Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason.

Stofa L220 er lítil og gluggalaus. 40 stólum hefur verið raðað upp að tveimur veggjum kassalaga rýmisins, utan um lítið boltaland með rennibraut, dýnum og, viti menn, litríkum boltunum sem landið heitir eftir. Systkinin Dýrunn og Unnar, tíu og ellefu ára, ganga berserksgang í rennibrautinni, heimta að fá síma og kalla Sóleyju, 20 ára kasóléttan starfsmann boltalandsins, tussu. Hinn rólegi Pétur Karl, eða Pissi Kalli, átta ára, situr og dundar sér og reynir sennilega að pissa ekki í sig ef gælunafnið hefur þá merkingu sem mann grunar. Hannes er svo fjögurra ára og safnar gulum boltum í gríð og erg. Allt er sem sagt eins og það á að vera í boltalandi. Þangað til hvellurinn kemur.

Eldgos? Jarðskjálfti? Stríð?

Einungis getgátur sem við fáum aldrei svarið við, enda skiptir það í raun ekki máli. Það sem skiptir máli er að nú er Sóley föst í boltalandi með börnunum fjórum og litla barninu í maganum. Og góð ráð eru svo sannarlega dýr.

 

Hvað myndir þú gera?

Í sannleika sagt held ég að við myndum flest öll gera það sem Sóley gerir í þessum aðstæðum og missa vitið. Það eina sem hljómar verra en að vera óléttur, tvítugur og fastur í boltalandi að eilífu, er að deila þeirri vítisdvöl með fjórum börnum. Við fylgjumst með Sóleyju og börnunum reyna að halda í mennsku sína og líf en breytast svo hægt og bítandi í þau dýr sem við erum öll inn við beinið.

Verkið skiptist eiginlega í tvo hluta, en fyrri hlutinn staðsetur okkur, kynnir persónurnar og vána óþekktu sem herjar að. Reglum samfélagsins er hlýtt, og Sóley er sjálfkrafa í valdastöðu sökum aldur síns. Það að pissa í sig er enn álitið samfélagslega óviðeigandi og enn er traust sett á kerfi sem hingað til hafa gagnast börnunum og Sóleyju, innviði eins og lögreglu og hjálparsveit og mömmur og pabba. Það markar endalok þessa „venjulega“ hluta verksins þegar persónur syngja draugalega fallega útgáfu af Snert hörpu mína, og vekur það með  áhorfendum óhug þegar áhersla er lögð á línuna „og sumir verða alltaf lítil börn.“ Nú vitum við í hvað stefnir, þessi litlu börn munu ekki fá að vaxa úr grasi, enginn mun bjarga þeim. Og hvað gerist þá?

Chaos Reigns

Hafiði séð Antichrist eftir Lars von Trier? Muniði þegar „Adam“ og „Eva“ eru gengin aftur inn í glataða paradísina og eru við það að missa tengslin við veruleikann. Muniði þegar refurinn brýtur fjórða vegginn og tilkynnir áhorfendum djúpri röddu að glundroði ríki (e. chaos reigns)? Það er akkúrat það sem gerist eftir að söngatriðinu líkur. Persónur verksins fara að sjá ofsjónir, Pétur Karl deyr, en hann er með sykursýki. Sóley verndar líkið hans frá hinum börnunum eins og reið ljónynja með ungann sinn. Þar til hún verndar það ekki lengur. Þar til það fer að lykta svo vel. Og barnið í maganum er svo svangt. Börnin eru svo svöng.

Sýrutripp til helvítis

Þegar Sóley og eftirlifandi börnin hafa étið Pétur Karl er ekkert eftir sem heldur þeim mennskum. Þau lykta ógeðslega, þau búa í heimi úr plasti, beinum og skít. Þau hafa misst vonina um björgun, um líf utan boltalands. Nú munu hinir sterkustu lifa af og það gildir að éta eða vera étinn. Það þarf ekki lengur að bíða eftir að einhver deyi af náttúrulegum orsökum til að éta hann, það þarf bara að bíða færis.

