Kraftmikil sönglög sem kalla á stærra svið

Hljómsveitin stígur á svið og hefur leika. Um salinn í Tjarnarbíó óma kraftmiklir og taktfastir tónar. Þarna er á ferðinni einvalalið í tónlistarbransanum, Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir (Lay Low) er á bassa, Ásmundur Jóhannsson á trommur, Daði Birgisson á hljómborð og Davíð Sigurgeirsson spilar á gítar en hann fer einnig með tónlistarstjórn, og það greinilega styrkri hendi.

Hark er rokksöngleikur eftir Þór Breiðfjörð og fjallar um poppstjörnuna Jóhann Víking sem lifir á fornri frægð, þá aðallega á gömlum diskóslagara sem hann fær endrum og sinnum að flytja fyrir árshátíðir og lítil samkvæmi. En hann dreymir um að verða alvöru rokkari og vera tekinn alvarlega. Doddi, rótarinn hans, fylgir honum hvert fótmál og passar vel upp á hann í lífi og starfi enda virðist Jóhann Víkingur hálf umkomulaus án hans, næstum eins og lítið barn sem þarf að sjá um. Þeir eru báðir augljóslega fastir í ákveðnu tímabili og hafa ekki náð að blómstra og þroskast. En það breytist þegar þeir hitta Fjólu Svif, unga söngkonu á uppleið sem er þó mikill aðdáandi fyrrum verka kempunnar Jóhanns Víkings.

Mikil hæfileikabúnt

Höfundur verksins er stórsöngvarinn Þór Breiðfjörð en hann fer einnig með aðalhlutverkið. Með honum er Hannes Óli Ágústsson í hlutverki Dodda rótara og svo Þórdís Björk Þorfinnsdóttir í hlutverki hinnar ungu Fjólu Svif. Með leikstjórn og listræna stjórn fer Orri Huginn Ágústsson. Þetta er því engin lítil sýning þrátt fyrir stuttan sýningartíma en á bakvið uppsetninguna eru mikil hæfileikabúnt.

Leikgleðin ræður ríkjum í sýningunni og tónlistin er einkar vel smíðuð. Lögin eru grípandi og sterk og textarnir eru vel meitlaðir af smáatriðum með vott af húmor og mikilli sál.

Aumkunarverður en kraftmikill

Þór Breiðfjörð er hinn fullkomni Jóhann Víkingur og gefur persónunni þessa margræðni sem að þarf. Hann er einstaklega lúðalegur og aumkunarverður en með þessa kraftmiklu rödd og þegar hann stígur á svið til að syngja verður hann eins og ný manneskja í útgeislun og innlifun sinni. Það er ekki hægt annað en að halda með honum.

Hannes Óli er samt límið milli söguþráðar og salarins. Hann heldur athygli áhorfenda á söguþræði og leikur hans er sterkur en persóna hans er einnig nýttur sem hálfgerður sögumaður. Þórdís Björk er síðan að mínu mati alltaf með mjög góða nærveru og fallega rödd, en hún fær ekki að fullu að njóta sín og byggja persónuna sína nægilega vel upp þar sem hún þarf stundum að stökkva í aukahlutverk sem valda örlítilli truflun í tengingu. En Þórdís fer þó létt með það.

Harkið vel til fundið

Söngur og lagatextar er aðal styrkleiki sýningarinnar en handritið hefði mátt pússa á nokkrum stöðum þó að liðamótin milli atriða voru oftast vel smurð. Sagan er falleg og skemmtileg og persónurnar vel mótaðar, eftirminnilegar og viðkunnalegar. Þá er titill verksins einkar vel til fundinn og rammar inn verkið, þemu og tónlistarstíl.

Þór Breiðfjörð hefur samið þarna mjög sterkan söngleik sem allir söngleikjaaðdáendur ættu að sjá áður en það verður of seint. Ég get ekki annað en vonað að Þór fái enn stærra svið fyrir næsta söngleik sem hann semur en það er í raun sorglegt hversu stuttan tíma Hark er í sýningu. Því þrátt fyrir að ég dýrka og dái Tjarnarbíó og fjölbreyttu sýningarnar sem þar fá að blómstra og lifna við að þá hefði Hark, og þá sérstaklega tónlist verksins og söngur, notið sín betur á stærra sviði. En sýningar Tjarnarbíó eru sífellt að sanna það hversu mikilvæg starfsemi leikhússins við tjörnina er menningarlífinu.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.