bæði er bókin falleg gjöf og notaleg lesning. Ég mæli hiklaust með henni fyrir alla ljóðaunnendur, náttúruunnendur og þá sem eru að leita að fegurð í hversdagsleikanum.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...