Nú er farið að líða að aðventunni og því tilvalið að taka því rólega, búa sér til heitt súkkulaði og leggjast í slökun með kósý bók. Jól í litlu bókabúðinni eftir Jenny Colgan, sem kom nýverið út í íslenskri þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur, er hugljúf og auðlesin bók sem hentar afar vel fyrir aðventulestur.

Bókin segir frá Carmen, ungri konu sem missir vinnuna þegar verslunin sem hún hefur unnið í frá unglingsaldri í skoska heimabænum sínum lokar dyrunum. Lítið er um atvinnu á svæðinu og neyðist hún því að áeggjan móður sinnar til að samþykkja að flytja tímabundið til systur sinnar Sofiu í Edinborg.

 

Af fornbókabúðum og ástarþríhyrningum

Í Edinborg fær Carmen herbergi í kjallara systur sinnar þar sem fyrir býr au pairstúlkan Skylar, gegn því að hún hjálpi til með börnin og aðstoði skjólstæðing Sofiu við að koma lúinni fornbókaverslun á réttan kjöl.

Það sem Carmen veit ekki þegar hún samþykkir tilboðið er að bókabúð sérvitringsins McCredie er á barmi gjaldþrots enda hefur hann aldrei sýnt því mikinn áhuga að selja bækur! Ef ekki tekst að bjarga búðinni fyrir jólin þá er líklega úti um hana og arfleið McCredie. Börn Sofiu þrjú eru einnig krefjandi og þarf Carmen að hafa sig alla við að takast á við nýtt hlutskipti í lífinu. Inn í þetta allt saman fléttast ástarlífið, en söguhetjan stendur frammi fyrir tveimur mönnum sem hafa áhuga á að vera í lífi hennar

Systraböndin styrkjast

Sagan er afar hefðbundin eins og flestar Jenny Colgan sögur. Carmen upplifir nýjar aðstæður, vex sem manneskja og styrkjast systraböndin og samband hennar við börn Sofiu. Það er þó ýmislegt sem er ekki ýkja trúverðugt við hana, fram kemur í upphafi sögu að þær systur hafi verið í litlu sambandi, Carmen öfundi systur sína af fullkomnu lífi hennar í Edinborg, lögfræðiferlinum, eiginmanninum og börnunum. Hún hafi því lítið hitt börnin og ekki sýnt þeim neinn áhuga í fortíðinni. Þrátt fyrir það nær hún þeim á mettíma á sitt band og verða hún og Phoebe, dóttir Sofiu, trúnaðarvinkonur. Ég er algjör sucker fyrir krúttlegum frænkusamböndum og var alveg til í þetta við lesturinn, en hugsaði eftir á að þetta hefði nú gerst ansi bratt. Sofia er einnig óvenju fljót að fyrirgefa margra ára samskiptaleysi, en kannski eru eldri systur bara þannig?

Jólalega Edinborg

Þrátt fyrir þessa annmarka gat ég ekki annað en hrifist af þessari bók, ég las hana í eiginlega einni setu og ástæðan fyrir því er stjarna bókarinnar, Edinborg. Jenny Colgan býr í þeirri borg og hefur áður skrifað um Skotland, en þá oft skáldaða staði eins og eyjuna Mure. Það skín í gegn að hún elskar heimabæ sinn, en eins og nafnið gefur til kynna gerist sagan í aðdraganda jólanna og er Edinborg einn jólalegasti staður í heimi. Borgin er í aðalhlutverki í bókinni og munu lesendur sem hafa farið til borgarinnar sjá hana ljóslifandi fyrir sér við lestur á meðan þeir sem hafa ekki komið munu líklega freistast til að kaupa sér miða út til að sjá þessa dýrindis borg. Ég meina væruð þið ekki til í heimsókn á þennan jólamarkað hér að neðan?!

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...