Sápufuglinn eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur er lítil bók með, þori ég að segja það, stóru innihaldi. Bókin er smátt smásagnasafn sem inniheldur aðeins þrjár sögur, tvær stuttar og eina langa. Áður hefur María Elísabet gefið út smásagnasafn í fullri lengd, Herbergi í öðrum heimi (2020), sem vakti mikla og góða athygli.
Útgáfa bókarinnar er eftirtektarverð enda er ekki oft sem það kemur svona stutt smásagnasafn út á íslensku. Einhverjir kannast kannski við Penguin útgáfuna sem hefur gefið út smáar bækur í fallegri seríu. Æðislegar tækifærisgjafir.
Hinn smái Sápufugl kom út í samfloti með leikritinu Ókyrrð eftir Brynju Hjálmsdóttur og er því þetta skemmtilegt útspil hjá Unu útgáfuhúsi, litlar fallegar bækur í sumarútgáfu til að lífga aðeins upp á sumarið.
Bómullarkynslóðin
Titilsaga bókarinnar „Sápufuglinn“ er einnig lengsta sagan og fær því lesandinn að kynnast persónum hennar best, ónefndum sögumanni, Jóhönnu sem er vinkona eða einhverskonar ástkona hennar, og Ýri, sem virðist ætla að koma upp á milli sögumanns og Jóhönnu. Andrúmsloft sögunnar er lifandi og þrungið tilfinningum sögumanns, rúmlega tvítugrar stúlku, sem á erfitt með að finna festu í tilverunni. En þegar hún kynnist Jóhönnu, aðeins eldri konu sem keyrir vörubíl fyrir mjólkusamsöluna, breytist líf hennar til hins betra og þær flytja inn saman.
Sögumaðurinn er fulltrúi ungu kynslóðarinnar, „bómullarkynslóðarinnar“ eins og móðir sögumanns kallar hana, og nær smásagan því að tala beint inn í samtímann: „Mamma vissi ekki að á þessum tímapunkti var ég svefnlaus af áhyggjum yfir framtíðinni og eyddi heilu og hálfu nóttunum á TikTok.“ (bls. 41) Sögumaður stundar það einnig að horfa á þætti sem hún hefur séð ótal sinnum áður: „Þar gat ég ekki rekist utan í neitt óþægilegt og ekkert raskaði jafnvæginu.“ (bls. 42) Þetta hámhorf á þætti sem munu aldrei breytast og eru algjörlega fyrirsjáanlegir er merki um kvíða þessarar kynslóðar og þrána fyrir því að finna stöðugleika, festu í lífinu. En þó liggur heilmikil hæðni í þessum lýsingum líka: „Mér fannst ég eiga um frekar sárt að binda þótt það sæist ekki utan frá.“ (bls. 41) Þetta eru jú auðvitað svokölluð „fyrsta heims vandamál“.
Að vera öðruvísi
En megin umfjöllunarefni sögunnar, fyrir utan þroskasögu sögumanns, er samband sögumanns og Jóhönnu. Inn í þetta kemur svo hinn táknræni sápufugl sem sögumaður geymir í felum á meðan hún bíður eftir rétta deginum til að gefa Jóhönnu. Tilgangurinn er óljós en augljóst er að Sápufuglinn hefur mikla þýðingu fyrir sögumanninn, mögulega vill hún nota hann til að sýna Jóhönnu hvað henni þykir vænt um hana. Sögumaðurinn er nefnilega í mikilli sjálfsmyndarleit og finnur sig ekki sem kynveru: „… ég er bara ekki fyrir aðra líkama, ekki stráka, ekki stelpur, ekki neitt, fattarðu.“ (bls. 46) Fjallað er um eikynhneigð (e. asexual) og fær lesandinn að fylgjast með sögumanni kljást við það að geta ekki sinnt kynferðislegum þörfum Jóhönnu, og sem mikilvægara er, horfast í augu við eigin líðan og upplifanir og sættast við þær.
„Hann sat á litlum stöpli og var svo fallegur að ég gat ekki slitið augun af honum. Ég horfði á hann eins og ég biði eftir því að sjá hann gera eitthvað, ýta sér að brúninni, blaka vængjum og takast á loft.“
Marglaga frásögn
Titilsaga bókarinnar er sú langsterkasta eins og þessi stutta umfjöllunum um hana hér fyrir ofan gefur til kynna. Hún er marglaga og í henni er kafað ofan í mikilvæg málefni, samskipti, valdaójafnvægi og hinseginleika. Vegna þessa standa hinar tvær sögurnar í Sápufuglinum ekki jafn sterkar og hefði bókin jafnvel mátt innihalda aðeins titilsöguna. Styttri sögurnar hefðu notið sín betur í lengra safni. Þrátt fyrir það eru sögurnar „Til hamingju með afmælið“ og „Dvergurinn með eyrað“ einnig vel heppnaðar. „Til hamingju með afmælið“ greip mjög vel hegðun og hugsanir ungrar stúlku sem heldur vini sínum, sem er augljóslega hrifinn af henni, heitum og gefur honum aðeins undir fótinn þegar enginn betri elskhugi býðst. „Dvergurinn með eyrað“ er furðuleg lítil saga, töluvert ólík hinum tveimur, margt liggur undir yfirborðinu og er óútskýrt. Þegar lesandinn byrjar að sætta sig við það kemur sagan heim og saman en ég hefði þó sjálf viljað lengri sögu þar sem kafað væri dýpra í efnið.
Sápufuglinn er bók sem væri hægt að skrifa mikið um þrátt fyrir lengd hennar. Stíllinn er heillandi, það eru engir endurnýttir frasar, heldur lifandi tungumál á hverri síðu. Þó að lengsta sagan sé jafnframt sú sterkasta eru styttri sögurnar „Til hamingju með afmælið“ og „Dvergurinn með eyrað“ einnig vel heppnaðar og vekja lesandann til umhugsunar.
Lestu meira
Ágengir fyrrverandi íbúar valda usla
Það eru örfáir dagar eftir af október þegar þetta er skrifað og Hrekkjavakan nálgast óðfluga. Að venju á þessum árstíma fyllast allir bókakimar samfélagsmiðla af myndum af fólki að drekka Pumpkin Spice Latte í kósýlestri með hrollvekjur og aðrar hryllingssögur. Ég mun...
Mögnuð fegurð í myrkrinu
Þegar dansarinn og danshöfundurinn Sigríður Soffía Níelsdóttir var að klára MBA nám, með 14 mánaða barn á brjósti bjóst hún ekki við að fá krabbamein. Ég geri ráð fyrir að hún hafi heldur ekki búist við að skrifa um reynsluna bók og svo leik- og dansverk byggt á...