Benný Sif Ísleifsdóttir, þjóðfræðingur, sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu Grímu árið 2018 og hefur verið afar afkastamikil síðan þá og gefið út fimm bækur á þremur árum. Barnabækurnar eru tvær: Jólasveinarannsóknin og Álfarannsóknin. Hún fylgdi svo skáldsögunni Grímu á eftir með hinni dásamlegu Hansdætrum fyrir síðustu jól, sem var meðal annars tilnefnd til Evrópsku bókmenntaverðlaunanna og nú gefur hún út bókina Djúpið.

Vestfirðir áttunda áratugarins

Allar þrjár skáldsögur Bennýjar Sifjar eiga það sameiginlegt að vera sögulegar og hefur hún þannig sameinað þjóðfræðinginn og rithöfundinn, þetta tókst sérlega vel í Hansdætrum þar sem höfundur setti sig 100% inn í íslenskar aðstæður í kringum aldamótin 1900. Að þessu sinni erum við nær nútímanum: árið er 1975, kvennaárið, og farið er að bera á brothættri byggð úti á landi. Hin tvítuga Valborg, líffræðinemi við háskólann, ræður sig ásamt öðru vísindafólki í sumarstarf hjá Búseturöskun ríkisins í Djúpinu á Vestfjörðum. Tilgangur verkefnisins er að efla mannlíf og atvinnu í samstarfi við heimamenn. Valborg er góð á bókina, enda dúxaði hún í menntaskóla, en á erfiðara með mannleg samskipti. Yfir sumardvöl í heimavistarskóla Djúpmanna tekst Valborg á við sumarstarfið og sjálfan sig og tekur miklum breytingum sem manneskja.

Karlaheimur

Bókin er vel skrifuð. Rétt eins og í fyrri sögulegu skáldsögunum passar höfundurinn að allt frá málfari til lýsinga á fatnaði sé í takt við tíðarandann. Benný Sif er jafnframt á heimavelli að skrifa um unga konu sem er að fóta sig í heimi sem er ennþá afar karllægur; Valborg fær sama starf og karlmaður, en er svo útilokuð frá fundum þar sem verkefni sumarsins eru rædd. Hún má taka þátt í líffræðilegum mælingum en á sama tíma er ætlast til þess að hún, frekar en starfsbræður hennar, helli upp á kaffi að mælingum loknum. Ólíkt söguhetjunum í Grímu og Hansdætrum er Valborg hins vegar mjög óörugg með sig. Hún tranar sér ekki fram á sama hátt og þær. Holdarfar hennar gegnir þarna lykilhlutverki og má alveg vera hér með efnisviðvörun til að vara lesendur við lýsingum hennar á óánægju með líkama sinn.

Persónusköpunin er góð í Djúpinu en mér fannst kvenpersónurnar standa upp úr. Sérstaklega þótti mér Ellen Ellerts, módel og jógí sem virðist að öllu leyti andstæða Valborgar í byrjun, skemmtilegur karakter og fannst mikið púður lagt í samband þeirra Valborgar og hvernig það þróast yfir sumarið.

Djúpið er áhugaverður spegill inn í horfinn tíma þó að ýmislegt í sögunni eigi enn við. Konur berjast enn fyrir plássi og deilur geysa enn um náttúruvernd. Ég hreifst meira af sögunni í Hansdætrum en er þó viss um að aðdáendur Bennýjar Sifjar muni njóta þess að lesa Djúpið.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...