Óæskilegt-óviðeigandi-ósæmilegt=BANNAÐ!

Er enn verið að ritskoða bækur? Svarið er já. Er enn verið að ákveða hvað telst vera í lagi og hvað telst ekki vera í lagi? Svarið er aftur já. Er ekki örugglega árið 2020?? Jú! Bækur hafa alltaf verið eitt af þeim tegundum listforma sem æpa á viðbrögð þeirra sem boða pólitískan rétttrúnað.

Hvað megum við lesa? Hvað er hollt fyrir okkur? Hvað eiga börnin okkar að fá að lesa? Og síðast en ekki síðast, hvaða bækur eiga börn og fullorðnir EKKI að lesa og hver ákveður það? Stórt er spurt og misjöfn svör. Sumum finnst þetta segja sig sjálft.  Það er jú ritfrelsi í hinum vestræna heimi og tjáningarfrelsi og frelsi einstaklingsins til að ákveða sjálfur. Eða hvað? Enn eru þeir nefnilega til sem vilja fá að ákveða þetta fyrir annað fólk.

Íslensk ritskoðun?

Skólabókasöfnin hér á Íslandi hafa, svo ég best veit, passað vel upp á að ekki sé verið að flokka bækur á söfnunum sem æskilegar og óæskilegar.  Sumt hefur þó illa staðist tímans tönn eins og t.d bækurnar um Öddu sem telja framtíð kvenna vera þá að giftast vel og hugsa um börn og heimili, semsagt saga hinnar heimavinnandi húsmóður. Bækurnar eru þó enn á söfnunum, en passað upp á að umræðan sé tekin um breytta samfélagslega mynd og annan tíðaranda. Fimm bækurnar eftir Enid Blyton eru með svipuðu sniði. Á meðan drengirnir skipuleggja æsispennandi og hættulega leiðangra eru stelpurnar settar í að smyrja nesti. En þessar bækur eru þó enn til útláns.

Svo eru það bækurnar sem eru tiltölulega nýkomnar úr. Bækur sem vekja hneysklan ákveðins hóps sem vill þær úr hillum safnanna. Bækur sem hafa ekki þá afsökun að hafa verið skrifaðar í öðrum tíðaranda. Það eru bækur eins og Ekki opna þessa bók eftir Andy Lee, sem er talin ýta undir nauðgunarmenningu,  ein ákveðin bók úr ritröðinni Gæsahúð sem er einnig talin ýta undir nauðgunarmenningu og bókin Þess vegna borðum við ekki dýr sem er talin uppfull af óæskilegum áróðri. Ég sjálf vinn á skólabókasafni, er í umræðuhóp starfsfólks á öðrum skólabókasöfnum og reglulega fáum við inn á borð til okkar fyrirspurn um hvort þessi og hin bókin sé nú ekki örugglega komin úr hillum og af hverju börnunum sé leyft að taka þessar bækur.

Bækurnar sem voru teknar úr umferð

Einu bækunar sem eg man eftir að hafa verið teknar úr umferð vegna óæskilegra áhrifa voru bækurnar um Litlu Ljót og Tíu litla negrastráka. Litla ljót  þótti ekki við hæfi þar sem hún var talin ýta undir skaðlegar hugmyndir um sjálfsímyndir stúlkna og því var tekin sú ákvörðun og hún yrði ekki í boði. En ég tek fram að sú bók var kennd sem lestrarbók ungra barna og tekin úr umferð sem slík. Bókina má hinsvegar nálgast á hvaða bókasafni sem er. Tíu litlir negrastrákar var tekin úr umferð á leikskólum þar sem hún var talin ýta undir kynþáttafordóma. Það er því vísir af ritskoðun hér á Íslandi þó hún sé ekki í líkingu við það sem þekkist í öðrum löndum svo ég viti til.

Árið 2012 var höfðað mál í Belgíu þar sem farið var fram á að hætt yrði að selja bókina Tinni í Kongó þar hún væri gegnsýrð af kynþáttahatri. Dómstóll í Belgíu komst að hinu gagnstæða og bókin er áfram seld. Hún er þó víða bönnuð, ein stærsta bókabúðakeðja Bretlands hefur t.d tekið bókina úr sölu.

Í hinum stóru Bandaríkjum er ekki allt sem sýnist í þessum efnum. Hér á eftir eru taldar upp nokkrar bækur sem hafa þótt óviðeigandi af ýmsum ástæðum þar ytra, í landi mannréttinda og málfrelsins. Listann fékk ég að láni hjá Kristínu Rögnvaldsdóttur, en hún setti upp afar skemmtilegt þema bannaðra bóka á skólabókasafninu sínu í Lágafellsskóla.

 

 

 

[hr gap=”30″]

Hvar er þessi berbrjósta?

