Næturskuggar er nýjasta bók Evu Bjargar Ægisdóttur en hún kom út í jólabókaflóðinu í fyrra. Eva Björg sló í gegn með bók sinni Marrið í stiganum sem hlaut glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn árið 2018. Í kjölfarið gaf hún út bókina Stelpur sem ljúga en Næturskuggar er þriðja bók hennar í seríunni um lögreglukonuna Elmu sem starfar á Akranesi.

Bókin hefst á því að ónefndur maður vill færa lík en áttar sig á því að það er furðulega erfitt að losa sig við lík. Í kjölfarið lætur ungur maður lífið í dulurfullum eldsvoða á Akranesi og rannsóknarlögreglukonan Elma fær málið á sitt borð. Á sama tíma og Elma þarf að kljást við þetta flókna mál eiga atburðir sér stað í einkalífi hennar sem gera það að verkum að líf hennar mun aldrei verða samt.

Tvöfalt líf bæjarbúa

Næturskuggar er þétt og góð glæpasaga. Það eru margir þræðir í sögunni, í fyrstu virðist andlát unga mannsins tengjast viðskiptum föðursins, en svo ratar sagan í fjölmargar aðrar áttir. Það voru töluvert margar persónur og það tók mig smá tíma að átta mig á öllum persónum og leikendum. Á milli kafla sem tengjast rannsókninni fær lesandi innsýn í einkalíf bæjarbúa sem margir hverjir lifa tvöföldu lífi. Auk þess virðist sem draugur ásæki bæinn.

Það sem einkennir bækur Evu Bjargar er góð persónusköpun. Persóna Elmu er trúverðug ung kona að feta sín fyrstu spor innan lögreglunnar. Teymið hennar í lögreglunni samanstendur af góðu fólki sem vinnur í átt að sameiginlegum markmiðum og er skemmtilegt að fylgja þessu teymi eftir. Eva Björg ólst upp á Akranesi og nýtir bæinn vel sem sjónarsvið fyrir glæpasögur enda tengjast margir í þessu litla bæjarfélagi. Litlir hlutir eins og að láta Elmu ráðfæra sig við móður sína um hluti sem gerðust í bænum á árum áður er raunsæ og skemmtileg leið til að vekja athygli á smæð samfélagsins.

Mér þótti Marrið í stiganum mjög góð frumraun og fannst Stelpur sem ljúga ennþá betri. Það er virkilega gaman að lesa bók eftir glæpasagnahöfund sem bætir sig með hverri bók. Með Næturskuggum sýnir Eva Björg að hún hefur gott vald á flókinni fléttu. Ég tel að Næturskugga sé hægt að nálgast sem sjálfstætt verk, en hennar sé best notið ef maður er búin að lesa fyrri bækurnar tvær. Eva Björg sagði í dögunum í viðtali við Fréttablaðið að hún stefndi að því að gefa árlega út glæpasögu og hlakka ég til að halda áfram að lesa bækurnar hennar.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....