Lokahnykkurinn á Dulstafaþríleik Kristínar Bjargar Sigurvinsdóttur er unglingabókin Orrustan um Renóru.  Bókin er beint framhald af Bronshörpunni, annarri bókinni í Dulstafaseríunni. Upphafsverk seríunnar og fyrsta bók Kristínar Bjargar, Dóttir hafsins, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2020. 

Í Orrustunni um Renóru fylgir lesandinn eftir Elísu, Aren, Dimik, Óríu og Atóm sem þurfa að takast á við magnaða áskorun í hliðarheimi, þar sem landið Renóra stendur frammi fyrir árás frá steingyðjunni Draxönu. Saman þurfa gæslumenn frumefnanna að sameina óskamuni borganna Enu, Auru og Simru (Bronshörpuna, Gullspjótið og Silfurgleraugun) og fara til eyjarinnar Aratim í norðri. Þar bíða þeirra goðin þrjú, eigendur óskamunanna, sem munu leiðbeina gæslumönnunum að því markmiði að sigra Draxönu og eyða ógninni sem stendur af Marmaraborginni.

Ástarsagan

Kristín Björg hefur sannað sig sem frjór og hæfileikaríkur furðusagnahöfundur. Ungmennin fimm sem fá það verkefni að bjarga Renóru frá gjöreyðingu eru öll frá Íslandi, en frá mismunandi tíma. Þannig er Aren í framtíðinni, Óría og Dimik úr fortíðinni og Elísa úr nútímanum. Í Orrustunni um Renóru fléttast saman spenna og ást. Elísa og Aren eru yfir sig ástfangin, það er forboðin ást. Grunnefnin þeirra – vatn og eldur – blandast ekki vel saman og þegar þau kyssast á munninn verður sprenging. Þau eru líka frá sitthvorum tímanum, Elísa frá okkar tíma en Aren kemur úr framtíðinni. Þeim er því ekki ætlað að vera saman, en ástin á milli þeirra er heit. Lýsingar Kristínar á ástinni þeirra milli eru fallegar, næmar og snertu við innsta hjartastreng unglingsins sem býr í mér. Ástin á milli þeirra fær lesandann til að andvarpa angurvært. Lesandinn fær hægt og rólega að kynnast persónunum betur og bindast þeim tilfinningaböndum. Lýsingar í bókinni eru myndrænar og áhrifamiklar. 

Ástin í bakgrunni hasarsins

En ástin er ekki allt, þótt sumir vilji halda því fram. Orrustan um Renóru er hasarbók. Það er hvergi dauður kafli í bókinni sem er keyrð áfram af hverri senunni á eftir annarri sem er uppfull af spennu. Gæslumennirnir fara á milli borganna til að safna óskamununum, þau glíma við óvættir á leiðinni og kynnast betur innbyrðis. Í hverjum kafla er eitthvað sem dregur lesandann áfram, fær hann til að vilja vita meira og færast nær því markmiðið að afhjúpa leyndardómana á bak við óskamunina og hvað það er sem mun tortíma Draxönu sem ógnar tilveru allra borgarbúanna.

Borgirnar þrjár sem standa gegn Draxönu eru einangraðar og hafa hver sína sérstöðu. Á milli borganna er rígur og samskipti hafa fyrir löngu fjarað út. Gullborgin Aura er hernaðarlega sterk, silfurborgin Simra býr yfir stórkostlegri tækni og í bronsborginni Enu eru íbúar hofmóðugir, þótt þeir standi andspænis afli sem mun tortíma þeim. Nema borgirnar sameinist gagnvart ógninni.

Fantaflottur fantasíuþríleikur

Sagan um Elísu frá Vestfjörðum og baráttu hennar gegn illum öflum í öðrum heimum er fantaflott og vel uppbyggð fantasía. Heimurinn sem Kristín Björg skapar er flókinn og persónusköpun djúp, sem gerir það að verkum að lesandinn tengist sögunni vel og þráir að fá að taka þátt í lokakaflanum. Á sama tíma og Kristín Björg lokar þessum þríleik, sem er að mestu sagður frá sjónarhorni Elísu, þá hefur hún sáð fræjum og forvitni í gegnum bókina um hina fjóra gæslumenn frumefnanna. Hver er upprunasaga þeirra? Ég veit að ég vil vita allt um Aren, Óríu, Dimik og Atóm. Vonandi fáum við að lesa fleiri sögur um gæslumenn frumefnanna. 

 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...