Trúðurinn er athvarf og opinberun – Hið stórkostlega ævintýri um missi í Tjarnarbíó

Ég geng inn í fremur nýlega endurhannað Tjarnarbíó til að sjá sýninguna Hið stórskostlega ævintýri um missi. En ákall leikara og annarra listamanna stendur nú yfir um stækkun leikhússins með yfirskriftinni „stækkum Tjarnarbíó“. Þar er verið að kalla eftir því að meira rými sé gefið til að hægt sé að fjölga sjálfstæðum leiksýningum. Og ég verð að segja að Tjarnarbíó er kærkomin og gríðarlega mikilvæg viðbót í menningarflóru borgarinnar. Oftar en ekki eru þar sýnd hugrökk og áhugaverð verk, langflest frumsamin. Svo vonandi nær ákallið í rétt eyru.

Innileg veisla

Stemmingin í Tjarnarbíó þetta kvöldið er eins og ég sé að lauma mér inn í innilega veislu. Og jú aðalleikkonan tekur á móti gestum þegar þeir ganga inn  í salinn og heilsar. Það er mjög vinalegt andrúmsloft. 

Verkið er einleikur Grímu Kristjánsdóttur en í því fjallar hún um mjög persónulegt málefni, um fráfall beggja foreldra sinna. Þær eru þó tvær sem túlka þessa erfiðu reynslu, þær Gríma og Jójó. En með hjálp trúðsins Jójó getur Gríma sagt frá þessari erfiðu og mótandi lífsreynslu á hispurslausan og opinskáan hátt. Það er leið sem Gríma boðar að sé mikilvæg til að vinna úr áfalli sem slíku. Þetta er því samtalsverk. En þær Gríma og Jójó eiga í ákveðinni togstreitu um hvernig skal segja frá þeim sem eru horfnir. Og ef það er ekki umfjöllunarefnið sem snertir okkur öll að þá er það einlægnin hjá Grímu sem fangar fljótt alla áhorfendur í salnum. 

Einlægur einleikur

Verkið er mjög einlægt á marga vegu. Þarna er hún bæði að opinbera eigið líf, eigin tilfinningar. En hún gerir það líka á hátt sem er svo auðmjúkur. Það er hrátt og opinskátt en Gríma er líka svo sjarmerandi sjálf, þrátt fyrir að fela sig á bak við trúðinn Jójó til að tjá tilfinningar sínar. Því trúðurinn gefur rými fyrir sorgina. Hann er bæði vörn okkar fyrir henni og líka mikilvægur hluti af henni. Hláturinn og kómíkin dulbúa erfiðar minningar en afhjúpa þær á sama tíma. Í þeim er athvarf til þess að segja sannleikann. En um leið sýnir hann okkur hvað sá sannleikur er fallegur og innilega mennskur. Tilfinningarnar og ástin til fólksins okkar getur aldrei verið einfölduð. 

Hrár lífskjarni

Hið stórskostlega ævintýri um missi er falleg og hreinskilin sýning, en hún er líka drepfyndin og sár á sama tíma. Hún sýnir okkur hvað listin getur verið ótrúlega merkileg og falleg útrás fyrir tilfinningar og gefið rými fyrir aðra til að spegla sig í þeirri tjáningu. Sýningin hefur að geyma einhvern dýrmætan lífskjarna. Það hversu hrá hún er – hvað Gríma er óhrædd við að hlæja yfir eigin mistökum jafnvel – styrkir hana og gefur henni enn meiri vigt.  

Lestu meira

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...