Bækur fyrir ung börn og foreldra þeirra

Hvaða foreldri kannast ekki við að þurfa að lesa sömu bókina aftur og aftur fyrir barnið sitt. Meira, meira, kallar mín litla og ég dæsi ef þetta er hræðilega leiðinleg bók sem við erum að lesa og hún vill meira af – en á sama tíma er þetta svo dýrmæt stund og gaman að hún hafi áhuga á að lesa bækur. Ég vil að sjálfsögðu ýta undir áhugann af öllum mætti. Ég nýt þess að setjast undir teppi með henni og lesa. Börn læra líka af því að lesa sömu bókina aftur og aftur. Það er svo mikilvægt að byggja upp áhuga á bókum og bókalestri sem fyrst. En rannsóknir hafa sýnt að lestur og samræður um efnið sem er lesið sé það sem eflir orðaforða hvað mest, en orðaforði skiptir gríðarmiklu máli fyrir læsi í framtíðinni. Það er einnig mikilvægt að lestrarstundin sé góð og skemmtileg stund sem að bæði foreldri og barn hafi ánægju af. Þannig hefur hún mest áhrif. En ég hef alveg lent í því að vilja nánast reyta af mér hárið við að lesa sumar bækur trekk í trekk. Þá hafa ákveðin Pési og Pippa gert mig alveg geðbilaða – án þess að hafa neitt til sakar unnið nema hafa leikið sér með blöðru eða hlaupahjól í mestu makindum. Og jú með smá fílu og óhöppum. Ég get ekki útskýrt hvað það er sem fer í taugarnar  –  og auðvitað er það alltaf smekksatriði hjá hverjum og einum.

En þá getur verið gott að finna bækur sem báðir aðilar hafa gaman af, barnið og hinn fullorðni. Hér að neðan er listi bóka sem ég sjálf mæli með fyrir börn yngri en tveggja ára, og sem mér þykir gaman að lesa með dóttur minni. Aftur og aftur.

Við erum enn á þeim stað að harðspjalda bækur henta best, annars hættir til að blaðsíðurnar rifni og sú litla hefur enn ekki þroskað nægilega mikla þolinmæði fyrir löngum sögum. Dýr eru í mestu uppáhaldi og að herma eftir hljóðum þeirra, en einnig er í miklu uppáhaldi að leita eftir og finna hina ýmsu hluti á blaðsíðunum. En mig kitlar mikið í puttana að fara að kynna dóttur mína fyrir fleiri bókum –  bókum með ört stækkandi söguþræði.

 

 

Sjáðu! | Áslaug JónsdóttirSjáðu eftir Áslaugu Jónsdóttur er líklega ein af betri barnabókum sem ég hef lesið. Hún er einnig í mjög miklu uppáhaldi hjá minni en ég verð ótrúlega ánægð þegar sú stutta velur þessa bók í lestrarstundinni okkar. Ég væri til í að fleiri íslenskir höfundar myndu semja bækur fyrir þau allra yngstu. Myndskreytingarnar í þessari bók eru yndislegar, það er margt um að vera á blaðsíðunum en ekki þannig að það sé yfirþyrmandi. En mér finnst oft verða mikill glundroði í mörgum ungbarnabókum, eitthvað sem ég er lítt hrifin af. En hérna tekst Áslaugu mjög vel til að hafa jafnvægi á síðunum og í sögunni. Tvö börn kanna heiminn í kringum sig og sjá hina ýmsu hluti á leið sinni. Það er ótrúlega skemmtilegt að benda á ýmsar kynjaverur og tala um þær eða biðja barnið um að finna hluti á blaðsíðunum. Textinn er líka skemmtilegur í vísnaformi. Þetta er bók sem getur alveg klárlega vaxið með barninu. Það er hægt að lesa þessa frá fæðingu til  fjögurra eða fimm ára, myndi ég giska á. Hún er harðspjalda en teikningar og texti henta vel eldri börnum líka. Þegar þau eru sem yngst og óþolinmóðust geta þau flett sjálf og skoðað myndirnar, síðan þegar þau eru orðin eldri er hægt að rýna betur í myndirnar og lesa textana með. Katrín fjallaði um Sjáðu hér á Lestrarklefanum og gaf henni einnig toppeinkunn en hægt er að lesa dóm hennar hér.

 

 

 

Hvað segja dýrin? – Íslensku dýrin með hljóðum – Forlagið bókabúð

Eins og ég nefndi hér ofar þá eru dýr í mjög miklu uppáhaldi þessa stundina. Það þarf að herma eftir hljóðunum og helst þarf ég að gera líka. Það getur samt verið erfitt að herma eftir fiðrildi til dæmis, já eða breiðnef! Ekki veit ég hvernig hann hljómar. En dýrabækurnar sem mér finnst bestar eru Hvað segja dýrin – Íslensku dýrin með hljóðum eftir Önnu Margréti Marinósdóttur og Illuga Jökulsson og svo Íslensku dýrin eftir Huginn Þór Grétarsson.