Sviðsmyndin er mögnuð og sterk, lítið rýmið skapar innilokandi andrúmsloft sem hentar fullkomlega í flöskuverki þar sem enginn kemur og enginn fer. Hljóðheimurinn er magnaður og nýttur til að bæði hrífa áhorfendur með tónlist og röddun og hræða úr honum líftóruna með skyndilegum höggum og hávaða. Þá er ég sérlega hrifin af notkun ljósa og málningu sem lýsir í myrkri til að skapa ókennilegt andrúmsloft sem og dulin skilaboð sem birtast á veggjum, fötum og boltum, meira að segja tönnum. Ég hefði viljað vera eftir í rýminu eftir sýningu til að lesa allt sem stóð skrifað á veggina og sást bara stundum, og skoða betur myndirnar sem voru teiknaðar, en það voru eins og orð og myndir skilin eftir af persónum verksins, innilokuðum í eilífu boltalandi. Meðal þess sem ég náði að sjá á veggnum eru ristur sem mæla fjölda, fjögur bein strik og eitt í gegn, aftur og aftur, og ef maður lítur á sem svo að það hafi verið notað til að mæla daga hafa þau verið innilokuð í meira en tvo mánuði. En þar sem þau vita ekki muninn á nóttu og degi í gluggalausu rými sem er stundum í svartamyrkri og stundum lýst af rafmagni, er engin leið að vita hvað er verið að mæla í raun, ef eitthvað.

Og það er listin við verkið, hversu mikið er skilið eftir ósagt og áhorfendum leyft að ákveða sjálfir, eða skilja eftir opið í huga sér.

Dásamlegur metnaður og hæfileikar

Leikararnir eru gríðarlega sterkir og orkumiklir og gefa sig alla í hlutverk sín. Það er dásamlegt að sjá ungu leikarana bregða sér í hlutverk barna, en þau ná þeim ótrúlega vel. Ég trúi alveg að allt þetta fólk á þrítugsaldri sé 4-11 ára. Taktarnir, svipbrigðin, hreyfingarnar og stellingarnar eru svo ótrúlega „spot on“ að það hálfa væri nóg, en þau Ágúst Örn Börgesson Wigum, Jakob van Oosterhout, Katla Þórudóttir Njálsdóttir og Mikael Emil Kaaber leika börnin, og Berglind Alda Ástþórsdóttir fer með hlutverk Sóleyjar. Og rosalega er ég spennt að sjá þessa leikara í fleiri verkum í framtíðinni. Þvílíkir hæfileikar, metnaður og harka, leikni með texta, flutning, söng og beitingu líkama.

Höfundar verksins og leikstjóri, Egill Andrason, ásamt meðhöfundi og aðstoðarleikstjóra, Melkorku Gunborgu Briansdóttur standa sig mjög vel í að ná því besta fram í leikurunum sínum og hafa skilað af sér sterku og öflugu verki sem gaman væri að sjá sett upp aftur eftir nokkur ár, en verkið er tímalaust og getur talað inn í hvaða samtíma sem er. Er ekki alltaf einhver að svelta, einhver að missa börn, vernda börn og byltingar að borða börn einhvers staðar í heiminum?

Ef ég ætti að setja út á eitthvað væri það kannski að ég myndi vilja meira gor, en ég er bara ógeð, svo það er óþarfi að hlusta á mig. Ég held að það gæti verið sterkur leikur að ganga gjörsamlega fram af áhorfandanum í ógeði, svolítið eins og í Rústað eftir Söruh Kane, sem verkið minnir óneitanlega á með sínum lítt útskýrðu hamförum sem festir fólk í vanda og sér mannúðina leysast upp eða myndast. Aðstandendur verksins beita málningu og litum, ljósum og sjónhverfingum til að skapa blóð og ógeð og gera það ofsalega vel, og má  færa rök fyrir að það sé mun listrænni leið að markmiðinu en að henda bara innyflum á sviðið þar til allir gubba. En samt. Stundum vil ég bara sjá innyfli á sviðinu og þurfa að hlaupa út í miðju verki. Ég hef fulla trú á að Egill Andrason muni bjóða mér upp á eitthvað svoleiðis seinna á ferlinum, og ég býð spennt eftir að sjá meira frá öllu þessu æðislega hæfileikafólki.

Einnig eiga skilið hrós:

Dramatúrg: Sölvi Viggósson Dýrfjörð.

Lýsing: Sölvi Viggósson Dýrfjörð og Egill Andrason.

Aðstoð við sviðshreyfingar: Sara Lind Guðnadóttir.

Aðstoð við leikmynd og búninga: Elísa Þóreyjardóttir og Kári Þór Barry.

Grafík: Dýrunn Elín Jósefsdóttir.

Aðstoð við tónlist og hljóð: Una Mist Óðinsdóttir.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...