Leslisti Lestrarklefans í mars

Það er byrjað að vora, eða hvað? Við í Lestrarklefanum erum á fullu í vinnum, skóla, að ganga með börn og að ala þau upp, en reynum þrátt fyrir amstur hversdagsins að vera alltaf með góða bók við hönd. Þegar margir eru búnir með jólabækurnar og farið að þyrsta í ný ævintýri datt okkur í hug að segja ykkur frá því sem við erum að lesa um þessar mundir. Við vonum að þið njótið listans og finnið jafnvel næstu bók á honum!

Bayeux refillinn og heimur í höndum kvenna

Katrín Lilja er að lesa bók eftir Lars-Henrik Olsen Dverginn frá Normandí: Þetta er skáldsaga um tilurð Bayeux refilsins. Saga fjögurra saumastúlkna í klaustri sem fá það verkefni að sauma refilinn undir stjórn dvergs frá Normandí. Í bókinni eru myndir af reflinum og saumaskapurinn fær dýpri merkingu. „Ágætis bók, en ekki viss hvaða aldurshópi hún hentar.“

Rebekka Sif er loksins að lesa The Power eftir Naomi Alderman sem kom út í íslenskri þýðingu rétt fyrir síðustu jól. „Hana er ég búin að eiga í hillunni alltof lengi. Ég er meira en hálfnuð og er mjög ánægð með hana. Hún er sögð frá mörgum mismunandi sjónarhornum og hefur mikla breidd. Hvað gerist ef konur verða allt í einu valdhafarnir í samfélaginu okkar?“

Misgóðar fantasíur

Ragnhildur var að lesa Mythago Wood eftir Robert Holdstock, breska fantasíu frá 1984: Stephen Huxley er ungur hermaður sem snýr með hálfum huga á æskuslóðirnar eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar því hann hefur áhyggjur af eldri bróður sínum. Þeir ólust upp á afskekktum stað þar sem faðir þeirra stundaði óljósar rannsóknir á lítilli skógarspildu, rannsóknir sem hann sinnti af þráhyggjukenndri áráttu sem fékk hann til að vanrækja andlega veika eiginkonu sína og gleðjast þegar synirnir voru kallaðir í stríðið. Eftir lát hans dragast synirnir báðir að skóginum, þar sem gilda vægast sagt óvenjuleg lögmál um tíma og rúm.
„Það sem ég sækist mest eftir í fantasíum er frumleiki, en það er að sama skapi eiginleiki sem mér finnst nokkuð erfitt að finna innan bókmenntagreinarinnar. Það var því svolítið undarleg upplifun að lesa 37 ára gamla bók sem tókst að koma mér svona algerlega á óvart.“
Anna Margrét er að lesa fyrstu bókina í seríu sem heitir Throne of Glass, eftir Sarah J. Maas. „Ef samband mitt við þennan höfund væri Facebook stöðufærsla, þá væri það án efa stillt á „It’s complicated“. Ég kynntist SJM í gegnum bookstagram, en þar er allt vaðandi í fanart og stöðugt verið að mæla með bókunum hennar. Ég las aðra seríu eftir hana sem ég hafði reglulega gaman af, þótt hún sé ekki alveg vandamálalaus, og ég er með fyrstu bókina í nýjustu seríunni hennar á náttborðinu, en sú var valin besta fantasíubók 2020 hjá Goodreads og ku vera þrusugóð.
Throne of Glass er hins vegar bara…allt annað en það. Það var raunar búið að vara mig svo mikið við þessari fyrstu bók að ég var ekki alveg viss um að ég vildi leggja á mig að lesa hana, en svo heyrði ég frá öðrum að serían skánaði mikið strax í annarri bók og ákvað að gefa þessu séns. Eftir fyrstu tuttugu blaðsíðurnar sendi ég annarri bókhneigðri vinkonu, einni af þeim sem höfðu varað mig við bókinni, skilaboð og sagði „Aha. Ég skil.““
Bókin fjallar um leigumorðingjann Celaenu Sardothien, sem er leyst úr þrælkunarbúðum til að taka þátt í keppni um að verða einhvers konar útsendari konungsins. Ef hún sigrar keppnina og starfar fyrir konunginn í fjögur ár mun hún að þeim liðnum fá frelsi sitt aftur. Hún kemst hins vegar fljótlega að því að ekki er allt sem sýnist og þarf að berjast við ill öfl samhliða því að standa sig í keppninni.
„Bókin er ekkert sérstaklega vel skrifuð (eða mögulega bara illa ritstýrð), flest samtöl eru frekar stirð, margar lýsingar eru furðulegar og aðalpersónan, Celaena, er furðulega ósamræm sjálfri sér. Mér finnst ég skilja hvað höfundur ætlaði sér með þennan karakter, en það er eins og það hafi misheppnast. Hún á að vera hættulegasta leigumorðingi landsins og eyðir miklum tíma í að tala um allt sem hún gæti gert þeim öllum, en gerir síðan aldrei neitt og er rosalega meyr og mjúk þegar á hólminn er komið. Sem er alveg klisja sem er hægt að rúlla með ef það er vel gert, en svo er ekki í þessari bók.“
„Ég er ekki mikið fyrir að lesa bækur sem ég þarf að pína mig í gegnum (samanber t.d. Witcher seríuna) en ætla að láta mig hafa þessa því mér skilst að þetta batni hratt. En ég held að ég sé sammála þeim sem vöruðu mig við þessari fyrstu bók og ég mæli með því að þeir sem ákveða að leggja þetta á sig stefni að því að hraðlesa þessa fyrstu.“

