Nú hafa litlar bækur, bókstaflega bækur sem eru smáar, orðið sífellt vinsælli. Höfundar ákveða að gefa út í litlu broti eða forlög nýta sér þann kost að gefa út smásögur eða nóvellur sem litla vasabók. Það er einnig jákvætt að bækurnar eru yfirleitt töluvert ódýrar og auðvelt er að ferðast með þær.

Þessar bækur er gott að grípa með sér í flugvél eða stutt ferðalag, til að seðja smáum lestrarþorsta.

Bækur fyrir eitt pund

Nú er víða farið að sjást í litlar bækur í bókabúðum, bæði hérlendis og erlendis. Þetta eru svokallaðar eins punda bækur Penguin. Penguin er með margar seríur í gangi, bæði stuttar bækur eða smásögur eftir þekkta höfunda og nýrri höfunda. Á Íslandi kosta þessar bækur um þrjúhundruð krónur í Pennanum Eymundsson ef ég man rétt.

Þær eru margar hverjar mjög áhugaverðar og fyrirtaks smakk ef lesandi er til dæmis spenntur fyrir ákveðnum höfundi en hefur ekki lagt í lengra skáldverk eftir hann. Faber Stories er einnig með litlar bækur sem eru allar með mismunandi kápuhönnun, mjög fallegar og eigulegar. Ég á tvær úr þeirri seríu, báðar eru smásögur eftir rithöfunda sem hafa verið að vekja mikla athygli síðustu ár, Anna Burns, sem vann Man Booker verðlaunin fyrir bókina Milkman, og Sally Rooney, sem hefur farið sigurför um heiminn með bókinni Normal People.

Litlu bækurnar frá Faber Stories finnst mér einstaklega fallega hannaðar.

Mjög eigulegar bækur.

Bókaknippi Sverrirs Norlands

Í jólabókaflóðinu 2018 gaf Sverrir Norland út fimm skáldverk í litlu broti. Katrín Lilja fjallaði um bækurnar í fyrra og segir í dómi sínum: „Bækurnar eru fallegar, eigulegar, litlar, nettar og innilegar […]. Bækurnar passa vel í vasa, veski eða hvar sem þú geymir þínar bækur þegar þú ert á ferðinni. Þær eru fullkomnar til aflesturs í strætó eða á meðan þú bíður eftir tannlækni, því það ætti að vera venjan að grípa í bók fremur en að stara eins og uppvakningur á símann.“

Spennandi er að sjá hvort AM forlag gefi frá sér fleiri slík knippi en þetta var svo sannarlega vel heppnað.

Jólabækur Blekfjelagsins

Blekfjelagið, nemendafélag meistaranema í ritlist, gefur frá sér á ári hverju Jólabók Blekfjelagsins sem er í þessu fallega smáa broti. Þær bækur innihalda allar örsögur eftir ritlistarnema í nákvæmri orðalengd. Fyrir síðustu jól, í bókinni Hefðir, var hver saga aðeins 93 orð. Íslenskar örsögur hafa oft orðið að undirflokki ljóða eða kallaðar prósaljóð. Gaman væri að sjá frekari rækt íslenskra höfunda á örsagnaforminu með útgáfu af svona litlum bókum (þær mega nú reyndar líka vera stórar!).

Efst í litlubókahillunni minni má sjá fjórar litlar bækur Blekfjelagsins.

Gömul og ævintýraleg hefð

Litlar bækur hafa alltaf vakið forvitni og á mínu heimili eru til gamlar útgáfur af ævintýrum í mjög smáu broti. Ég gróf upp litla ævintýrahirslu sem er hægt að opna og sjá þar örsmá ævintýri á dönsku. Svo fann ég bókasafn um dverga, í dvergstærð auðvitað, á íslensku. Þessar bækur eru ætlaðar börnum sem þurfa þó líklega hjálp fullorðins til að lesa þetta smáa letur, en auðvitað gæti verið spennandi að lesa bók með stækkunargleri líka.

Litlar kiljur í áskrift

Að lokum langar mig að minnast á bækurnar frá Angústúru en þó að þær séu ekki jafn smáar og bækurnar sem ég hef nú þegar fjallað um, þá eru þær minni en hefðbundnar íslenskar kiljur. Þessar bækur myndi ég kalla smáar bækur með risastóru innihaldi en þær eru flestar mjög magnþrungar og áhrifaríkar. Hægt er að finna umfjallanir um margar þeirra hér hjá Lestrarklefanum, þar á meðal um SæluvímuGlæp við fæðingu ,  Etýður í snjó, Allt sundrast og Veislu í greninu

Sæluvíma og Kona í hvarfpunkti eru í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér. Ég er enn að lesa Dauðinn er barningur en hún byrjar vel.

Það eru engar litlar sögur, bara litlar bækur

Allar þessar bækur eiga það sameiginlegt að vera skemmtilega og fallega hannaðar og innihalda efni sem er ekkert síðra en það sem dvelur inni í stórum bókum.

Lestu þetta næst

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...

Gratíana fullorðnast

Gratíana fullorðnast

Benný Sif Ísleifsdóttir stimplaði sig rækilega inn á rithöfundasenuna á Íslandi við útgáfu fyrstu...

Héragerði yfir páskana

Héragerði yfir páskana

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er líklega best þekkt fyrir bráðfyndnar og beint-í-mark myndasögur. Til...

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin í Rumpuskógi

Systkinin Teddi og Nanna eru ákaflega samheldin refasystkin og búa saman í Stóru borg, þar sem öll...

Edinborg í aðalhlutverki

Edinborg í aðalhlutverki

Nú er farið að líða að aðventunni og því tilvalið að taka því rólega, búa sér til heitt súkkulaði...