Hildi Knútsdóttur þarf vart að kynna en hún hefur unnið til ótal verðlauna fyrir bækur sínar, til dæmis Fjöruerðlaunin (2019), Íslensku bókmenntaverðlaunin (2017) og Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar (2019). Þríleikurinn hennar Ljónið, Nornin og Skógurinn hlaut svo fjölda tilnefninga. Skrif hennar fyrir ungmenni hitta alltaf í mark hjá mér og því varð ég full eftirvæntingar þegar fréttir bárust af ungmennabókinni Hrím. Hildur er virkilega flink að skapa nýja söguheima líkt og hún gerði í Nornin og Skógurinn, og söguheimurinn í Hrím veldur svo sannarlega ekki vonbrigðum.

Hin sextán vetra Jófríður býr á Íslandi fjarri okkar veruleika. Fólk hópast saman í skara sem flakka á milli staða fyrir norðan, skari Jófríðar dvelur í vetrarbúðum á Mývatni en sumarbúðum í Fellskógi og eyðir haustunum á Húsavík ásamt hinum skörunum.

Veturinn er gífurlega þungur og stórhættulegur því þá ráfa ógnvænglegar skepnur um ísbreiðurnar, hrímsvelgirnir. Þá hefur enginn séð með eigin augum og lifað af til að segja frá. En söguheimurinn er auðvitað ekki aðalatriðið þó að hann sé stórkostlega áhugaverður. Lífsbarátta Jófríðar og fjölskyldu hennar er hörð en inn á milli leynast venjuleg vandamál unglingsstúlku. Tveir drengir keppast um ástir hennar, vináttubönd slitna og svo eru það áhyggjur af framtíð hennar innan skarans sem valda henni hugarangri.

Glæný veröld á þekktu landi

Það kemur aldrei fram af hverju Ísland er svona gjörbreytt, það er ekki aðalmálið eins og var til dæmis til umfjöllunar í Norninni þar sem loftslagsváin hafði hækkað yfirborð sjávar og valdið fólksflutningum og alls kyns óskunda í heiminum. Lesandinn fær í raun enga útskýringu á þessum þungu vetrum og hví mannfólkið þarf að lifa án tækniþróunar nútímans sem við þekkjum. Þetta er glæný veröld þó að lesendur þekki öll kennileiti, enda eru þau öll til í alvöru. Nöfn persónanna eru einstök og sérsniðin fyrir bókina, bestu vinir Jófríðar heita Eirfinna og Bresi, foreldrar hennar Jóra og Karki. Fjöldi annarra skapandi nafna kemur fyrir og öll passa þau nákvæmlega inn í þessa köldu hörðu veröld.

Útópía í dystópíu

Vert er að minnast á það að Jófríður er kennd við móður sína og er því Jórudóttir, en kynjahlutverk innan skaranna eru ólík þeim sem má telja „hefðbundin“ eða „rótgróin“ í nútímanum. Konurnar veiða til jafns við karlana, þær eru járnsmiðir og algjör hörkutól. Allir þurfa að leggja hönd á plóg til að vernda skarann og skiptir því engu máli af hvaða kyni þú ert. Einnig má ekki finna neina fordóma gagnvart því hvoru kyninu fólk laðast að og kynlíf virðist ekki vera neitt stórmál. Samfélagið er því að einhverju leiti útópíusamfélag út frá samfélaginu sem við þekkjum í dag þar sem fordómar og hatur geysar gegn öllum þeim sem eru hinsegin. Á sama tíma er þessi harðneskjulega og ískalda veröld þeirra einnig dystópía en dauðsföll eru tíð, enda er náttúran banvæn og skepnurnar sem lifa í þessum heimi risavaxnar og drepa auðveldlega auma mannveru.

Ástin og þroskasagan í forgrunni

Bókina má flokka sem furðusögu eða fantasíu og vegna þess setti ég mig í ákveðnar stellingar í byrjun lestursins. Af einhverjum ástæðum bjóst ég við miklum hasar og óförum líkt og er algengt innan þessa forms, en bókin er lágstemmdari en ég bjóst við og meiri áhersla er lögð á þroskasögu Jófríðar, hversdagslíf skaranna og auðvitað ástarsöguna.  Það er saga sem við þekkjum öll, um leið og hún eignast elskhuga kemur í ljós að besti vinur hennar hefur ávallt borið tilfinningar til hennar og byrjar að forðast hana. Heimur Jófríðar breytist hratt og á sama tíma veikist faðir hennar og ábyrgðin á hennar herðum þyngist. En þrátt fyrir þetta allt er auðvitað líka að finna í henni hættur og ógnvænlega atburði.

Hrím er metnaðarfull og hrífandi frásögn af lífi á köldu og harðneskjulegu Íslandi. Persónusköpunin er einkar sterk og þroskasaga aðalsöguhetjunnar er í kastljósinu. Bókin er lágstemmdari en ég bjóst við en í staðinn fær lesandinn að njóta ferðalagsins og kynnast rólega þessari nýju töfrandi veröld.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...