Það eru forréttindi að búa í landi þar sem bókaútgáfa blómstrar líkt og um margra milljóna manna þjóðfélag væri að ræða þrátt fyrir raunverulega smæð þjóðarinnar. Þar sem keppnir eru haldnar til að finna nýja höfunda hvort sem það er fyrir prentaðar bækur, rafbækur eða hljóðbækur. Upp á síðkastið hafa raddir af erlendum uppruna einnig bæst í hóp útgefinna rithöfunda og því ber sérstaklega að fagna. Við höfum fjallað um margar bækur eftir nýja höfunda á undanförnu ári. Höfunda sem eru að taka sín fyrstu skref í útgáfu og okkur langar að beina kastljósinu að þeim í þessum pistli.
Margrét S. Höskuldsdóttir
Það dró til tíðinda þegar Forlagið gaf út spennusögu í sumar fremur en í jólabókaflóðinu. Spennusagan sem mætti einnig kalla draugasögu, nefnist Dalurinn og er frumraun Margrétar S. Höskuldsdóttur. Bókin segir frá Sif sem heldur ein síns liðs vestur á firði í sumarbústað foreldra sinna, sem stendur í eyðidal, til að leggja lokahönd á meistararitgerð. Planið er að hún verði þarna ein og sambandslaus í tvær vikur. Hún lætur vita af sér daglega með símtali til foreldra sinna frá stað með símasambandi í göngufæri frá bústaðnum en er að öðru leyti einangruð.
Bókin hefst á frásögn fá 18. öld af ungri konu að nafni Gunnhildur sem drukknar í bátsferð, en virðist svo ganga aftur. Síðan tekur nútíminn við þar sem Sif er einmitt að skrifa meistararitgerð í þjóðfræði um drauga og vætti dalsins sem hún er stödd í, en sagan af Gunnhildi er ein þekktasta draugasaga svæðisins. Sif hefur alltaf verið róleg í dalnum en í þessari útlegð byrjar eitthvað að raska ró hennar. Henni fer að líða illa í einverunni og býður ókunnugum erlendum ferðamanni sem hún rekst á húsaskjól. Á sama tíma hefur lögreglan leit að erlendri ferðakonu.
Heilt yfir er Dalurinn spennusaga sem óhætt er að mæla með, sérstaklega í bústaðinn eða annan einangraðan stað ef lesandinn vill leyfa hárunum að rísa. En hér má lesa nánar um bókina.
Heiða Vigdís Sigfúsdóttir
Það er vel við hæfi að nefna í þessum pistli bókina Getnað sem vann keppni Forlagsins Nýjar raddir í ár. Þetta er fyrsta bók höfundar. Getnaður, sem kom út í maí, er fjórskipt frásögn fjögurra persóna sem hver er sögumaður síns hluta. Sævar er ástfanginn ungur hjálparsveitarmaður sem elskar Friends. Gerður er ástfangin bankakona sem langar í barn og hefur engar áhyggjur af peningum. Nanna er áhyggjufull systir og Sigurður hefði haft gott af aðeins meiri ást og natni frá höfundi og yfirlesara til að verða jafn heilsteyptur og hinar persónurnar. Sjöfn hreyfst af bókinni og segir í dómi sínum meðal annars: „Það sem snerti mig einna mest eru lýsingar á innra hugarheimi sem passar ekki endilega við yfirborðið, það sem er ósagt og þær gjár sem ekki er hægt að brúa. Samtöl eru lifandi og skemmtileg, sagan verður aldrei langdregin eða leiðigjörn og persónurnar eru mjög fullmótaðar og ljóslifandi.“ En hér má lesa meira um bókina.
Jakub Stachowiak
Næturborgir er fyrsta ljóðabók Jakubs Stachowiak sem er af pólskum uppruna en yrkir á íslensku. Bókin kom út á síðasta ári og hlaut hann Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir hana. Skáldið heldur því fram í upphafi að hann hafi verið mállaus áður en hann flutti til Íslands en fundið rödd sína undir leiðsögn norðurljósanna. Og hiklaust býður hann lesandanum inn í nýja heiminn sem tungumálið hefur opnað honum. Victoria var ekki vonsvikin með bókina. Hún segir bókina sannkallaðan gimsteinn í íslenskum og innflytjendabókmenntum á Íslandi. „Í ljóðum hans Jakubs er allt heildstætt og innbyrðis fullkomið að innihaldi, hin æðsta samfelldni. Það er fágun í ljóðum Jakubs en einnig er einfaldleiki frumlegur; alls staðar er hann óyggjandi trúr sjálfum sér og reynir ekki að herma eftir neinum,“ segir Victoria. En hér má lesa nánar um bókina.
