Þegar dansarinn og danshöfundurinn Sigríður Soffía Níelsdóttir var að klára MBA nám, með 14 mánaða barn á brjósti bjóst hún ekki við að fá krabbamein. Ég geri ráð fyrir að hún hafi heldur ekki búist við að skrifa um reynsluna bók og svo leik- og dansverk byggt á bókinni. En allt af þessu gerðist, og nú, sex mánuðum eftir frumsýningu, hefur lokasýning verksins Til hamingju með að vera mannleg dregið tjöldin fyrir í síðasta sinn á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu.

Ég hafði heyrt af bókinni en ekki lesið hana þegar ég fékk boð um að fara á lokasýningu verksins og fjalla í framhaldi um það. Ég hef sjálf enga reynslu af brjóstakrabbameini, þó ég, eins og við allflest, hafi misst ástvini úr einhverri tegund sjúkdómsins skæða. Í upphafi verks kynnti höfundur sig og flytjendur sýningarinnar. Hún bjó okkur undir kvöldstund fulla af tilfinningum, innliti í líf, sársauka og fegurð. Hún trúði okkur fyrir því að hún myndi aldrei getað dansað eins og hún gerði áður en hún veiktist. En hún dansaði samt fyrir okkur.

Brotið mömmuhjarta

Ég vissi ekki að krabbamein væri svona erfiður sjúkdómur. Þetta hljómar eins og heimskuleg játning, en hún er sönn. Ég hef auðvitað séð kvikmyndir þar sem fólk missir hárið og kastar upp, eins og höfundur verksins. En nákvæmar lýsingar á því sem sjúkdómurinn og meðferðin raunverulega felur í sér er átakanleg gjöf sem Sigga Soffía færir áhorfendum opnum lófa. Móðurhjartað brotnar þegar hún segir okkur að hún hætti með barnið sitt á brjósti því hún verði eitruð af geislameðferð. Að snerta barnið sitt, húð við húð, sé hættulegt fyrir barnið því mamma er eitruð. Svitnar út ónæmisbælandi efnum.

Nú veit ég ekki hvernig verkið leggst í fólk sem hefur sjálft greinst með brjóstakrabbamein og gengið í gegn um þennan erfiða sjúkdóm, en fyrir þau sem koma að reynslulaus er verkið kraftmikið og fallegt. Ég er einnig þakklát fyrir að verkið gerir ekki lítið úr sársaukanum og erfiðleikunum, úr því hversu ótrúlega hræðilegt krabbamein er, þrátt fyrir að þráður fegurðar fái að skína í gegn. Við fáum að heyra um þær miklu líkamlegu og andlegu kvalir sem fylgja sjúkdómsferlinu, allt frá hármissi, hugsanlegum naglamissi, þreytu, örmögnun, verkjum og öllu hinu.

 

Takk

Flytjendur verksins, Nína Dögg, Svandís Dóra, Ellen Margrét, Hallveig Kristín, Díana Rut og Sigríður Soffía standa sig ótrúlega vel. Þær fanga gleði, opinberun, átakanleika, húmor og áleitnar tilfinningar, túlka þær með öllum líkamanum og halda orkunni í hámarki alla sýninguna. Dansinn er fallegur og sterkur, hreyfingar líkamanna segja sögur af líkamlegum sjúkdómi, af kröftum sem þverra, af dansi sem lítur aldrei út eins og áður. Hári er sveiflað í sorgarhjúp yfir föllnum vini, fimmta útlimi höfundar sem var kvaddur í sjúkdómsferlinu.

Tónlistin, eftir Jónas Sen, er ótrúlega falleg og rammar inn tilfinningarnar, dansinn og orðin á töfrandi hátt. Píanóleikurinn er sérstaklega fallegur sem undirleikur við síðasta dans Siggu Soffíu fyrir hlé. Hljóðheimur verksins er sterkur og myndar góða heild, spilar inn á sorg, húmor og framandleika, auk þess sem ljósin eru nýtt á skapandi og fallegan hátt og vídd sviðsins fjölbreytt. Sviðsmynd og leikmunir eru notaðir til skiptis sparlega eða mikið og alltaf fylgir notkun þeirra anda verksins hverju sinni, en leikritið tekur á sig ótalmörg form og skiptir um ham, enda í raun flutningur á ljóðabók þar sem hver blaðsíða er sinn eigin heimur sem myndar þó magnaða heild.

Takk fyrir að skrifa þetta verk og takk fyrir að setja það á svið. Takk fyrir að hleypa okkur inn í heim krabbameins, sársauka, myrkurs, fegurðar og vonar. Takk fyrir að sýna okkur nístandi sársauka móðurhjartans, takk fyrir að leyfa okkur að hlæja líka. Takk fyrir að breyta þessari hræðilegu lífsreynslu í listaverk. Takk fyrir að vera mannleg.

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...