Ísland pólerað er fyrsta bók rithöfundarins Ewu Marcinek sem á rætur sínar að rekja til Póllands en er búsett í Reykjavík. Þrátt fyrir að þetta sé fyrsta bók hennar þá hefur hún birt fjölda ljóða og sagna í m.a. Tímariti Máls og menningar, Ós Pressunni og bókinni Pólifónía af erlendum uppruna (Una útgáfuhús, 2021).

Ísland pólerað er samanafn samtengdra ljóða og örsagna úr raunveruleika pólskrar konu sem flytur frá heimalandi sínu til að flýja hræðilegt áfall. Áður en bókin kom út var leiksýning byggð á verkinu sýnd í Tjarnarbíói, Polishing IcelandÉg sé mikið eftir að hafa ekki séð sýninguna en hún fékk prýðilega dóma í bæði Fréttablaðinu og Tímariti Máls og menningar. Ísland pólerað kemur út á íslensku hjá JPV útgáfu en þýðandi er Helga Soffía Einarsdóttir. 

Samblöndun mismunandi forma

Í upphafi bókar á sér stað árás, ljóðmælandi verður fyrir barðinu á ofbeldismanni. Ljóðin endurspegla hræðsluna sem konan finnur fyrir þegar hún gengur heim til sín að næturlagi.

Lykill.

Hnífur.

Lykill.

Hnífur.

Lykill er hnífur

stundum.

(bls. 7)

Höfundur notar endurtekningar til að leggja áherslu á hættuna sem steðjar að, kvíða og ótta konunnar. Eftir árásina er ljóðræn frásögnin brotin upp með hefðbundnari örsögu sem útlistar því sem gerðist. Við taka aftur óbundin ljóð í bland við prósaljóð. Svona blandast þessi þrjú form í gegnum bókina, alltaf til skiptis. Þetta skapar ákveðin takt í verkinu sem tekur breytingum við skipti á formi. Takturinn er einnig notaður til að byggja upp spennu og leysa svo úr henni. Konan ákveður að flytja til Íslands, sálfræðingurinn hennar mælir frekar með að hún takist á við sorgina í Póllandi, segir:

Ísland er bara frystir. Það á ekki eftir að hjálpa þér að jafna þig. (bls. 49)

„Viltu sýna mér hver þú ert?“

Verkið dregur fram í ljósið reynslu innflytjenda á Íslandi, fordóma Íslendinga og tillitslausa hegðun þeirra gagnvart þeim sem eru að læra tungumálið. En verkið er fyrst og fremst áfallasaga, hvernig konan tekst á við áfallastreituna í kjölfar kynferðisbrotsins, í nýju landi. Bókin varpar einnig ljósi á þrá manneskjunar til að vera skilin, ekki sífellt misskilin. Þrána fyrir að fólk hafi samkennd með hvort öðru líkt og má sjá í ljóðinu hér til hægri.

„Viltu poka?“

„Já, takk.“

Á móðurmáli mínu hljómar poka eins og sýna mér.

Viltu poka? Viltu sýna mér hver þú ert?

Trúðu mér, ég myndi gera það ef ég kynni.

(bls. 55)

 

Konan fer að vinna á veitingastað sem þjónn. Þar ganga samskiptin við viðskiptavinina misvel og eru það þá sérstaklega Íslendingarnir sem hafa litla þolinmæði fyrir manneskju sem er enn að læra tungumálið. Ímyndaðar samræður eiga sér stað í höfðinu á henni þar sem sést hvað hún myndi segja ef hún hefði orðaforðann til þess, hvað hún þráir að geta tjáð sig og gert sig skiljanlega. Í einni sögu neitar kúnni að láta útlending þjóna sér, í annarri spjallar konan við eldri konu á íslensku en hún svarar henni alltaf á ensku, hunsar algjörlega að hún talar og skilur málið, einfaldlega því eldri konan heyrir að hún er ekki íslendingur á hreimnum. Sú gamla segist samt hafa átt pólskan kærasta:

Við hittumst rétt eftir að hann kom úr fangelsi. Pólland B. Maður á ekki að hleypa svona fólki að. Það skilur bara eftir sig þessa slæmu … já, mjög slæmu ímynd af ykkur öllum! Þið pólerandi fólkið eruð svo gott fólk, svo almennilegt. Og duglegt! Eins og hundar. (bls. 73)

Eldri konan talar niður til hennar og allra pólverja með þessum alhæfingum, og varpar ljósi á sína eigin fáfræði í leiðinni. 

Þrítyngt skrímsli

Það sem er einnig einstakt við þessa bók er leikurinn við tungumálið, orðin, þýðinguna sem á sér stað í höfði manneskju sem er að læra nýtt tungumál. Sum orð eru til í bæði íslensku og pólsku en hafa allt aðra merkingu:

Kona.

Íslenska „kona“ er „að deyja“ á pólsku.

Kobieta kona

Kona er að deyja

[…]

(bls. 75)

Einnig breytist sjálfsmyndin þegar manneskja þarf að finna sig í nýju landi, nýrri menningu. Þetta lýsir Ewa virkilega vel í eftirfarandi ljóði: 

Stundum finnst mér ég vera þrítyngt skrímsli, klofin sál. Hver tunga hefur sitt eigið líf, sínar eigin sögur að segja, eigin gæsir að grípa. Hver tunga teygir sig og þreifar eftir og leitar að einhverju meira. 

(bls. 88)

Ísland pólerað er áhrifamikið verk sem ætti að rata á náttborðið hjá öllum Íslendingum. Mikilvægt er að öðlast skilning á upplifun þeirra sem flytja til Íslands og þurfa að takast á við ósanngjarna fordóma vegna þess eins að geta ekki lært tungumálið á mettíma. Vegna þess að þau eru með örlítin hreim. Verkið fjallar um sársauka, áföll og hvernig er hægt að fóta sig í nýrri menningu sem getur verið virkilega fráhrindandi gagnvart innflytjendum. Verkið er líka launfyndið, hæðnin skín í gegn á mörgum stöðum, írónían er alltaf sterkt verkfæri til að koma fram samfélagsádeilu og tekst Ewu einstaklega vel að beita henni. Ef það er eitthvað sem ég get sett út á þá hefði ég viljað lengra verk, lengri bók til að kafa enn dýpra ofan í þessi málefni á þennan ljóðræna og áhrifamikla máta. Ég bíð spennt eftir næsta verki eftir Ewu.

Lestu meira

Lestu þetta næst

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...