Nú hef ég verið tryggur lesandi furðusagna síðan ég var barn. Sögur þar sem eitthvað töfrandi eða ótrúlegt átti sér stað heilluðu mig ávallt. Sérstaklega þar sem nýir og spennandi heimar voru kynntir til leiks. Dreim – Fall Draupnis eftir Fanneyju Hrund Hilmarsdóttur er einmitt slík bók, fantasía þar sem fjörugir sveitakrakkar rata til Dreim, heims draumanna, þar sem hættur virðast vera handan við hvert horn.

Áður hefur Fanney Hrund gefið út bókina Fríríkið (2021) sem ég las á sínum tíma, en sú bók er einhverskonar upptaktur eða forleikur af Dreim, en Fall Draupnis er fyrsta bókin í þríleik.

Í Dreim kynnist lesandinn þeim Bellu, Alex og Asili, en þau eru góðkunnug þeim sem lásu Fríríkið. Krakkarnir Alex og Asili eru systkini sem búa hjá Öllömmu sinni í sveitabænum Fríríkinu. Foreldrar þeirra eru læknar sem starfa erlendis. Bella er unglingsstúlka sem á mömmu sem er talsverk veik á geði en Bella á annað heimili hjá Öllömmu og systkinunum tveimur. Einnig er mikilvægt að minnast á dýrin sem eru einnig söguhetjur, hundinn Frænda og hestinn Jussa. Hrekkjusvínið Daríus flækist líka inn í ferðalagið til Dreim af furðulegum ástæðum en hann hefur lengi níðst á litlu og yndislegu Asili því hún er ættleidd og brún á hörund.

Flókinn og margslugninn söguheimur

Söguheim Dreim er örlítið flókið að útskýra, svo ég leyfi textanum af bakkápu að fylgja með:

Í Dreim, þar sem draumarnir eiga heima, ráða tunglin fjögur gangverki heimsins. Aðeins á jafntunglum opnast fossarnir á mörkum landanna fjögurra. Aðeins þá eiga þau von um að komast undan Valdinu, þjónum þess og herrum.

Í upphafi bókar fær lesandinn stuttan tíma til að kynnast sögupersónunum áður en sjálft ævintýrið hefst, þegar börnin fjögur og dýrin tvö vakna handan skilanna í furðuheiminum Dreim. Við upphaf lesturs var ég fegin að hafa lesið Fríríkið þar sem farið var hratt yfir sögu og er ég smeyk um að lesendur sem hafa ekki lesið forleikinn verði örlítið ringlaðir. Hér er nefnilega margt og mikið að gerast, heill heimur er kynntur fyrir söguhetjunum af leiðbeinandanum Staurian sem birtist þeim er þau vakna í Dreim. Raunheimum og Dreim stafar ógn af myrkraöflum sem búa í Dreim og vegna þessa voru börnin útvalin til að leysa vandann og bjarga báðum heimum. Þeim bíða blóðugir bardagar, ógnvænlegar verur og lífsháski, og ekki má gleyma því mikilvægasta – nýir kraftar!

Stéttaskipting allsráðandi

Margar hugmyndir fléttast inn í söguna, þar á meðal á bókin að byggjast á kenningu réttarheimspekingsins John Rawls um fávísisfeldinn, „kenningu um hvernig byggja megi samfélag á grunni sanngirni og réttlætis og þar með veita öllum þegnum samfélagsins jafnan rétt til að blómstra“ (af bakkápu). Í borgum Dreim eru samfélögin því miður komin á virkilega slæman stað, stéttaskipting er allsráðandi út frá fáránlegum stöðlum (hárlitur m.a. ræður því hvort þú lifir í vellystingum eða sárri fátækt) og Valdið beitir þegna sína óheyrilegu ofbeldi. Ég staldraði aðeins við ógeðfelldu lýsingarnar af samfélaginu í borginni Kugawa en í bókinni blandast saman gamansamur og léttur tónn sveitarinnar hjá Öllömmu við virkilega myrkan og ósanngjarnan heim Kugawa.

Bókin er sögð frá sjónarhorni barnanna fjögurra og fer það eftir köflum hver á orðið. Hvert og eitt á sér sína þroskasögu og sér lesandinn hvernig þau vaxa sem manneskjur og verða sjálfsöruggari með hverri síðunni. Sterkasti kostur bókarinnar er einmitt persónusköpunin, lesandinn fær mikla samkennd með börnunum þremur, Bellu, Asili og Alex. Á meðan þarf Daríus að ganga lengri veg að þroska en af ástæðum sem ég vil ekki nefna þarf hann að upplifa heiminn frá augum þeirra sem hafa verið ýtt út á jaðarinn þegar hann lendir í Dreim. Stundum velti ég fyrir mér hvort persónusköpunin væri of einhliða hjá Daríusi þar sem hann virðist ekki hafa neina mannbætandi kosti.

Erfið og ævintýraleg vegferð

Mér fannst lesturinn forvitnilegur og spennandi á köflum. Bókin á góða spretti en í upphafi er margt óskýrt hvað varðar persónurnar og heiminn Dreim (sem er mögulega of flókinn). Það hefði mátt gera þessa fyrstu bók í þríleik aðgengilegri lesendum, þá sérstaklega unglingum, þar sem bókin er auglýst fyrir þann markhóp. Ekki kemur fram á bakkápu eða í bókinni sjálfri að Fríríkið sé forleikur sögunnar en lestur þeirrar bókar styrkir upplifun lesanda á Dreim til muna. Það var nefnilega mjög gott að hefja lestur með tengingu við persónurnar þar sem skautað er hratt yfir baksögu barnanna í upphafi.

Bókin skilur lesandann auðvitað eftir í lausu lofti en barátta barnanna til að bjarga heimunum tveimur er rétt að byrja. Ég mun svo sannarlega taka upp framhaldið og halda áfram að vera með þessum yndislegu börnum í liði á þessari erfiðu og ævintýralegu vegferð.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...