…and Björk of Course eftir Þorvarld Þorsteinsson í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur í Borgarleikhúsinu
Ásta tekur á móti nýjum hóp á sjálfshjálparnámskeið. Þegar þátttakendur kynna sig sjá áhorfendur að flestar persónur hafa óhreint mjöl í pokahorninu, eða í það minnsta bælt eða misnotað mjöl. Glæpamjöl. Hvernig ætli þessar persónur tengist innbyrðis og hvaða örlög bíða þeirra á næstu tveimur og hálfum klukkutíma?
„Er þetta ekki hreinn og klár viðbjóður hvert sem litið er?“
Velkomin
Sviðið er huggulegt. Grjónapúðastólar standa á víð og dreif og birtan er hlý. Sveppi tyllir sér fremst á sviðið og segir áhorfendum sögu. Hinar persónur verksins ganga svo á svið og setjast í hring hjá Sveppa. Tíminn er að byrja. Sjálfshjálpartíminn. Einn í einu standa karakterarnir fimm upp og kynna sig. Hjónin Hulda og Indriði, leigubílstjórinn Þráinn og maki hans Stefanía, hinn ungi og týndi Hans sem dreymir um að opna raftækjaverslun og taka þátt í hópnauðgun (don‘t we all) og svo Marta, sem er fræg og mikið niðri fyrir. Öll eru þau komin upp á náð og miskunn Ástu, sem fylgir predikunum sjálfshjálpargúrúsins Will Johnson, og mun vonandi hjálpa þeim að finna hamingjuna. Áhugaverð staðreynd út frá verkinu er sú að landkynning okkar hefur ekkert þróast síðan 2002, þegar leikritið var skrifað. Við erum enn að tala um Björk og víkinga og fallegar, íslenskar konur. Þegar súrrealismi leikritsins vex fannst mér þetta virka eins og frábær og raunsönn lýsing á sértrúarsöfnuði sem fer úr böndunum. Persónur fylgja ekki endilega reglum samfélagsins, það sem má og má ekki er á gráu svæði.
Góð byrjun
Verkið byrjar skemmtilega, týpurnar eru kunnuglegar og samskipti þeirra áhugaverð. Jón Gnarr leikur harmi sleginn kennara sem er orðinn einmana eftir að hann hætti að kenna, (áhorfendur finna á sér að það var ekki af neinum æðislegum ástæðum sem hann hætti) en þar sem hann er Jón Gnarr getur fólk ekki annað en hlegið að öllu sem hann segir. Svo sama hvað hann leikur vel og tárast og skelfur, þá er allur salurinn í kasti. Svo heitir persónan hans líka Indriði. Það getur ekki hafa hjálpað við að draga úr kómík.
Stefanía segir okkur frá vanmáttarkenndinni gagnvart systur sinni, Þráinn talar endalaust um tilveru sína sem leigubílstjóri og Marta er bæði spennt að tjá sig og undarlega reið, í raun bæld. Leikritið tekur svo alvarlegri beygju þegar persónur segja frá misnotkun af hendi fjölskyldumeðlima, deila hræðilegum fantasíum og vægast sagt vafasamri, ef ekki hreinlega glæpsamlegri, hegðun.
,Kynsveltar konur
Stefanía og Hulda eiga það sameiginlegt að vera kynsveltar, þó af mismunandi ástæðum. Á tímabili velti ég því fyrir mér hvort hægt væri að sameina þær í eina persónu sökum líkinda þeirra, en þær eru báðar að berjast við minnimáttakennd sem brýst fram í yfirlæti og grobbi og samanburði við aðra. Nú hef ég ekki lesið handritið en velti því fyrir mér hvort hefði mátt taka annan snúning á Stefaníu og Huldu og hvernig þær takast á við lífið. Marta og Ásta eru þó ólíkar þeim, Marta er bæði skrítin og fræg með smá stjörnustæla en einnig brotin, ung kona sem deilir erfiðum reynslum. Ásta er greinilega alveg farin á límingunum, sem voru sennilega ekki vel samhangandi til að byrja með. Þá eru karlkyns persónurnar þrjár ólíkar innbyrðis. Þráinn er einfaldur maður, Indriði óþægilega flókinn og Hans er að ég held með einhvern ógreindan geðsjúkdóm eða jaðarpersónuleikaröskun.
