Fallegar bækur fyrir börn í samkomubanni

Það eru vægast sagt undarlegir tímar og börn og unglingar finna fyrir því. Það er skrýtið að skólahald sé ekki eins og það á að vera. Það er kvíðavaldandi að heyra út undan sér fréttir af veiru sem breiðist hratt út og þá er dýrmætt að geta sökkt huganum í eitthvað sem er fallegt, róandi eða bara ógeðslega skemmtilegt. Að hverfa inn í yfirgefinn rósagarð á dularfullu sveitasetri í Englandi, fara með Ronju ræningjadóttur út í skóg eða á ólöglegar fasanaveiðar með Danna heimsmeistara. Þess vegna hefur Lestrarklefinn tínt saman lista yfir bækur sem henta börnum og unglingum á þessum óvissutímum.

[hr gap=”30″]

Ró eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur

Ró er hugleiðslubók fyrir börn sem kom út fyrir jólin. Eva Rún skrifar textann í bókinni sem inni heldur meðal annars kennslu í hugleiðslu og nokkrar hugleiðsluæfingar fyrir börn. Fullorðnir hafa þó ekki síður gott af því að glugga í bókina með börnunum sínum. Myndir Bergrúnar Írisar fylla bókina svo enn frekar af þeirri ró sem þarf að einkenna líf okkar í dag. Falleg bók í alla staði. (KLJ)

 

 

 

 

[hr gap=”30″]

Hamingjustundir Dinnu eftir Rose Lagercrantz og Evu Eriksson

Dinna telur hamingjustundir sínar þegar henni líður illa. Hún telur upp allt það sem hefur vakið henni hamingju og gleði og það er bara nokkuð margt. Svo byrjar Dinna í skólanum og það er alls ekkert auðvelt. Hamingjustundir Dinnu er yndisleg bók um hversdagslíf sex ára stelpu. Mynskreytingarnar í bókinni segja ekki síður söguna en textinn. Ég veit um börn sem klára bókina og byrja á henni aftur. Hún er ekki spennandi, heldur einfaldlega dásamlega falleg saga af hversdeginum. Ekki láta þessa fram hjá ykkur fara. (KLJ)

 

 

 

[hr gap=”30″]

Liðið hans Lúlla og framhald eftir E.W. Hildick

Þessar bækur eru orðnar ansi gamlar og því spurning hversu vel þær gangi ofan í börn í dag (og bókasöfnin lokuð, svo nú eru góð ráð dýr með að útvega eintök). Þær komu mér þó skemmtilega á óvart þegar ég var níu ára. Bækurnar fjalla um strák í Englandi sem ræður sig sem aðstoðarmann mjólkurpósts sem heitir Lúlli og er í meira lagi sérvitur. Bækurnar eru fjórar talsins og ná allar þessu góða jafnvægi milli spennu og léttleika, þó dramað fari reyndar vaxandi með hverri bók og síðasta bókin endar beinlínis á mannráni. En í þeirri fyrstu eru það bara hermdarverk á borð við gullfiska í mjólkurflöskum sem hrjá hinn úrilla mjólkurpóst og vaska aðstoðarmenn hans. (RH)

[hr gap=”30″]

Goggi og Grjóni eftir Gunnar Helgason

Þetta er fyrsta barnabókin sem Gunnar skrifaði. Frábær saga um þá félaga og ærslafullar uppátektir þeirra. Þessi saga er eitt hláturskast út í gegn og ekki er framhaldið síðra, Goggi og Grjóni, vel í sveit settir. Það er alveg sama hvert leið þeirra félaga liggur, alltaf gerist eitthvað skondið og skemmtilegt og ósjálfrátt fer manni að þykja vænt um þessa gaura. Frábær bók til upplesturs. (LM)

 

 

 

 

[hr gap=”30″]

Bækur Roald Dahl

Roald Dahl hefur samið ótal bækur þar sem krakkar eru í aðalhlutverkum og leysa málin. Þær eru kjánalegar, fyndnar og virkilega skemmtilegar. Kver bókaútgáfa hefur á síðustu misserum unnið að því að þýða bækurnar upp á nýtt og aðlaga þær þannig málfarslega nútímanum. Nú þegar hafa til dæmis komið út Nornirnar, Matthildur, Tivstur og Basta og Risastóri krókódíllinn svo eitthvað sé nefnd. Bækur Dahl eru tímalaus skemmtun. (KLJ)

 

 

 

 

[hr gap=”30″]

Konungur þjófanna eftir Corneliu Funke

Konungur þjófanna kom út á íslensku fyrir kannski áratug eða meira. Bókin er í senn virkilega falleg, spennandi og sorgleg. Henni tekst líka á einhvern ótrúlegan hátt að sameina raunsæislega frásögn af hópi munaðarlausra barna sem búa í yfirgefnu bíóhúsi í Feneyjum við dularfullt andrúmsloft og töfrum slungna atburði. Þýsku bræðurnir Prosper og Bo flýja saman til Feneyja eftir að móðir þeirra deyr. Þeirra stærsti ótti er að enda í forsjá móðursystur sinnar, sem ætlar að skilja bræðurna að. Við sögu kemur vinalegur einakspæjari, ískyggilegur greifi, gráðugur forngripasali, hópur af börnum sem standa saman í gegnum þykkt og þunnt og svo auðvitað hin dularfulla hringekja miskunnsömu systranna. (RH)

 

 

[hr gap=”30″]

