Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði Borgarleikhússins. Karl Ágúst Þorbergsson leikstýrir og fer hann einnig með listræna stjórn verksins en verkið er samið í samstarfi milli leikstjóra og leikhóps. Þrír leikarar túlka verkið en það eru þau Aðalbjörg Árnadóttir, Hilmir Jensson og Kolbeinn Arnbjörnsson. Með tónlistarsjórn fer Gunnar Karel Másson en hann er á sviði og hoppar inn í hin ýmsu hlutverk þeim til stuðnings.

Ísinn brotinn og vatnið fossar út 

 Eins og nafnið gefur til kynna fjallar verkið um framkvæmd Vaðlaheiðarganganna. Samkvæmt leikskrá fjallar það einnig um ,,brothætt samband manns við náttúruna’’ en þessi stóra framkvæmd íslandssögunnar er merkileg á margan hátt og þá ekki einungis vegna allra þeirra ógangna sem að verkfræðingar og vinnufólk lenti í meðan grafið var í fjallið, heldur kannski einnig vegna þeirrar staðreyndar að ráðist var í framkvæmdina yfirleitt. Við mannfólkið ryðjumst gegnum fjöll þá í óeiginlegri merkingu en einnig eins og verkið sýnir í bókstaflegri merkingu. Það gerum við til að geta létt okkur lífið eða til að fá okkar framgengt. Er það magnað eða er það frekja? Jafnvel sitt lítið af hvoru? Eða er það jafnvel kjánaleg, hjákátleg vitleysa? Það virðist vera að leikhópurinn Verkfræðingarnir vilji sýna okkur að svo gæti vissulega hafa verið.

Leikhópurinn heilsar áhorfendum í upphafi verksins og þau eru glöð og hress. Þau segja skemmtilega frá gerð gangnanna, og þá sömuleiðis segja þau frá framvindu leikverksins. Þetta gera þau á mjög húmórískan hátt og gerir það að verkum að ísinn brotnar og ákveðinn léttleiki kemur yfir áhorfendur. Það er þó skammvinnur léttir því stuttu síðar þrengir að þegar að fjallið umbreytist í myrk göngin og áhorfendum er húrrað í súrrealískt og kvíðablandið ferðalag.

Magnþrungin innilokunarkennd

Leikmyndin, þó einföld sé, er virkilega áhrifamikil og nær leikmyndahönnuðurinn Júlíanna Lára Steingrímsdóttir að búa til upplifun sem minnir óneitanlega á íveru í löngum göngum með vott af kæfandi innilokunarkennd. Þessu sterku áhrifum nær hún með einungis glærum segldúk að vopni. Í upphafi verksins er segldúkurinn einnig nýttur sem fjallið og svo er hann sömuleiðis vatnið sem bylgjast um sviðið með hjálp blásara. Þetta er einstaklega vel gert og eins og áður sagði; mjög áhrifamikið í einfaldleika sínum. Sömuleiðis er notkun ljósa og reykvélar fínlega stillt inn á verkið og byggir samspil þeirra við leikmyndina upp duðúðlegt en janfnframt íþyngjandi andrúmsloft. Hljóðheimurinn og tónlistin spila einnig mikilvæga rullu í þessum áhrifum en hún er oft hávær og ærandi.

Dýrð í kvíðaþögn

Leikararnir þrír túlka hvert á sinn hátt verkfræðinga sem vinna að Vaðlaheiðargöngunum og fara þeir stundum inn í einhvers konar skrifstofurými eða kaffistofu sem er flúorlýstur glergámur, þröngur en þó fullskipaður plastplöntum. Þar inni upphefjast ýmsar vangaveltur verkfræðinganna um lífið, og sem eiga að öllum líkindum að sýna kvíða nútímamannsins, en þessar samræður sem áttu sér stað inni í litla loftlausa rýminu voru snilldarlega spunnar, raunsæjar og vel leiknar. Það var kannski enginn merkilegur sannleikur eða opinberun sem þær báru með sér en einhvern veginn voru þær hrein unun á að horfa og hlusta. Leikhópurinn kann að nýta þagnirnar einkar vel og það var einmitt í þögnunum sem að samræðurnar náðu sterku biti og athygli.

 

Leiksýningin er fyndin, frumleg og hressandi kvöldskemmtun en efnið í bland við umgjörðina skapar skemmtilegan línudans þess raunsæja við hið súrrealíska. Þá á Júlíanna Lára sérstakt hrós skilið fyrir leikmyndina en heildaráhrif hennar í samspili við tónlistarstjórn og listræna stjórn er kraftmikil. 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....