Hvað segja dýrin hefur að geyma hljóðbúta sem hægt er að spila en svo er einnig skemmtilegur fróðleikur um dýrin. Og sá fróðleikur er ekkert endilega algengur í barnabókum. Foreldri gæti sumsé lært eitthvað af þessari bók líka. Það sem mér finnst líka gott er að hér fá Krummi, Lóan og selurinn að vera með. Einnig gæti ég nefnt bókina Fagurt galaði fuglinn sá, en í henni er að finna alla íslensku fuglana með hljóðdæmum.

 

Íslensku dýrin / Icelandic animals – Forlagið bókabúð

 

Íslensku dýrin eftir Huginn Þór er einnig góð vegna þess að hér eru ekki bara kýr, grís og kisa á ferð eins og í klassískum sveitabókum, heldur eru einnig ýmsir íslenskir fiskar og fuglategundir nefndar. Einnig er mikinn fróðleik að finna þó enginn sé sagan því hér má skoða öll heitin á dýrunum, eftir kvenkyni og karlkyni og svo afkvæmum þeirra. Báðar þessar bækur myndi ég telja að geti enst í nokkur ár því þær eru fróðlegar fyrir breiðan aldurshóp þó harðspjalda séu.

 

 

 

 

 

Skoppa og vinir hennar – Forlagið bókabúð

 

Ég veit ekki hvort það sé bara mín ákveðna unga dama sem getur verið svolítið harðhent og sjálfstæð í að vilja fletta sjálf en bækur með felu  – eða sprettiflipum hafa iðulega lent í einhverji hnjaski frekar fljótt. En þessi bók, Skoppa og vinir hennar eftir Louise Forshaw, er harðaspjalda alveg í gegn og eru fliparnir þar meðtaldir. Mér hefur fundist hún algjör snilld vegna þessa og hentar hún alveg frá tveggja mánaða og upp í tveggja ára. Sagan er ágæt og einföld, dýravinir í feluleik.

 

 

 

 

 

Skoðum Línu langsokk – Forlagið bókabúð

 

 

Myndlæsi er ekki síður mikilvægt en börn verða myndlæs löngu áður en þau læra að ráða í stafi og orð. Ung börn hafa oftast mest gaman af því að skoða myndirnar og því er ekkert endilega alltaf nauðsynlegt að hafa sögutexta með í bókum sem lesin eru fyrir yngstu krílin. Það kemur líka þetta tímabil sem líklega flestir foreldrar kannast við þegar barnið vill helst fletta mjög hratt og hinn fullorðni lesandi nær þá ekki að klára að lesa.

 

Skoðum Emil í Kattholti – Forlagið bókabúð

 

 

Þá er vinsælast að skoða myndirnar og benda og spyrja hvaða hluti eða persónur er að sjá. Þessar tvær bækur sem byggja á persónum Astridar Lindgren eru með svo fallegum myndskreytingum eftir Ingrid Vang Nyman og Björn Berg. Mér finnst gaman að kynna dóttur mína fyrir þessum dásamlegu persónum á þann hátt sem hentar hennar aldri. Ég sjálf bý síðan til sögurnar í kringum myndirnar svo að sagan og lesturinn breytist hverju sinni.

 

 

 

 

 

 

Ég skrifaði um bækurnar Morgunverkin og Háttatíma hér á Lestrarklefanum fyrir stuttu. Þær hafa að geyma mjög fallegar og einfaldar myndskreytingar og svo mikilvægar birtingarmyndir hinsegin fjölskyldna í barnabókum. Það er gott að staldra reglulega við og hugsa hvaða birtingarmyndir það eru sem við sjáum í dægurefni barnanna okkar, og einnig í okkar eigin dægurefni og hvað við getum boðið upp á. Birtingarmyndirnar eru sem betur fer alltaf að verða fjölbreyttari og fleiri.  Hérna er líka að finna stríðinn og óþekkan hvolp og kisu  sem borðar smjör. Þetta ætti ekki að klikka.

 

 

 

 

 

 

Elmar – Forlagið bókabúð

 

Bækurnar um hinn litríka Elmar eftir David Mckee eru mjög fínar. Ekkert svo þreytandi og myndirnar einfaldar. Eins og ég sagði áður, ekki of mikill glundroði á blaðsíðunum. Einhversstaðar frétti ég að það væri ekki endilega gott fyrir ung börn að lesa bækur með of mörgum myndum.  Elmar bækurnar eru með mismunandi þemum, ein fjallar um liti og önnur um vini hans, síðan fjallar ein um mismunandi veðráttur.

 

 

 

 

 

 

 

Lestur fyrir ungbarn er tilvalið tækifæri til þess að nota orðin okkar og auka við orðaforða barnsins. Þannig á önd ekki að heita Bra Bra eða hundurinn Voff voff. Við getum auðvitað sagt það sem hluta af lestrinum, sem hluta af sögunni en alvöru orð og heiti ættu að standa. Því það er í lestrinum og við það að skoða myndir í bókum og spyrja út í þær að þau læra ný orð. Og eins og ég sagði áður þá er mjög mikilvægt fyrir þau að fá að lesa sömu bókina oft til þess að læra, þó að okkur sem eldri erum geti fundist það mjög þreytandi til lengdar. Síðan er gott og mikilvægt að foreldrið sýni áhuga, jafnvel þó bókin sé grútleiðinleg. Þá erum við fyrirmyndirnar og ekki síður mikilvægt að börnin sjái okkur lesa sjálf reglulega til eigin yndisauka.

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...