Leynigarðurinn eftir F. Eliza Hodgson Burnett

Þegar bókaormurinn Matthildur í samnefndri bók Roald Dahls var beðin álits um hvaða bækur væru þær bestu á barnadeild bókasafnsins, þá nefndi hún Leynigarðinn og það er gild ástæða fyrir því. Heimurinn sem birtist lesandanum í Leynigarðinum er sannarlega fjarlægur, bókin hefst í banvænni plágu á Indlandi og endar í blómstrandi rósagarði í Englandi við upphaf 20. aldar. Andlegt ferðalag Mary litlu frá vanræktu dekurbarni yfir í hamingjusama stúlku hefur staðist tímans tönn og er enn þann dag í dag ótrúlega heillandi. Risastóra yfirgefna sveitasetrið, gráturinn sem þar ómar á nóttunni, dýrin og fólkið, og ekki síst leynigarðurinn sjálfur. Þetta er góður og hæfilega spennandi staður til að leita til þegar raunveruleikinn verður aðeins of ágengur. (RH)

 

 

[hr gap=”30″]

Bækur Astridar Lindgren

Þetta segir sig nú eiginlega sjálft! Og ekki skemmir fyrir að Lindgren samdi bækur fyrir víðan aldurshóp.

 

 

 

 

 

 

[hr gap=”30″]

Þríleikur Guðrúnar Helgadóttur

Það er hægt að mæla með bókum Guðrúnar Helgadóttur við öll tilefni. Þessar þrjár, Sitji Guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni,  eru þó í sérstöku uppáhaldi og hafa að mínu mati elst mun betur en bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna. Fylgst er með systkinahóp í sjávarplássi á tímum seinni heimstyrjaldar, þegar dátar spásseruðu um plássið og nunnur báðu guð að hjálpa þeim. Yndisleg lesning um samskipti fjölskyldu, þar sem pabbinn er sjómaður og afi kúrir á loftinu og pissar í kopp. Bráðfyndin og orðheppin saga enda Guðrún einn af okkar dáðustu barnabókarithöfundum allra tíma. ( LM )

 

 

 

[hr gap=”30″]

Mómó eftir Michael Ende

Mómó fjallar um lítinn bæ á Ítalíu þar sem tilveran fer skyndilega á hvolf þegar dularfull öfl byrja að stela tímanum frá fullorðna fólkinu. Þetta eru gráir menn með vindla, skjalatöskur og harðkúluhatta, sem benda fullorðna fólkinu á ýmsar leiðir til að spara tíma, með því að byrja að flýta sér meira. Raunin er tíminn sem átti að sparast birtist aldrei og fullorðna fólkið þarf að fara hraðar og vinna meira með hverjum degi. Boðskapur bókarinnar er sá að við þurfum einfaldlega að læra að njóta þess sem við erum að gera hverju sinni og finna gildi í því, því við erum aldrei „búin“. Þetta gerir bókina að upplögðum samlestri fullorðinna og barna þessa dagana, því þar er margt sem hægt er að velta fyrir sér út frá þeirri miklu samveru en jafnframt takmörkunum á frelsi sem allir upplifa í dag. (RH)

 

 

[hr gap=”30″]

Didda Dojojong og Dúi dúgnaskítur eftir Einar Kárason

Bókin er spennusaga sem fær hárin til að rísa á höfðinu á lesandanum. Hún gerist á mun einfaldari tímum í lífi barna en nú eru uppi, eða fyrir alla tölvuvæðinu, snjallsíma og slíkst alls. Hún gerist á tímum þar sem mæður þurftu að góla á börnin í kvöldmat af útitröppunum þar sem börnin voru upptekin í leikjum og allskyns uppátækum.  Didda og Dúi komast á snoðir um þjófapakk sem hefur látið greipar sópa í hverfinu og saman ásamt hverfisgengjum í kring taka þau málin í sínar hendur. Það er svona Djöflaeyja-fílíngur í þessari bók. Hverfisgengin eru sífellt upp á kant, endalaus stríð og hasar þar til aðstæður gera það að verkum að óvinir snúa bökum saman og allir leggjast á eitt. Einar er snillingur í að búa til ógleymanlega karaktera og hnyttin samtöl og þessi bók sýnir svo ekki sé um villst að Einar skilur krakka og þeirra tungumál og hefði hann svo sannarlega mátt gera meira af því að skrifa fyrir börn. Ef þið viljið vita meira um söguna birtist umfjöllun um hana hér í Lestarklefanum fyrir tæplega ári. (LM)

 

[hr gap=”30″]

Kattasamsærið eftir Guðmund Brynjólfsson

Ég hef lengi ætlað mér að skrifa færslu um þessa bók en ég hef þó aðeins minnst á hana áður. Petra Pott er lítil læða sem býr hjá barnafjölskyldu og þarf að horfast í augu við þann ótta á hverjum degi að sennilega verði hún send í “sveit”.  Þá kemur til sögunar gamall og lífsreyndur fressköttur, Hamlet að nafni og vinur hans. Saman leggja þau á ráðin og reyna að bjarga Petru frá þessu hörmulegu örlögum sem virðast óumflýjanleg. Bókin er bráðskemmtileg og fyndin og mæli ég sérstaklega með henni til upplestur fyrir börn. Kattasamsærið tekur á allskyns hlutum eins og þeirri ábyrgð sem fylgir því að fá sér gæludýr, vináttu og trausti. Virkilega falleg saga, bæði fyrir börn en ekki síður fyrir fullorðna. (LM)

 

 

 

 

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...