Þegar mikið er um að vera í lífi og starfi eins og oft vill verða á vorin finnst mér fátt betra en að lesa glæpa- og spennusögur. Það er auðvelt að detta inn í þær, þær ríghalda manni gjarnan og því klárar maður þær fljótt. Í vor las ég þrjár ferskar spennusögur eftir konur sem mig langar að deila með lesendum okkar, það eru Apples Never Fall eftir Liane Moriarty, Tangerine eftir Christine Mangan og We Were Never Here eftir Andrea Bartz; þær eru fjölbreyttar og ættu því flest að geta fundið hér eina sem myndi henta þeirra lestri.

lesið á strönd

Stolt Ástralíu

 Apples Never Fall eftir Liane Moriarty stóð upp úr af þessum þreumur bókum. Moriarty er þekktust fyrir að hafa skrifað bókina Big Little Lies sem vinsælir þættir úr smiðju Reese Witherspoon byggðu á. Þó þættirnir gerist í Ameríku er Moriarty frá Ástralíu og er sögusvið bóka hennar þar. Moriarty er einn söluhæsti höfundur Ástralíu og hef ég gaman af því að lesa bækur sem gerast þar til tilbreytingar þar sem ég veit lítið sem ekkert um það land. Nýverið fór ég að sjá auglýsingar fyrir glænýrri amerískri seríu sem byggði á bók Moriarty, Apples Never Fall sem kom út árið 2022 og ákvað í kjölfarið að næla mér í hana á lesbrettinu.

 

 

Ég var afar hrifin af bókinni Big Little Lies og hafði lesið nokkrar aðrar bækur eftir Moriarty en fannst þær fölna í samanburði. Apples Never Fall er hins vegar svipuð þeirri fyrrnefndu hvað varðar gæði og var mjög góður ferðafélagi í nýlegri Spánarferð. Bókin segir frá Delaney fjölskyldunni sem á yfirborðinu er afar farsæl. Foreldrarnir Stan og Joy eru gamlar tenniskempur sem eru nýkomin á eftirlaun eftir að hafa stofnað og rekið farsælan tennisskóla og alið upp fjögur börn sem auðvitað voru öll vonarstjörnur í íþróttinni. Einn daginn hverfur hins vegar Joy sporlaust og öll spjót beinast að Stan. Var fjölskyldan svo fullkomin eftir allt saman? Veturinn áður hafði hin unga Savannah birst á dyragætt Delaney hjónana með sár eftir átök við kærasta sinn og þau tekið hana að sér í dágóðan tíma. En hver var þessi dularfulla Savannah og kom hún nálægt hvarfi Joy? 

Bókin er mjög spennandi og fer með lesandann í óvæntar áttir þar til loks skýrist hvað kom fyrir Joy. Þessi fær örugg meðmæli í sumarlestur!

Það dugir ekki að flýja til Marokkó

Í bókabúðinni The Strand í New York, sem á skilið sér pistil enda ein magnaðasta bókabúð í heimi, rakst ég á bókina Tangerine eftir Christie Mangan, en bókina hafði ég ekki heyrt um áður. Þetta er frumraun höfundar og kom hún út árið 2018. Eitthvað við bókakápuna greip mig og ekki skemmdi fyrir kvót um að bókin minnti á The Talented Mr. Ripley eftir Patricia Highsmith.

Tangerine gerist eins og titillinn bendir til í Tangier borg í Marokkó og er þetta söguleg skáldsaga sem gerist á sjötta áratug síðustu aldar. Alice Shipley er ung, nýlega gift og nýflutt með eiginmanni sínum John til Tangier. Einn góðan veðurdag mætir hún þar vinkonu sinni Lucy Mason. Þær höfðu verið bestu vinkonur í Bennington háskóla, herbergisfélagar og sálusystur, en höfðu ekki talað saman í rúmt ár þegar hingað var komið í sögunni. Alice er varkár og hræðist framandi menningu Marokkó og hefur lítið gert til að kynnast nýju heimaborginni. Lucy er allt öðruvísi gerð og fer strax að toga Alice út úr skelinni sinni.

Það er þó ekki allt með felldu og einn góðan veðurdag hverfur John og Alice þarf að horfast í augu við sameiginlega fortíð þeirra Lucy sem hún flúði alla leið til Tangier.

Heilt yfir er þetta auðlesin og spennandi bók, mér fannst hins vegar skorta það sem var nóg af í Apples Never Fall svokallaða „red herrings“. Það var aðeins of augljóst alla bókina í hvað stefndi og ekki nógu mikil spenna þar af leiðandi. Sögusviðið var skemmtilegt, öðruvísi en ég er vön, en mér fannst þó höfundur ekki nýta tækifærið nógu vel við að sýna aðra menningu. Aðeins einn karakter er frá Marokkó og er því miður teiknaður úr gömlum stereótýpum.

Er besta vinkona mín morðingi?

Síðasta spennusagan sem ég las í vor var We Were Never Here eftir Andreu Bartz. Bókin kom út sumarið 2022 og var valin í Bókaklúbb Reese Witherspoon sem ég hef áður fjallað um hér á síðunni. Ég er almennt hrifin af bókunum úr þessum bókaklúbbi. Þetta er klassísk spennusaga sem heldur lesandanum algjörlega við efnið. Sagan segir frá bestu vinkonunum Emily og Kristen. Þær eru að nálgast þrítugt en hafa haldið sambandi eftir samleið í háskóla þrátt fyrir að búa í sitthvoru heimshorninu með því að hittast árlega í vinkonuferð á framandi slóðum. Að þessu sinni eru þær staddar í Chile og búnar að hafa það afar notalegt þar til á síðasta kvöldinu þegar Kristen drepur mann. Þetta var í sjálsvörn, þau fóru saman í herbergið hennar og hann réðst á hana. En auðvitað þurfa þær Emily að fela líkið, það er ekkert annað í stöðunni. Þetta er þó ekki það mest sjokkerandi, heldur sú staðreynd að þær stöllur komu einnig við sögu í morði á öðrum bakpokaferðalangi árið áður.

Þær komast úr landi án þess að neitt uppgötvist og Emily heldur aftur heim til daglegs lífs í Wisconsin fylki í Bandaríkjunum en nær ekki að hætta að hugsa um þetta hræðilega atvik. Upp úr þurru mætir svo Kristen alla leið frá Ástralíu til hennar og fer að haga sér mjög undarlega. Emily fer þá að grafast fyrir um fortíð Kristen og líst ekki á blikuna, getur verið að vinkona hennar sé morðingi?

Það er ekki um neinar heimsbókmenntir hér að ræða en þessi er frábær fyrir ströndina, það er alltaf gaman að lesa um morðingja, ekki satt?

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...