tove ditlevsen, bernska

Í leyni fylgjumst við með hinum fullorðnu sem geyma innra með sér eigin æsku, slitna og götótta eins og rifið og mölétið teppi sem enginn hugsar lengur um eða hefur not fyrir. Það er ekki hægt að sjá utan á þeim að þau hafi átt sér bernsku og maður þorir ekki að spyrja hvernig þau báru sig að við að komast í gegnum hana án þess að andlit þeirra beri djúp ör og séu rúnum rist eftir hana. (bls. 30)

Bernskan er grimm ef marka má upplifun Tove Ditlevsen af sinni eigin æsku, en hún gerir fyrstu æviárum sínum skil í bókinni Bernska sem er fyrsti hlutinn í þekktum þrílík um líf hennar. Bernska kom út fyrir jólin í framúrskarandi þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Síðasti hluti ævisagnabálksins, Gift kom út fyrir jólin 2022 og vakti verðskuldaða athygli hjá þeim lesendum sem voru að kynnast þessu sígilda verki í fyrsta sinn. 

 Áhugaverður samtímaspegill

Ditlevsen fæddist árið 1917 í Kaupmannahöfn og ólst upp í verkamannafjölskyldu við kröpp kjör sem þýddi að hún hafði ekki kost á að ganga í menntaskóla. Bernska segir frá lífi hennar fram að fermingu en á sama tíma lauk barnaskólagöngu hennar og þá var farið fram á að hún færi að sjá fyrir sjálfri sér með vinnu. Bókin, líkt og Gift, er í styttri kantinum og las ég hana í nánast einum rykk, ef fólk hefur tímann aflögu er nánast öruggt að bókin sé lesin í einni setu.

Bernska kom út árið 1967 þegar Ditlevsen var fimmtug. Í bókinni horfir hún yfir farinn veg frá sjónarhorni eldri útgáfu af sjálfri sér en samt sem áður lýsir hún minningum sínum í fyrstu persónu og á ljóslifandi hátt út frá tilfinningum líðandi stundar. Ditlevsen er afbragðs klár og er strax farin að yrkja ljóð á unga aldri um hluti sem hún hefur ekki enn aldur til að hafa upplifað. Hún á erfiða æsku á nútímamælikvarða en eflaust voru raunir hennar ekki harla ólíkar jafnaldra hennar úr verkamannastétt. Bókin er áhugaverður samtíðarspegill; faðir hennar missir vinnuna og lítið er til af peningum á heimilinu. Bróðir hennar fær að sækja nám til að verða iðnaðarmaður en þegar kemur í ljós að hann er með ofnæmi fyrir efnunum sem hann notar við að mála á hann samt að halda áfram á málarabrautinni þar sem búið er að kosta svo mikið til námsins. Móðir Tove er köld og finnur dóttirin aðeins fyrir hlýju hennar þegar hún telur að móðirin gleymi bernsku hennar. Það sárasta í bókinni er ekki fátæktin heldur sambandsleysi Tove við fólk í nærumhverfi sínu. Tove þráir mest að tengjast mömmu sinni en það reynist henni erfiðast. Þó að Ditlevsen leiðist bernska sín og finnist hún lengi að líða, kvíður hún því samt sem áður að komast í fullorðinna manna tölu. 

Mér finnst ég framanda vera í þessum heimi og hef engan til að ræða við um þá yfirþyrmandi angist sem tilhugsunin um framtíðina veldur mér.“ (bls. 98)

Örlög að verða skáld

Það er fátt um gleðistundir í bernsku Ditlevsen en þó naut ég þess að lesa bókina, hún er svo vel skrifuð og það er ætíð áhugavert að vita hvernig skáld verða til. Ditlevsen var greinilega fætt skáld, hún fékk enga hvatningu að heiman, né gat hún lokið langskólanámi en samt brann það innra með henni að skrifa, nokkuð sem hún kemur enn frekar inn á í Gift. Ég hef ennþá ekki lesið nein skáldverk Ditlevesn en hef heillast af stíl hennar við lestur þessara tveggja hluta úr ævisagnabálki hennar. Þegar nýja þýðingin af Ungdom (millibókinni) kemur út ætla ég að tryggja mér næði til að gleypa hana í mig!

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...