Bækurnar Hvar er Valli hafa hneykslað marga í Bandaríkjunum og verið bannaðar mjög víða þar á bæ. Í einni Vallabókinni sést nefnilega í konubrjóst þar sem Valla er leitað á ströndinni. Margir hafa leitað að þessu brjósti á þessari tilteknu opnu en ekki haft erindi sem erfiði, svo falið er það í fjöldanum. Þrátt fyrir að brjóstið sé ekki beinlínis flaksandi framan í lesandanum þá er þessi bók í þeim flokki sem almenningi þar ytra finnst sjálfsagt að banna og hefur bókinni mikið verði mótmælt í gegnum tíðina þar sem myndir þykja afar óviðeigandi og ósiðlegar.

Andkristnar bækur

Harry Potter hefur víða verið mótmælt og sérstaklega í Bandaríkjunum. Og þar eru hann sumstaðar jafnvel alveg bannaður. Þær eru taldar ýta undir galdraáráttu og vera andkristnar.  Þær eru sagðar setja börnum slæmt fordæmi ásamt því að vera draugalegar og óhugnanlegar. Bækurnar eru þó með vinsælustu barnabókum þarna vestanhafs svo börnin, sem betur fer, láta ekki endilega segja sér hvað sé við hæfi fyrir þau og hvað ekki.

Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini er ein af þeim bókum sem hefur verið fjarlægð úr hillum skólabókasafna í Ameríku.  Ástæðan er sögð vera sú að bókin sé andkristin og sé höll undir Islam. Og þar sem hún ýti undir íslamstrú geti hún einnig hvatt til ódæða og hryðjuverka.

Dagbók Önnu Frank þótti bæði klámfengin og fjalla um viðkvæm trúanleg málefni. Því var hún tekin úr hillum víða í Bandaríkjunum.

 

Dýratal og fordómar

Vefurinn hennar Karlottu var bönnuð í Kansas árið 2006 þar sem ekki var talið við hæfi að bjóða börnum upp á bók um könguló sem talar mannamál.  Það þótti óviðeigandi og beinilínis börnum hættulegt!

Kalli og sælgætisgerðin var bönnuð í Colorado fylki. Hún þótti sýna fyrirlitningu og fordóma í garð dverga ásamt því að innihalda ómerkilegan boðskap. Roald Dahl brá á það ráð að breyta næstu útgáfu bókarinnar og laga til þær persónulýsingar sem þóttu hafa farið sem mest fyrir brjóstið á fólki.

Unglingabækur sem þykja ekki við hæfi

Tvær unglingabækur sem hafa verið þýddar á íslensku enduðu á listanum. Það eru Eleanor og Park og hin geysivinsæla saga Skrifað í stjörnurnar eftir John Green.

Eleanor og Park er bönnuð í Minnesota vegna þess hve hún þykir innihalda gróft málfar og blótsyrði. Málfarið þykir og ókristilegt þar sem orð guðs voru lögð við hégóma.

Skrifað í stjörnurnar var bönnuð víða í Bandaríkjunum vegna kynferðislegs undirtóns og umræðu um dauðann. Umræða um hvort væri líf eftir dauðann eða ekki þótti ekki viðeigandi og beinlínis skaðleg.

Þrettán ástæður fór ekki vel út úr sjónvarpsþáttaseríu sem Netflix gaf út 2013 en þá var bókin tekin úr hillum í grunnskólum Bandaríkjanna. Þættirnir þóttu grófir, umræður um sjálfsmorð, eiturlyf og kynlíf þóttu varpa ljósi á ískyggilegt umfjöllunarefni bókanna svo þær hurfu út hillum skólabókasafna þar ytra.

Saklaus ævintýri eða hættulegur áróður?

Sum, nú klassísk, ævintýri hljóta ekki heldur náð fyrir augum ritskoðenda. Jói og risaferskjan var gagnrýnd víða í Ameríku þar sem í hún þótti ýta undir áfengis og eiturlyfjaneyslu. Bókin er svo bönnuð í Wisconsin þar sem köngulóin er sögð sleikja varirnar afar kynferðislega.

Hans og Gréta var gagnrýnd og bönnuð í Ameríku í kringum 1992. Hún var talin ýta undir fordóma gagnvart nornum þar sem nornin í bókinni er sögð borða börn. Þótti þetta ekki við hæfi og jafnvel verða til þess að börnum þættu nornir vera réttdræpar.

Lísa í Undralandi þykir stórhættuleg börnum í Ameríku. Svo hættuleg að hún fékk á sig bannstimpilinn. Hún þykir gera eiturlyfjum hátt undir höfði og svo þykir mönnum þar ytra það ekki börnum sæmandi að lesa um dýr sem haga sér eins og fólk og tala mannamál.