Ingólfur Eiríksson
Stóra bókin um sjálfsvorkunn kom út síðasta haust og er fyrsta skáldsaga Ingólfs Eiríkssonar. En áður hafði hann sent frá sér ljóðsöguna Klón: Eftirmyndasaga og ljóðabókina Línulega dagskrá. Ingólfur hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir skáldsöguna. Bókin segir frá Hallgrími, ungum manni á þrítugsaldri sem í kjölfar sambandsslita hrökklast heim úr leiklistarnámi í stórborg í Bretlandi til að fara á geðdeild. Sagan hefst í miðri atburðarrás þar sem Hallgrímur er á flugvellinum á leiðinni heim og strax á fyrstu síðu kemur fram að í gær hafi fimm ára sambandi þeirra Aðalheiðar lokið og hann sé nú á leið á geðdeild. Þegar heim er komið er ljóst að Hallgrímur þjáist af sjálfsvígshugsunum og er mikil sjálfsvinna fyrir höndum. Mér þótti bókin renna lipurlega. Stíllinn er góður og áreynslulaus og flæðir lesandinn auðveldlega í gegnum kaflanna með tilheyrandi spennu um hvað koma skal. Það eru margar fallegar línur í bókinni án þess þó að það trufli flæðið. Þegar á líður í bókinni verða hugsanir Hallgríms tættari og hugur hans fer enn hraðar úr einu í annað og mörkin milli hugsana og raunveruleikans verða óskýrari; Þannig upplifir lesandinn með sögumanninum hvernig hann hægt og rólega að missir jarðtenginguna. En hér má lesa meira um bókina.
Eva Marcinek
Ísland pólerað er fyrsta bók rithöfundarins Ewu Marcinek sem á rætur sínar að rekja til Póllands en er búsett í Reykjavík. Bókin kom út fyrr á þessu ári. Þrátt fyrir að þetta sé fyrsta bók hennar þá hefur hún birt fjölda ljóða og sagna m.a. í Tímariti Máls og menningar, Ós Pressunni og bókinni Pólifónía af erlendum uppruna. Ísland pólerað er samanafn samtengdra ljóða og örsagna úr raunveruleika pólskrar konu sem flytur frá heimalandi sínu til að flýja hræðilegt áfall. Áður en bókin kom út var leiksýning byggð á verkinu sýnd í Tjarnarbíói, Polishing Iceland. Í dómi sínum um bókina segir Rebekka Sif meðal annars: „Verkið dregur fram í ljósið reynslu innflytjenda á Íslandi, fordóma Íslendinga og tillitslausa hegðun þeirra gagnvart þeim sem eru að læra tungumálið. En verkið er fyrst og fremst áfallasaga, hvernig konan tekst á við áfallastreituna í kjölfar kynferðisbrotsins, í nýju landi. Bókin varpar einnig ljósi á þrá manneskjunar til að vera skilin, ekki sífellt misskilin. Þrána fyrir að fólk hafi samkennd með hvort öðru líkt og má sjá í ljóðinu hér til hægri.“ Hér má lesa meira um bókina.
Valgerður Ólafsdóttir
Konan hans Sverris eftir Valgerði Ólafsdóttur, sálfræðing og kennara vakti mikla athygli við útgáfu í fyrra. Bókin fjallar um Hildi, konuna hans Sverris og Sverri, manninn hennar Hildar. Það þarf ekki að tala undir rós um það að Sverrir beitir Hildi andlegu, og stundum líkamlegu, ofbeldi innan heimilisins. Bókin er uppgjör Hildar á þeirra stormasama sambandi og hjónabandi en hún var aðeins 17 ára þegar þau kynntust fyrst en hún slapp ekki frá honum fyrr en um fertugt. Saman eiga þau tvo drengi, Sölva og Matta, sem horfa upp á föður sinn koma illa fram við móður þeirra og alast upp í erfiðum heimilisaðstæðum þar sem móðirin er stöðugt hrædd. Rebekka Sif las bókina í einum rykk og segir meðal annars í dómi sínum: „Konan hans Sverris er einstök bók sem ætti að fá ríkulega athygli. Lesandinn fer í ferðalagið með Hildi í gegnum ofbeldissambandið sem hefur einkennt stærstan hluta lífs hennar, finnur til með henni, valdeflist með henni og að lokum nær sátt. Bókin er einstaklega vel skrifuð og af mikilli næmni, auðvelt er að mæla með þessarri bók.“ Hér má lesa meira um bókina.
Kíktu á þessar færslur eða flokka og finndu næstu bók fyrir þig:
Þessu lýkur hér – bók sem kemur á óvart
Bók Colleen Hoover, Þessu lýkur hér, eða It Ends With Us eins og hún heitir á frummálinu, hefur vakið mikla lukku meðal lesenda sinna. Á samfélagsmiðlinum TikTok hefur hún komist inn á BookTok, en hér tala ég ekki af mikilli innsýn. Mín reynsla af TikTok einskorðast...
No Results Found
The page you requested could not be found. Try refining your search, or use the navigation above to locate the post.