Innri ókyrrð Svanhvítar

Þetta sumarið hefur bókaforlagið Una útgáfuhús gefið út tvær litlar og stuttar bækur sem er svolítil breyting frá útgáfu fyrri ára. Fyrsta „litla“ bókin sem kom út þetta sumarið er leikritið Ókyrrð eftir Brynju Hjálmsdóttur.

Brynja hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrr í ár og hefur áður gefið út ljóðabækurnar Okfruman (2019) og Kona lítur við (2021). Báðar bækur vöktu mikla athygli og hefur Brynja fengið tilnefningar til Fjöruverðlaunanna og Maístjörnunnar. 

Bráðskemmtilegur gamanleikur

Það er kannski svolítið óvanalegt að leikverk sem hafa ekki áður verið sýnd á sviði komi út svona í bókaformi, það gerist þó af og til. Ókyrrð er í raun tilvalið leikverk til lesturs þar sem það er gamanleikur og er bráðskemmtilegt í lestri. Verkið gerist frá upphafi til enda í flugvél þar sem lesandinn kynnist fjórum töluvert skondnum persónum, mæðgunum Svanhildi og Svanhvíti, bisnesskonunni Kríu og spámanninum Gauki. Svanhildur er flugstjóri vélarinnar en dóttir hennar er flugfreyjan. Þeim mæðgum kemur ekkert allt of vel saman en Svanhvít er unginn sem þráir að fljúga úr hreiðrinu og Svanhildur er hin íhaldssama og ofverndandi móðir sem þorir ekki að sleppa takinu á henni. Leikritið hefst einmitt á orðunum: „Svanhvít. Svanhvít. Unginn minn.“ (bls. 9).

Fuglar eru áberandi myndmál í bókinni eins og er kannski orðið augljóst vegna nafna farþeganna Kríu og Gauks. Þau tvö eru fullkomið andstæðupar, Gaukur er uppnuminn af andlega heiminum, jóga og spádómum, en Kría er sjálfstætt starfandi ráðgjafi og rithöfundur bókarinnar Oddaflug – fljúgðu eins og flugbeittur hnífur. Hún er eins kassalega og þær koma. Þeim tveimur kemur auðvitað ekkert svakalega vel saman og eyða þau fluginu í að þræta við hvort annað, en það sama á við mæðgurnar. Mikið stjórnleysi og ókyrrð er í loftinu, bæði fyrir utan veggja flugvélarinnar og innan. 

Það er mikil togstreita í verkinu sem er nýtt óspart til að efla kómíkina og farsann.

„Allir vilja vera flugfreyjur“

Það má segja að Svanhvít sé aðalpersóna verksins, hún læsir mömmu sína inni á klósetti og tekur við stjórn flugvélarinnar. Hún er allt verkið að berjast fyrir sjálfri sér, sínum eigin draumum en hún sótti um í Extreme Flight Artistry School í Tampere sem er frekar kómískt í sjálfu sér. Hún vill ekki verða flugfreyja eins og móðir hennar óskar henni og trompast þegar Svanhildur segir henni að hún muni fá samninginn við flugfélagið framlengdan.

Auðvitað viltu vera flugfreyja. Allir vilja vera flugfreyjur skilurðu það ekki? Allir vilja ferðast um heiminn, vera í klæðilegum búningi og hjálpa fólki að líða vel. Og við erum saman í þessu Svanhvít. Þess vegna bjó ég þig til, svo við gætum staðið saman. Að eilífu, ungi minn. Við þörfnumst þess. (Bls. 97)

Þetta segir svo margt um samfélagið sem við búum í, hvað fyrirfram ákveðna mótið sem er skapað fyrir konur er þrengt upp á þær, að ungum konum sé ekki treyst til að taka eigin ákvarðanir. Flugfreyjulífstíllinn er ákveðin glansmynd sem styrktist til muna með komu samfélagsmiðla. Svanhvít vill ekki heldur hlusta á misgóðar ráðleggingar Kríu og Gauks sem fara einnig að blanda sér inn í hennar mál. Endir leikritsins er mjög táknrænn en án þess að segja of mikið kemur í ljós hvort að Svanhvít nær stjórn á sínu eigin lífi á ögurstundu.

Ókyrrð er verk sem auðvelt er að mæla með, það er bráðfyndið, uppfullt af háði og talar beint inn í nútímann. Spennandi verður að sjá hvort það nær inn í leikhúsin en ég get ekki ímyndað mér annað en að það yrði stórskemmtileg sýning. 

Lestu meira

Gáskafull þeysireið Friðsemdar

Gáskafull þeysireið Friðsemdar

Fyrsta skáldsaga Brynju Hjálmsdóttur er nú komin út og ber heitið Friðsemd. Brynja er þekkt fyrir ljóðabækurnar Kona lítur við og Okfruman, sem báðar fengu góðar undirtektir. Því hélt undirrituð að hér væri um að ræða ljóðræna og upphafna skáldsögu en innihaldið kom...

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...