Barist við Miðgarðsorm

Þín eigin saga veiðiferðin

Skólarnir eru byrjaðir og fróðleiksfúsir nemendur flykkjast um götur og stræti á leið í sína menntastofnun. Þar á meðal eru nýir lesendur sem eru líklega hvað ákafastir í fróðleiksleit sinni. Þessi börn þarf að grípa og kynda undir áhugann með spennandi og grípandi bókum. Og hvað er betra en sagan af svakalegustu veiðiferð allra tíma?

Þín eigin saga: Veiðiferðin  er hluti af seríu léttlestrabóka Ævars Þór Benediktssonar, þar sem efni úr stærri og mun flóknari Þín eigin bókum er einfaldað og sett fram á hnitmiðaðan hátt. Söguþráðurinn er einfaldaður, persónur færri og val er skýrt og auðvelt. Þín eigin saga bækurnar eru nú orðnar níu talsins og ættu allir spennusjúkir krakkar á aldrinum 5-10 ára að geta fundið sér bók við hæfi úr bókaflokknum. 

 

 

Veldu rétt!

Í Veiðiferðinni getur lesandinn valið um að vera hinn hugrakki Þór, hinn hræddi Hymir eða hinn svangi Miðgarðsormur. Hymir og Þór stefna í veiðiferð, þótt Hymir hafi litla hugmynd um hvað eigi að veiða. Veður er slæmt, öldurnar háar og öldudalirnir djúpir. Og undir kænunni syndir Miðgarðsormur hungraður. Svo er það sett í hendur lesandans að velja rétta leið í gegnum bókina, að lifa af þessa hættulega veiðiferð eða ná að seðja hungrið. 

Þór er skemmilega hrokafullur, hefur óbilandi trú á eigin getu í þessari veiðiferð. Hann er hrokafullur og heillandi á sama tíma. Ósjálfrátt fer lesandinn að hafa trú á honum líka, en þó þarf að gæta sín. Ævar Þór verðlaunar sjaldan hroka í bókunum sínum og ásinn Þór er jafn mjúkur undir tönn og aðrir kjötbitar. Það getur Miðgarðsormur vottað, ef valið er rangt.

Þú ert þrumuguðinn Þór. Enginn er flottari en þú. Nema kannski spegilmyndin þín. (Bls. 58)

Lesið með börnum

Ég las bókina með fyrsta bekkingi heimilisins. Við höfðum hitað upp fyrir þessa bók með því að lesa Þín eigin saga: Börn Loka sem við eigum í bókahillunni hjá okkur. Aðallega vildum við rifja upp hver Miðgarðsormur er. Skemmtilegast var að rifja upp að ormurinn sá lítur út eins og rass og slefar mikið. En það var þegar hann var lítill. Í Veiðiferðinni hefur ormurinn síður fríkkað, en hann slefar aðeins minna og hefur stækkað gríðarlega. Fyrstu leið í gegnum bókina sáum við því í gegnum augu Miðgarðsormsins. 

Bókin er uppfull af húmor og gamni sem hittir vel í mark hjá lesendahópnum. En inn á milli gamansins leynist mjög spennandi saga og stundum var erfitt að velja leiðina í gegnum bókina af því lesandinn (fyrsta bekkingurinn) var einfaldlega of spenntur! Sagan er hrikaleg, hrollvekjandi og spennandi.

Og þá komum við að myndunum eftir Evönu Kisu, en hún hefur myndlýst allar Þín eigin bækur Ævars. Myndirnar eru fullar af hreyfingu og krafti. Þær vekja með lesandanum eftirvæntingu og hroll. Á nokkrum síðum í bókinni fá myndirnar að njóta sín til fulls. Til dæmis þar sem Þór sést sogast inn í gin Miðgarðsormsins, stormur geysar í bakgrunni, ótti skín úr augum Þórs og lesandinn finnur hér um bil hvernig straumurinn mun óhjákvæmilega draga Þór í átt að beittum tönnum ormsins. Að sama skapi sogast lesandinn inn í bókina og gleymir stund og stað. Sá er máttur góðs samspils mynda og texta. 

Léttlestrarbækur fyrir alla

Við mæginin sukkum inn í söguþráðinn og börðumst við Miðgarðsorm (eða Þór, það fer sko eftir sjónarhorninu) með storminn beljandi yfir okkur og öldurnar nærri gegnbleyttu okkur. Þegar við lokuðum bókinni og gerðum okkur grein fyrir að við vorum bara heima í rúminu (þótt okkur þætti saltlykt í loftinu eftir lesturinn) vorum við sammála um að það hefði verið skemmtilegast að vera Miðgarðsormurinn í gegnum söguna. Við ætlum svo hægt og rólega að fikra okkur í gegnum næstu léttlestrarbækur Ævars á næstu vikum, kannski nær hinn ungi lesandi að lesa þær sjálfur fyrir áramót. Þess væri óskandi. 

Léttlestrarbækur Ævars

Þín eigin saga veiðiferðin

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...