Elsku fallegi Bangsímon hefur ekki farið varhluta af ritskoðun þeirra rétttrúuðu. Bókin um sæta og góða bangsann, sem öll börn á Íslandi elska, var talinn móðgandi við Guð þar sem dýrin í bókinni töluðu mannamál. Tyrkir og Bretar tóku bækunar um bangsann líka úr

hillum skólabókasafna þar sem talið var að Gríslíngur litli væri særandi fyrir múslima. Furðulegast af öllu er þó nýlegt bann Kínverja á bókinni en einhverjum þar á bæ datt í hug að birta skopmynd af forseta Kína Xi Jinping þar sem honum var líkt við Bangsímon. Sjálfri hefði mér þótt það hrós.

Elsku hjartans Ofurbrókin. Hann hefur einnig stuðað þá ameríkumenn. Skólabókasöfn þar ytra fá reglulega kvartanir vegna þessara bóka og sum söfnin hafa tekið á það ráð að taka Ofurbrókina úr hillum sínum.  Bækurnar eru sagðar hvetja til óhlýðni og ýta undir uppreisn gegn valdhöfum. Og ekki bætir úr skák að aðalpersónan er sögð samkynhneigð!

C.S. Lewis og Roald Dahl

Ljónið, nornin og skápurinn var bönnuð víða í Ameríku í kringum 1990. Bókin er talin ofbeldisfull, hún inniheldur lýsingar um blóðfórn og dulspeki og þetta þykir beinlínis stórhættulegt börnum og ungmennum.

Nornirnar er bönnuð í víða á Bandaríkjunum þar sem bókin er sögð innihalda gróft orðbragð og hvetja til óhlýðni.  Bókasöfn í Bretlandi hafa bannað hana líka þar sem hún er sögð birta neikvæða mynd af konum.

Bannaðar trílógíur

Hungurleikarnir voru gagnrýndir fyrir að sýna ungt fólk í andfélagslegum og ofbeldisfullum aðstæðum þar sem viðhaft var gróft málfar.

Þríleykurinn Gyllti áttavitinn, Lúmski hnífurinn og Skuggasjónaukinn var víða bannaður í Ameríku. Þessar bækur þóttu ýta undir trúleysi og vera andkristnar.

Hringadróttinssaga var bönnuð víða í Ameríku þar sem sagan þóttu ýta undir trúleysi og stríða gegn menningarlegum viðmiðum. Bækurnar voru sagðar ýta undir galdra og upphefja galdramenn. Einnig fór það fyrir brjóstið á þeim ytra að aðalpersónurnar reyktu og slíkt mega börn ekki lesa um.

Ljósaskipti (Twilight) og sá bókaflokkur allur var bannaður víða í Bandaríknum. Umræða um samkynhneigð, gróft málfar, kynferðislegur undirtónn, ofbeldi, óæskilegar trúarskoðanir, og viðhorf sögupersóna gagnvart fjölskyldunni, allt þótti þetta óviðeigandi og skaðlegt. Þessi bókaflokkur hafði semsagt allt sem bókaflokkur á ekki að hafa.

[hr gap=”30″]

Þessi listi er alls ekki tæmandi. Og eflaust fullt af bókum sem hafa ekki hlotið náð fyrir augu þeirra sem telja sig vita hvað sé almenningi og börnum fyrir bestu. Sumar af þessum bókum eru ekki lengur bannaðar en aðrar finnast ekki í hillum safnanna þar úti. En þetta segir okkur að við verðum að vera vakandi fyrir því að leyfa ekki ritskoðun.  Að mínu mati er það betri kostur að taka umræðuna með börnunum og ræða af hverju sumt sem sé skrifað sé ekki í lagi og þá af hverju. Hinsvegar líka viðra þá staðreynd að allt sem er börnum bannað verður ósjálfrátt spennandi og eftirsóknarvert í þeirra augum. Það er þetta með rauða takkann sem bannað er að ýta á sjáiði. Og ekkert er meiri auglýsing en að fá á sig hinn forboðna stimpil.  Þetta er því tvíbent vopn.

En burtséð frá öllum vangaveltum um kosti og galla þess að ritskoða bækur og ritað efni þá hljótum við að gera þær kröfur að bækur séu almennt vel skrifaðar, vel ritstýrðar og um fram allt aðgengilegar. Börnin eru harðir gagnrýnendur. Þau vilja ekki láta bjóða sér upp á eitthvert rusl, þau eru almennt með sterkari réttlætiskennd en við fullorðna fólkið og þau vita meira en við höldum um hvað sé í lagi og hvað ekki. Það þarf því enginn að segja mér að barn beiti annað barn ofbeldi af því að það hafi lesið um það í bók.

Svo mörg voru þau orð um það sem er bannað.

 

Lestu þetta næst