Skemmtilegur leikur og góðir mónólógar…
Leikarar standa sig vel og þá sérstaklega María Heba sem mér finnst svo sannfærandi í hlutverki sínu að ég var næstum gengin í sértrúarsöfnuðinn hennar. Jón Gnarr, Urður Bergsdóttir og Davíð Þór eru líka feikilega góð og Sverrir Þór kemur mjög skemmtilega á óvart sem fulltrúi meðalmannsins. Þá eru búningarnir sem Harpa Birgisdóttir sér um eru alveg æðislegir, lýsing og hljóðheimur heilsteypt og falleg og sviðið og leikmyndin vel nýtt.
Ég velti því líka fyrir mér hvort að sú staðreynd að eini svarti leikarinn í hópi hvítra leiki þann karakter sem er laminn, bundinn, kynferðislega áreittur og gerður kynlífsviðfangi í hefnd hvítra kvenna við kúgun hvítra karlmanna. Hvort það sé ádeila á ríkjandi valdakerfi þar sem hinn hvíti karl trónir á toppnum og hvíta konan kemur fast á eftir honum og kúgar fólk sem er jaðarsettara en þær sjálfar, eða hvort það sé tilviljunin ein að Davíð Þór leiki hlutverk Hans. Er persónan skrifuð þannig að hún sé lesin sem jarðarsett á einhvern hátt eða er leikaravalið að ýta undir aukalagi af túlkun?
…í annars sundurlausu og of löngu verki
Höfundur segir sjálfur að verkið eigi að lýsa ástandi fremur en að segja sögu frá upphafi til enda. Verkið er vissulega skrifað sem sketsar en ekki sem heill söguþráður, en samt sem áður er það örlítið stefnulaust. Þrátt fyrir að margt sé skemmtilegt, fyndið og veki mann til umhugsunar að þá trosnar þráðurinn upp. Ég myndi einnig segja að verkið sé um klukkutíma of langt, sem er synd því það væri ekkert upp á það að klaga ef það væri hnitmiðaðra.
Tíminn er fljótandi í verkinu og óvíst er hvort allt gerist línulega eða ekki og það sama má segja um hversu langt líður á milli atvika. Mér fannst stundum eins og ég væri ekki að horfa á fullunnið verk, en ég veit ekki hvort það er sökum leikstjórnar eða formgerð verksins sjálfs. Mér fannst í það minnsta vanta meiri bindingu.
Mögulega eru of margar persónur sem deila sviðsljósinu til að heilsteypt frásögn myndist hjá þeim öllum. Indriði og hans mál virðist eiga að vera í mestum brennidepli, en þó fáum við ekki að vita það mikið um konuna hans eða hvernig mál hans leysist. Það er vissulega flott hvernig persóna hans er byggð upp en ég spyr mig hvort verkið myndi græða á því ef honum væri leyft að vera alveg aðal fremur en svona aðal inn á milli.
Styttri grínsketsarnir, þar sem persónur verksins bregða sér í hlutverkaleik, gera verkið örlítið sundurlaust og maður spyr sig hvers vegna þeir eru yfirleitt þarna. Ef það er eingöngu til að hafa eitthvað fyndið án neins innihalds finnst mér þeir óþarfi því að mínu mati er verkið nægilega húmórískt í mónólógunum. Það verður oft fyndið sökum absúrdisma og því hversu langt það fer í að ganga fram af áhorfendum. Verkið væri betra með einungis einræðum og samræðum, og þá væri líka hægt að jafna hlutverk persónanna þannig að við vissum álíka mikið um þau öll, ef við ætlum ekki að beina aðalkastljósinu að Indriða.
Spurningarnar sem verkið skildi eftir hjá mér voru meðal annars:
Hvað í fokkanum er þessi lokasena?
Hvers vegna er partí með kynni eins og það sé í Séð og Heyrt?
Hvað er lífræn stólpípa? Er það ógeðslegasta typpalíking sem ég hef heyrt síðan ég fæddist, eða hvað?
Í heildina myndi ég segja að verkið sé ágæt skemmtun sem oft er hægt að hlæja að, en það líður fyrir að vera of langt þannig að kjarninn leysist upp og dregur úr styrk verksins og heildarmynd.
„Já rugl, það er rétta orðið yfir ástandið eins og það er orðið.“