Sjálfshjálparbækur

Díana Sjöfn er að lesa metsölubókina Herbergi í öðrum heimi eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur. „Svo er ég að hlusta á The Subtle Art of Not Giving a Fuck: A Counterintuitive Approach to Living a Good Life eftir Mark Manson á storytel! Hún er mjög skemmtileg. Þetta er svona eiginleg sjálfshjálparbók þar sem fjallað er um hvernig erfiðleikarnir gefa lífinu merkingu. Bókin kennir lesandanum að velja sér fucks to give, það er að segja, að velja sér ákveðna hluti í lífinu til að leggja áherslu á. Annað má grafa. Álit annarra ætti þar ávallt að vera lægst á listanum. Mark er mjög beinskeyttur og óvæginn við lesendur eða hlustendur og hann notar bæði nokkuð dökkan og kryddaðan húmor og síðan reynslusögur úr eigin lífi og lífi annarra til að flytja boðskapinn. Listin að lifa lífinu fyrir sjálfan sig og að gefa virkilega góðum og mikilvægum málum vægi, en sleppa taumnum á öllu öðru sem skiptir minna máli.“

Nýbakaða móðirin Kristín Björg er líka í sjálfshjálparpakkanum: „Einu bækurnar sem ég glugga í þessa dagana fjalla um svefnvenjur nýbura, brjóstagjöf og hvernig maður á að meika þessar fyrstu vikur sem vansvefta foreldri!“

Afskekktar bækur

Sjöfn er að lesa Sanatorium eftir Sarah Pearse sem var nýlega valin í bókaklúbb Reese Witherspoon. Afskekktu berklahæli í Sviss hefur verið breytt í lúxushótel. Arkítektinn sem hannaði hótelið hvarf með dularfullum hætti áður en endurbyggingunni lauk og nú, nokkrum árum síðar, bankar annað dularfullt mannshvarf upp á! Snjórinn fellur á afskekkt hótelið, enginn kemst til eða frá því, sem er auðvitað vandamál ef það er morðingi á sveimi. „Spennusaga með Shining ívafi sem er ofsalega bara .. allt í lagi ekkert spes, ég er hálfnuð sirka.“
Svo var Sjöfn að klára What We Don’t Talk About When We Talk About Fat eftir Aubrey Gordon sem er ævisöguleg/heimildabók um fitufordóma. „Eftir það datt ég í feitt tímabil og las Landwhale eftir Jes Baker sem er ótrúlega skemmtilega skrifuð og fjallar um baráttu Jes við fordóma sem koma bæði innan og utan frá og svo I Do it With The Lights On eftir Whitney Way Thore sem er, sláandi, um feita konu sem heitir Whitney Thore og er með raunveruleikaþátt og bumbu. Og er að díla við alls konar fituskömm og að læra að meta sjálfa sig!“
Undirrituð er einnig í afskekktum sögum en ég er að klára Svartalogn eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur. Bókin segir frá Flóru konu á sextugsaldri sem er óvænt sagt upp störfum í Reykjavík og eftir margra mánaða atvinnuleit býðst henni að fara vestur á firði til að mála hús í sjávarþorpi. Þar kynnist hún organista og þremur erlendum konum sem vinna í fiski og fer að kenna þeim íslenskan framburð til að þær geti farið að syngja íslensk verk. Bókin er afar falleg og áhrifamikil en allar hafa konurnar sína sögu að segja og hafa gengið í gegnum ýmsa erfiða atburði. Bókin dregur upp skemmtilega mynd af bæjarlífi og mæli ég með því að týna sér í töfrandi hversdagsleikanum í fallegu fiskiþorpi.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....